133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn.

[13:52]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram og er viðeigandi á þessum degi, alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum. Það er alveg ljóst, og hefur komið fram í máli margra hv. þingmanna hér í dag, að málefni geðsjúkra og geðfatlaðra varða fleiri en eitt ráðuneyti. Það var önnur af þeim spurningum sem ég varpaði fram til ráðherra, hvernig hún muni beita sér fyrir því að samræma sjónarmið í þessum málaflokki þar sem þau varða svo mörg ráðuneyti.

Það er nefnilega þannig að málefni geðsjúkra falla undir heilbrigðisráðuneytið, en hins vegar falla málefni geðfatlaðra undir félagsmálaráðuneytið. Mismunandi viðhorf hafa ríkt í þessum tveim geirum og þau þarf að samræma.

Jafnframt vil ég taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, varðandi hin ýmsu meðferðarúrræði sem standa til boða. Það er nefnilega þannig að þegar ný hugsun kemur inn í ákveðna þjónustu eða ákveðinn geira þá þýðir það ekki að yfirgefa eigi hin gömlu úrræði. Það þarf að hlúa að þeim líka, hlúa að því sem vel er gert.

Eitt af því sem var athyglisvert á ráðstefnunni um geðheilbrigðismál, sem ég var á í morgun, var að það þyrfti virkilega að beita sér í því að koma í veg fyrir fordóma, að takast á við fordóma, bæði eigin fordóma og annarra.

Það má hins vegar ekki verða svo að þeir fordómar sem eru í samfélaginu gagnvart geðsjúkum, en eru þó á undanhaldi, færi sig yfir á heilbrigðiskerfið og á lyfin. Það má ekki gerast. Lyfin eru mikilvægur þáttur í meðferð geðsjúkra og oft sá þáttur sem gerir fólki kleift að lifa áfram með þennan sjúkdóm. Ég fagna umræðunni og ég fagna þeim áherslubreytingum sem eru að verða í þessum málaflokki.