133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:20]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Enn, frú forseti, verð ég að gera athugasemdir við þennan ýkjutalsmáta í hv. þingmanni, sérstaklega þegar hann talar um agaleysi í ríkisfjármálum. Þó að einhverjir og of margir liðir fari fram úr er alls ekki hægt að draga þá ályktun að lausatök séu í ríkisfjármálum í heild. (Gripið fram í.) Ja, ég held að ég þekki orðalagið hjá honum betur en nokkur annar maður hér inni. Hann nefndi þjóðhagsspá Seðlabankans en hún var byggð á annars konar þenslu- og spennumælingum en var hjá fjármálaráðuneytinu. Inn í það komu síðan breyttar forsendur vegna þess að hagvöxtur fyrri ára reyndist vera meiri. Því er ekki hægt að segja að um neina falleinkunn sé að ræða. Staðreyndin er reyndar sú að Seðlabankinn hefur líka þurft að leiðrétta sínar spár vegna breyttra forsendna og skekkju sem var í útreikningunum. Við verðum einfaldlega, frú forseti, að búa við það að það eru ekki alveg nákvæm vísindi að spá fyrir um efnahagsþróunina.