133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn.

[13:35]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég var einmitt á sömu ráðstefnu og hv. þingmaður. Það var mjög gleðilegt að sjá hvað þar var góð mæting og hve vel var staðið að þessum degi, alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum. Það er alveg ljóst að breytingar hafa orðið varðandi málefni þeirra sem við geðraskanir eiga að stríða. Ný hugsun er komin inn í þann málaflokk og lögð er miklu meiri áhersla á að notendur eða þeir sem eiga við þessar raskanir að stríða komi að meðferðinni sem þeir sjálfir njóta, hafi meiri áhrif á hana, og komi líka betur að allri stefnumótun. Þessi nýja hugsun er staðfest af okkar hálfu í ýmsum lögum og ég vil nefna t.d. lög um réttindi sjúklinga. Þar kemur fram að sjúklingar eiga rétt á því að vera virkir þátttakendur í sinni meðferð og hafa áhrif á hana. Það er líka ákvæði um þetta í heilbrigðisáætlun og svo má ekki gleyma Helsinki-yfirlýsingunni sem vegur kannski þyngst í þessu sambandi. Þar hafa heilbrigðisráðherrar skuldbundið sig til að auka samstarf við notendurna.

Ég vil í tilefni dagsins upplýsa að við erum að styrkja heilbrigðisráðuneytið í því að vinna í Helsinki-yfirlýsingunni. Við erum að ráða til okkar í hlutastarf geðlækni, Ólaf Þór Ævarsson, sem mun einmitt styrkja starf ráðuneytisins á þessu sviði. Það er búið að taka mörg góð skref upp á síðkastið í þessum málaflokki. Ég vil nefna stefnumótun okkar varðandi málefni barna sem eiga við geðraskanir og ofvirkni að stríða. Þar var tekið tillit til óska foreldrasamtaka og reynt að hafa virkt samráð við þá sem best þekkja til. Ég vil líka nefna það sem verið var að kynna í gær á vegum félagsmálaráðherra, ný búsetu- og þjónustuúrræði þar sem mjög virkt samráð var haft við notendur. Ég tel því að við séum að gera stórkostlega hluti í þessum málaflokki.