133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:08]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er athyglisvert nú þegar hæstv. fjármálaráðherra leggur fram sitt fyrsta fjáraukalagafrumvarp að lítið hefur áunnist í því að nálgast það að fara eftir fjárreiðulögum. Taldi ég þó að hæstv. fjármálaráðherra væri mikill áhugamaður um slíkt. Þetta er nokkuð áberandi, m.a. nefni ég dæmi um að víða er verið að mæta uppsöfnuðum halla fyrri ára í fjárlagafrumvarpi fyrir 2006. Halli sem hefur átt sér stað á öðrum árum á að sjálfsögðu heima í fjárlagafrumvarpi.

Síðan er ekki einu sinni regla á milli þess, þ.e. sums staðar er þetta gert, annars staðar ekki, og víða sjáum við afar sérkennilega hluti og, frú forseti, þar sem hæstv. fjármálaráðherra hefur nú ákveðið að bjóða sig fram í miklu hrossaræktarkjördæmi tel ég eðlilegt að spyrja hann út í eitt það sérkennilegasta sem ég hef séð í þessu frumvarpi.

Það segir á bls. 63, með leyfi forseta:

„Þá er farið fram á 22,5 millj. kr. fjárveitingu vegna ógreiddra framlaga til átaksverkefnis um kynningu og markaðssetningu á íslenska hestinum.“

Síðan er fram haldið. Kemur fram að þetta er byggt á samningi sem gerður var árið 2003 milli þriggja ráðuneyta, þ.e. landbúnaðarráðuneytis, utanríkisráðuneytis og samgönguráðuneytis. Gert er ráð fyrir að frá hverju ráðuneyti sé 3 millj. kr. árlegt framlag og þess vegna er eiginlega algjörlega óskiljanlegt hvernig beðið er um 22,5 millj. kr. hjá landbúnaðarráðuneyti í fjáraukalögum fyrir árið 2006 vegna þess að heildarframlag landbúnaðarráðuneytis átti miðað við samninginn á öllum fimm árunum, frá 2003–2008, að vera samtals 15 millj. kr. Hér er því eitthvað sérkennilegt á ferli og það er augljóst mál að eitthvað hefur verið ógreitt aftur í tímann og maður hlýtur því að spyrja sig og eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra upplýsi okkur um það: Hvernig hefur þetta verkefni verið fjármagnað ef framlögin hafa ekki verið greidd? Hvaða hundakúnstir eru hér á ferðinni, frú forseti? Þetta vekur sérstaka athygli en auðvitað er hægt að nefna fleiri dæmi síðar í umræðunni.