133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn.

[13:42]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Í gær voru sannkölluð tímamót í þjónustu við geðfatlaða og geðsjúka í samfélaginu þar sem verkefnisstjórn um bætta þjónustu við geðfatlaða kynnti stefnumótun sína og framkvæmdaáætlun til 2010 um búsetu og stoðþjónustu. Þar var verið að kynna afrakstur vinnu sem staðið hefur í rúmt ár en ríkisstjórnin ákvað á síðasta ári að verja hluta af söluandvirði Símans til aukinnar og bættrar þjónustu við geðfatlaða úti í samfélaginu. Þetta er sérstakt átak þar sem við erum að færa þjónustuna í það horf sem við viljum sjá hana í til framtíðar. Leiðarljósið í þessari vinnu hefur verið aukin lífsgæði, aukin þátttaka geðfatlaðra í samfélaginu. Ég fagna því sérstaklega að hv. þm. Ásta Möller skuli taka málið upp í upphafi þingfundar á þessum degi, alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum.

Það er einmitt svo að sú nýja hugsun sem hún talaði um áðan ríkir í þessu verkefni þar sem notendur og aðstandendur þeirra sem eiga við geðsjúkdóma að stríða taka virkan þátt í mótun og framkvæmd þessarar stefnu með því að vera í svokölluðum ráðgjafahópi með verkefnisstjórninni. Í tíð þessarar ríkisstjórnar, eins og sést í ríkisstjórnarsáttmálanum sem unnið er eftir á þessu kjörtímabili, hafa málefni geðfatlaðra og geðsjúkra verið tekin sérstaklega fyrir og er nú unnið í anda Helsinki-yfirlýsingarinnar. Í þeim anda verður unnið áfram, í þeim anda að félags- og heilbrigðiskerfið vinni áfram að þessum málum og láti það ekki koma í veg fyrir að þjónustan verði bætt þó að hún verði á hendi fleiri en eins aðila. Við eigum að færa þjónustu við geðsjúka og geðfatlaða frá stofnanaþjónustu og út í samfélagið. Ég fagna því sérstaklega að umræðan í þinginu, sem vill oft markast af því hve mörg rúm séu í boði eða hve margar deildir séu í boði, virðist vera að færast í það horf að við ræðum um aukin lífsgæði, aukna og betri þjónustu og þátttöku geðfatlaðra í samfélaginu.