133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:51]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að við eigum alveg eftir að fara í gegnum vaxtabótaumræðuna. En ég held að þetta sé þriðja ræðan sem ég hef heyrt á stuttum tíma í þingsölum í haust hjá hv. þingmanni um vaxtabæturnar og það er ekki enn búið að mæla fyrir frumvarpinu. Sé einhver búinn að taka forskot á sæluna hvað það varðar þá er það hv. þingmaður. (Gripið fram í: Þú hefur gott af því að undirbúa þig.) Já, þakka þér fyrir, hv. þingmaður, ég er mjög vel undirbúinn.

Varðandi það sem hv. þingmaður segir um fjárreiðulög og agaleysi sem við höfum fjallað um og að gott sé að bera saman árangur okkar og annarra landa þá var ég út af fyrir sig ekki að tala um það í ræðu minni áðan. Ég var bara að tala almennt um hvaða árangri við náum og hvaða árangri önnur lönd ná með sínum aðferðum.

En ef við tölum sérstaklega um fjárreiðulögin, sem ég hafði eins og hv. þingmenn vita talsverðan atbeina að að voru sett á sínum tíma, þá hlýtur auðvitað að liggja ljóst fyrir að Alþingi metur á hverjum tíma útgjaldatilefni og hvort þau útgjaldatilefni sem fjármálaráðherra óskar eftir að fá fjármagn í með fjáraukalögum séu í samræmi við fjárreiðulög eða ekki. Ég sé því ekki að hv. þingmenn þurfi að hafa svo gríðarlegar áhyggjur af því þegar þeir eru að ræða þetta frumvarp. Frumvarpið á eftir að fara í gegnum nefndina og þingnefndir fara um þetta höndum. Það er síðan meiri hluta Alþingis að taka um það ákvörðun hvort tillagan stenst fjárreiðulög eða ekki. Þar af leiðandi tekur meiri hlutinn ákvörðun um hvað eru taldar nauðsynlegar fjárveitingar af hálfu ríkisins á hverjum tíma.