133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn.

[13:50]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er við hæfi á þessum degi að benda hv. alþingismönnum á að geðsjúkdómar á hverjum tíma endurspegla samfélagið og breytast eftir því í hvers konar samfélagi menn búa. Það geta þeir vitnað um sem hafa lesið sögu geðsjúkdóma.

Krafan um fjölbreytta þjónustu er eðlileg. En það er líka mikilvægt að menn hafi í huga að krafan um fjölbreytta þjónustu þýðir ekki að þjónustan kosti minna. Það þarf að verja meiri fjármunum í þennan málaflokk. Það verður að verja meiri fjármunum í að bæta þjónustu við geðsjúka þannig að fleiri nái bata og komist aftur út í samfélagið. Það þarf líka að verja meiri fjármunum í baráttuna gegn fordómum sem búa innra með okkur öllum, líka þeim sem verða lasnir.

Það þarf að benda fólki ítrekað á þá staðreynd að þó að fólk verði geðveikt — og fimmti hver Íslendingur verður geðveikur einhvern tímann á ævinni — er leiðin til bata orðin greiðfærari en nokkru sinni fyrr. Það er m.a. vegna þess að þjónustan hefur batnað. Sjúklingar hafa sjálfir tekið stjórnina. Það er líka vegna þess að lyfin hafa batnað. Það má heldur ekki sveiflast pólanna á milli í þessari umræðu og halda að einn daginn sé allt leyst með einni aðferð og segja lyfjunum stríð á hendur. Lyfin bæta lífsgæði fólks. Við skulum ekki gera lítið úr því hvað það er þýðingarmikið ásamt því að geðsjúkir fái fullt umboð til að taka stjórn á sínum eigin sjúkleika og ná bata á eigin forsendum.