133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[13:58]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2006, 47. mál þingsins á þskj. 47. Með frumvarpinu er lögð fyrir Alþingi endurskoðuð áætlun um tekjur í samræmi við endurskoðaða þjóðhagsspá og tillögur um breytingar á fjárheimildum ýmissa fjárlagaliða ársins 2006.

Frumvarpið byggir einnig á endurmati á helstu hagrænu forsendum fjárlaganna, áhrifum af lögbundnum útgjaldaliðum, samningum og ýmsum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um mál sem fram hafa komið eftir afgreiðslu fjárlaga. Frumvarpið er lagt fram í upphafi þinghaldsins samhliða fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár. Með því móti er þinginu gert kleift og fjárlaganefnd að fjalla samtímis um áætlanir fyrir bæði árin og ljúka afgreiðslu frumvarpanna samkvæmt starfsáætlun.

Í fjárlögum þessa árs var áætlað að tekjuafgangur ríkissjóðs yrði 19,6 milljarðar kr., en nú er áætlað að hann verði 49 milljarðar. Tekjuafganginum verður varið til að bæta stöðu ríkissjóðs enn frekar og nú er gert ráð fyrir að varið verði 23,4 milljörðum kr. til að greiða niður skuldir í stað 11,4 milljarða eins og áformað var áður. Þá batnar staðan við Seðlabanka um 17 milljarða kr. í stað þess að rýrna um 0,7 milljarða. Það skal tekið fram að hér er átt við áætlaða útkomu ársins eins og fjallað er um í greinargerð frumvarpsins. Munar nokkru á því sem fram kemur í rekstraryfirliti og sjóðsstreymi í 1. og 2. gr. frumvarpsins en það stafar af því annars vegar að yfirleitt er sótt um einhverjar heimildir vegna útgjalda sem hafa verið gjaldfærð á liðnum árum, t.d. halla á tilteknum verkefnum og hins vegar að staða fjárheimilda færist frá fyrra ári og til næsta árs og það getur síðan verið nokkuð breytilegt hvernig fjárveitingar eru nýttar á hverju ári, t.d. vegna vegaframkvæmda.

Tekjur ríkissjóðs hafa verið endurmetnar í ljósi niðurstöðu ríkisreiknings 2005 og þróunarinnar það sem af er þessu ári og er áætlað að þær aukist um 40,4 milljarða kr. frá fjárlögum og verði 375 milljarðar. Efnahagsumsvif hafa verið meiri en gert var ráð fyrir bæði árin 2005 og 2006. Áætlað er að skatttekjur lögaðila verði mun meiri en áætlað var vegna betri afkomu fyrirtækja á árinu 2005 en reiknað hafði verið með. Þá aukast tekjur af tekjusköttum einstaklinga vegna meiri launabreytinga og meiri fjölgunar vinnuafls en áætlað var. Loks eru auknar tekjur af eftirsköttum vegna meiri umsvifa í efnahagslífinu og hækkunar ráðstöfunartekna heimilanna.

Meginskýring aukinna tekna eru því auknar tekjur ríkissjóðs. Er áætlað að þjóðarútgjöld aukist um 5,2% árið 2006 en áætlað var að þau ykjust um 2,9% í fjárlögum.

Aukin þjóðarútgjöld eiga að stærstum hluta rætur að rekja til meiri fjárfestinga atvinnuveganna og meiri íbúðabygginga en áætlað var í fjárlögum. Horfur eru á að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann aukist um 5,7% í stað 2,7% eins og áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir.

Í frumvarpinu er lagt til að útgjaldaheimildir verði auknar um 14,3 milljarða kr. til að mæta ýmsum tilefnum. Þar af er sótt um tæplega 5,5 milljarða kr. hjá fjármálaráðuneyti en af þeim eru 3 milljarðar vegna gjaldfærslu afskrifaðra skattkrafna í ljósi endurskoðunar á tekjuáætlun og 2,5 milljarðar vegna launa- og verðlagsmála, einkum vegna hækkunar á launum ófaglærðra og áhrifa af breytingum á gengi krónunnar á árinu. Farið er fram á rúma 2,2 milljarða kr. til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, þar af eru 1,9 milljarðar kr. vegna lífeyristrygginga í kjölfar samkomulags við Landssamband eldri borgara sem nær einnig til öryrkja.

Lögð er til tæplega 1,8 milljarða hækkun á framlögum til samgönguráðuneytisins. Þar af er 1 milljarður vegna bætts öryggis á vegum úr höfuðborginni, 500 millj. kr. er framlag í Fjarskiptasjóð þar sem útboð á vegum sjóðsins eru hafin og sótt er um 100 millj. kr. til landkynningarmála.

Farið er fram á að fjárheimildir dóms- og kirkjumálaráðuneytis hækki um 1,2 milljarða kr. Þar af eru 500 millj. kr. til eflingar þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og 500 millj. kr. til smíði á nýju varðskipi en gert er ráð fyrir að smíðin hefjist á þessu ári.

