133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:55]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er undarlegur tónn í umræðunni um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2006. Mér finnst það ekki góður svipur að hv. fjárlaganefndarmenn geri lítið úr störfum nefndarinnar með því að telja að við séum einungis afgreiðslunefnd ríkisstjórnarinnar, sérstaklega meiri hluti nefndarinnar. Ég legg mjög mikið upp úr sjálfstæði nefndarinnar og því mikla hlutverki sem hún gegnir við gerð fjárlaga, við framkvæmd fjárlaga og því eftirlitshlutverki sem hún á að gegna hverju sinni.

Hæstv. forseti. Ég fagna því að það frumvarp sem við ræðum skuli lagt fram svo stuttu eftir að frumvarp til fjárlaga ársins 2007 hefur litið dagsins ljós. Það er mikilvægt fyrir fjárlaganefndina að geta fjallað um þessi frumvörp í samhengi. Ég tel að það greiði fyrir störfum nefndarinnar, veiti nefndarmönnum meiri og betri yfirsýn yfir stöðu ríkisfjármála almennt. Ég tel að á undanförnum árum hafi okkur farið verulega fram hvað þetta varðar.

Við erum að fjalla um mjög gott frumvarp rétt eins og í síðustu viku þegar fjallað var um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2007. Með því á að greiða niður skuldir ríkisins og bæta hag almennings til muna. Sú aukning sem verður, samkvæmt því frumvarpi sem við ræðum hér, á tekjum ríkissjóðs eru rúmir 40 milljarðar kr. og verða þar með 375 milljarðar kr. Það er gríðarlega mikil aukning sem gerir það að verkum að við getum greitt skuldir ríkissjóðs hraðar niður en áætlanir gerðu ráð fyrir. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2006 var gert ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs mundu lækka um 11,4 milljarða en samkvæmt frumvarpinu sem við ræðum nú yrðu skuldir greiddar niður um 23,4 milljarða. Ríkissjóður er að verða nær skuldlaus. Það er eðlilegt að maður heyri það hjá hv. stjórnarandstöðu að þeim líði illa yfir þeim góða árangri sem ríkisstjórnin hefur náð í ríkisfjármálum á undanförnum árum.

Árið 1995, þegar Framsóknarflokkurinn kom í ríkisstjórn, voru skuldir ríkissjóðs tæplega 240 milljarðar kr. á núvirði. Í dag eru þær 27. Síðan hafa menn ákveðnar efasemdir um að ríkissjóður eigi að fara í skattalækkanir, svo sem að lækka tekjuskattinn, og skila til þjóðarinnar þeim árangri sem ríkisstjórnin hefur náð í efnahagsmálum. Ríkissjóður er að verða nær skuldlaus. Markmið stjórnarmeirihlutans er að skila þeim ávinningi til heimilanna í landinu með lækkuðum sköttum, stórhækkuðum barnabótum og svo mætti lengi telja.

Hæstv. forseti. Tölurnar tala sínu máli. Í landinu ríkir almenn velmegun. Um næstu áramót munu skattleysismörk stórhækka. Að sjálfsögðu getum við alltaf gert betur gagnvart þeim sem verst standa í samfélaginu. Í því fjárlagafrumvarpi sem við ræddum í síðustu viku mun komið til móts við þau sjónarmið. Með þessu frumvarpi til fjáraukalaga ársins 2006 stöndum við vörð um sterka stöðu ríkissjóðs.

Kaupmáttur almennings hækkaði meira en við gerðum ráð fyrir í fjárlagavinnunni í fyrra. Gert var ráð fyrir að kaupmáttaraukning almennings á þessu ári yrði um 2,7%. Samkvæmt því sem nú liggur fyrir eykst kaupmáttur almennings um 5,7% á árinu. Þetta eru mjög góðar fréttir fyrir heimilin í landinu. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hefur miklar áhyggjur af stöðu heimilanna og ég er sammála henni. Við þurfum að standa vörð um betri hag heimilanna. En það er mjög undarlegt að geta lagt málflutning sinn út með þeim hætti að kjör almennings séu að skerðast þegar við horfum á þá staðreynd að kaupmáttaraukning almennings er 5,7% á árinu, 3% meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Kaupmáttaraukningin frá 1995 er hátt í 60%. Við getum ekki fundið það land sem hefur náð viðlíka árangri í að bæta kjör alls almennings á umræddu tímabili. Þar hefur ríkisstjórnin komið mjög vel að með styrkri efnahagsstjórn og þorað að taka mjög óvinsælar ákvarðanir sem stjórnarandstaðan hefur aldrei stutt stjórnarmeirihlutann í. Ríkisstjórnin hefur þorað að taka erfiðar ákvarðanir til að standa vörð um stöðugleikann og minnka verðbólguna og það tókst í sumar. Það tókst í sumar með aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Við horfum fram á lækkandi verðbólgu og áframhaldandi kaupmáttaraukningu í samfélaginu ef skattalækkanir ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga.

