133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:53]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var býsna merk yfirlýsing hjá hæstv. fjármálaráðherra. Ég met það svo að hann hafi lýst því yfir að hann muni gefa meiri hlutanum eða fjárlaganefnd meiri möguleika á að eiga við frumvörpin sem frá honum koma. Ég hlýt að fagna því að áður en meiri hlutinn stimplar komandi fjárlagafrumvörp fái hann eitthvað að eiga við þau. Auðvitað á þingið að hafa miklu meira með fjárlagafrumvarpið að gera en raunin er. Auðvitað á það að vera þannig. Ef þetta er stefna hæstv. ráðherra til framtíðar þá hlýtur maður að fagna því og þá ber ég miklar væntingar til fjárlagavinnunnar fram undan. Ég vona að meiri hluti fjárlaganefndar líti eins á málin og hæstv. ráðherra.

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra nefndi að þetta væri þriðja ræðan sem hann hefði heyrt mig flytja um vaxtabætur það sem af er þessu þingi. Það er náttúrlega ekki undarlegt þar sem við höfum verið að fjalla um fjárlög fyrir árið 2007. Vaxtabætur eru hluti af þeim. Þær ættu líka að vera hér inni ef menn hefðu unnið almennilega í sumar.

Virðulegur forseti. Ég skil vel að hæstv. fjármálaráðherra sé viðkvæmur þegar kemur að gagnrýni á vaxtabæturnar. Staðreyndin er sú að þær hafa verið skertar gríðarlega. Almenningur situr með verðbólguna í fanginu meðan húsnæðislánin bólgna út, út af verðbólgunni og verðtryggingunni. Aðrir eru bæði með belti og axlabönd, lánastofnanirnar, en almenningur situr eftir með verðbólguna í fanginu. Það er því ekki skrýtið að hæstv. ráðherra sé viðkvæmur fyrir umræðunni. Það er staðreynd að frá árinu 2003 hafa vaxtabætur verið lækkaðar á verðlagi dagsins í dag um 1,4 milljarða kr. Frú forseti, það er staðreynd og því ekki að furða að hæstv. ráðherra sé viðkvæmur fyrir umræðunni.