133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:11]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það var nú ekki miklar skýringar að hafa hjá hæstv. fjármálaráðherra þrátt fyrir það, ef ég sé rétt, að hæstv. ráðherra hefur skreytt sig í dag með sérstöku hestabindi væntanlega í tilefni af því að hér erum við að leggja fram mikið fjármagn vegna hestsins.

Það er afar sérkennilegt, eins og ég benti á, að þessi upphæð er 22,5 millj. kr. þegar heildarframlag landbúnaðaráðuneytisins vegna verkefnisins er ekki nema 15 milljónir þessi fimm ár öll. Hér er því greinilega eitthvað annað á ferðinni en eingöngu framlag landbúnaðarráðuneytisins. Þess vegna er spurningin hvað þetta er allt saman að gera hjá landbúnaðarráðuneytinu.

Frú forseti. Ef hæstv. ráðherra vill ekki ræða eingöngu um hesta þá er rétt að spyrja hann líka varðandi samgönguráðuneytið vegna þess að þar kemur fram að nú er verið að óska eftir 100 millj. kr. fjárveitingu til landkynningar undir markaðssókn í íslenskri ferðaþjónustu, afar brýnt mál. En hvaða mikla átak er þetta sem er væntanlegt núna í fjáraukalögum, árið 2006? Er það eitthvert jólasveinsátak rétt fyrir jólin eða í hvað eiga þessar 10 millj. kr. að fara ?