Samtals er lagt til að framlög til félagsmálaráðuneytis aukist um tæplega 400 millj. kr. en það skiptir í tvö horn. Annars vegar er farið fram á ríflega 1 milljarð kr. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem leiðir af auknum skatttekjum ríkisins á árinu en hins vegar lækka framlög til atvinnuleysisbóta um 500 millj. kr. vegna minna atvinnuleysis.

Þá gerir endurskoðuð áætlun um Fæðingarorlofssjóð ráð fyrir 200 millj. kr. lækkun útgjalda frá áætlun fjárlaga. Farið er fram á 865 millj. kr. fjárheimild til menntamálaráðuneytis, þar af eru 240 millj. kr. vegna fjölgunar nemenda í framhaldsskólum, 150 millj. kr. til stofnkostnaðar menningarstofnana og 120 millj. kr. til að gera menningarsamninga á landsbyggðinni. Lagt er til að fjárheimildir landbúnaðarráðuneytis verði auknar um rúmlega 740 millj. kr. og munar þar mestu um 330 millj. kr. til að styrkja byggingu reiðhalla af söluandvirði eigna Lánasjóðs landbúnaðarins, og tæplega 340 millj. kr. vegna verðuppfærslu búvörusamninga. Sótt er um 640 millj. kr. til utanríkisráðuneytisins, þar af eru 540 millj. kr. aukin útgjöld Keflavíkurflugvallar og til öryggisgæslu vegna brotthvarfs varnarliðsins. Breytingar á útgjöldum annarra ráðuneyta eru minni, en þar má helst nefna 174 millj. kr. til Hafrannsóknastofnunar vegna ýmissa verkefna og 128 millj. kr. til Ofanflóðasjóðs vegna uppkaupa á íbúðarbyggðunum í Hnífsdal. Loks aukast vaxtagjöld ríkissjóðs um 570 millj. kr. þrátt fyrir aukna niðurgreiðslu skulda og skýrist það af hækkun vaxta og ákvörðunar um að auka framboð á ríkisverðbréfum innan lands til að stuðla að virkri verðmyndun á fjármálamarkaði. Vísa ég til greinargerðar frumvarpsins til frekari skýringar á einstökum tillögum.

Frú forseti. Mun ég nú víkja nokkrum orðum að endurskoðuðu sjóðsstreymi ríkissjóðs árið 2006. Eins og fram kom í upphafi er nú áætlað að tekjuafgangur ríkissjóðs verði tæplega 50 milljarðar kr. í stað tæplega 20 milljarða eins og áætlað var í fjárlögum. Verður aðhald ríkisfjármála því mun meira en gert var ráð fyrir eða 4,4% af landsframleiðslu í stað þess að vera 1,7% eins og áætlað var í fjárlögum. Gert er ráð fyrir að handbært fé frá rekstri verði 47 milljarðar kr. í stað 15,5 milljarða og eykst því um 31,5 milljarða frá áætlun fjárlaga. Handbært fé frá rekstri er það fé sem regluleg starfsemi ríkissjóðs skilar.

Áætlað er að fjármunahreyfingar verði neikvæðar um 2,6 milljarða en áætlað var að þær yrðu neikvæðar um 0,8 milljarða í fjárlögum. Skýringin felst einkum í því að nú er gert ráð fyrir að leggja eins milljarðs kr. stofnfé í Nýsköpunarstöð á þessu ári en áformað var að framlagið yrði greitt árið 2005. Þá verða veitt lán ríkissjóðs 275 millj. kr. meiri en áætlað var í fjárlögum vegna aukinna lánveitinga til Lánasjóðs ísl. námsmanna.

Að teknu tilliti til fjármunahreyfinga verður lánsfjárafgangur 44,4 milljarðar, sem er tæplega 30 milljörðum meiri afgangur en áætlað var í fjárlögum. Lánsfjárafgangur er það fé sem ríkissjóður hefur til ráðstöfunar til að greiða niður skuldir eða bæta stöðu sína á annan hátt. Lagt er til að lánsfjárafganginum verði varið til að greiða niður skuldir er nemi 23,4 milljörðum í stað 11,4 milljarða í fjárlögum og staðan við Seðlabanka verði bætt um 17 milljarða kr. í stað þess að rýrna um 0,7 milljarða eins og áætlað var í fjárlögum. Þannig verða skuldir ríkissjóðs lækkaðar verulega á þessu ári og staða á sjóði Seðlabanka styrkist til að mæta framtíðarskuldbindingum.

Frú forseti. Ég hef nú rakið helstu efnisatriði frumvarpsins sem sýna að afkoma ríkissjóðs og aðhald í ríkisfjármálum verður mun meira en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar þingsins.