133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:47]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. „Copy/paste,“ sagði hv. þingmaður. Það mætti kannski segja það um hluta af ræðu hv. þingmanns, að hann hefði verið „copy/paste“. Til að útskýra það þá var fjáraukalagafrumvarpið tilbúið áður en frumvarp um breytingarnar á vaxtabótum var tilbúið, frágengið og samþykkt í ríkisstjórninni. Þess vegna var það ekki komið inn í forsendur fjáraukalaga. Það ætti hins vegar að vera lítið mál, miðað við málflutning hv. þingmanns, að gera þá breytingu á milli umræðna hjá fjárlaganefnd.

Varðandi þá þætti sem hún nefndi úr skýrslu Ríkisendurskoðunar, samanburð við önnur lönd um frávik á milli liða, finnst mér svolítið merkilegt að velta fyrir mér, þegar við berum okkur saman við önnur lönd, að þau lönd sem mest eru í umræðunni eru yfirleitt með miklu hærri opinber útgjöld en við erum með hér á landi, mikið hærri útgjöld hjá ríkissjóði en er hér á landi. Þetta eru yfirleitt lönd sem ekki skila jafnmiklum afgangi á ríkissjóði og við höfum verið með síðustu tíu ár.

Ég velti því fyrir mér, þrátt fyrir þessi ákveðnu vandamál sem við eigum við að glíma — ég gengst við að að hluta til er það rétt sem Ríkisendurskoðun hefur sagt, að við þurfum að bæta vinnubrögðin varðandi ákveðnar stofnanir — hvort samanburðurinn við önnur lönd og sú niðurstaða að þar sé ástandið betra en hjá okkur sé eðlileg í þessu samhengi. Ég velti því fyrir mér hvort vinnubrögðin sem tíðkast þar séu nokkuð betri þegar á heildina er litið og hvort okkar niðurstaða sé ekki bara nokkuð góð borið saman við þau lönd öll saman.