Hæstv. forseti. Við erum með þessu frumvarpi að leggja fram fjármuni til handa framtíðinni svo við getum haldið áfram að standa vörð um velferðarkerfið, heilbrigðis- og menntamál. Það er mjög mikilvægt. Við greiddum gríðarlega mikla vexti af miklum skuldum þegar Framsóknarflokkurinn kom í ríkisstjórn árið 1995 og nú er ríkissjóður að verða skuldlaus og vaxtajöfnuður er orðinn jákvæður. Allt ber þetta vott um að við höfum verið að ná miklum árangri sem þjóð og sem samfélag og við viljum halda áfram á þeirri braut, meirihlutaflokkarnir sem myndum þá ríkisstjórn sem nú er við völd. Og það er alveg sama hvað hv. stjórnarandstaða reynir að kúvenda staðreyndum. Staðreyndirnar tala sínu máli. Við höfum náð mjög miklum árangri til heilla fyrir alla landsmenn.

Hæstv. forseti. Í desember sl. var mikil umræða um málefni Háskólans á Akureyri. Stjórnarandstæðingar deildu mjög hart á stjórnarliða og sögðu með réttu að ekki væri nægilegt tillit tekið til m.a. húsaleigu á Borgum. Fram fór ákveðin vinna hvað það varðar og við lukum síðustu fjárlagagerð með því loforði að komið yrði til móts við Háskólann á Akureyri hvað varðaði nemendaígildi og húsaleigu á Borgum. Stjórnarandstæðingar efuðust um að við mundum standa við það. Í frumvarpi til fjáraukalaga er gert ráð fyrir að 40 millj. kr. fari til Háskólans á Akureyri vegna húsaleigu og 20 millj. kr. vegna nemendaígilda. Verið er að hækka ramma Háskólans á Akureyri um 60 millj. kr. á milli ára, rétt eins og sagt var í fjárlagaafgreiðslunni á síðasta ári í desembermánuði. Öll orð hafa því staðið hvað það varðar.

Í annan stað í ljósi góðs efnahagsástands í samfélaginu eru sveitarfélögin að njóta þess að skatttekjur ríkissjóðs hafa aukist til muna. Sveitarfélögin í landinu fá samkvæmt frumvarpinu tæpar 1.100 milljónir vegna tengingar við tekjuskattinn þannig að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga getur útdeilt um 1.100 millj. kr. meira til sveitarfélaga í landinu og kannski ekki síst sveitarfélaga á landsbyggðinni sem glíma mörg hver við mikla rekstrarerfiðleika. Þessi umsvif í samfélaginu og það góða atvinnuástand sem hér ríkir er í miklum mæli að skila sér til sveitarfélaganna í landinu og kannski ekki síst, hæstv. forseti, til þeirra sveitarfélaga sem hvað höllustum fæti standa.

Hæstv. forseti. Mikil umræða var hér fyrir um tveimur árum um sölu Landssímans og sumir stjórnarandstæðingar börðust mjög hart gegn þeirri sölu en hún tókst í alla staði mjög vel. Með þeirri sölu gátum við stórlækkað skuldir ríkissjóðs og jafnframt útdeilt fjármunum til mikilvægra verkefna á sviði velferðarmála, samgöngumála, heilbrigðismála, menntamála o.s.frv. Aðgerðir sem við hefðum annars trúlega ekki getað farið í. Framsóknarflokkurinn lagði höfuðáherslu á við söluna á Landssímanum að við mundum stórbæta fjarskipti á landsbyggðinni, háhraðatengingar, GSM-þjónustu og fleira má telja. Það er mjög gleðilegt að sjá frumvarpinu að verið er að flytja 500 millj. kr. á árinu 2007 yfir á árið 2006 til þess að hraða uppbyggingu á GSM-sambandi um þjóðvegi landsins og hinum dreifðu byggðum og háhraðatengingum. Verið er að setja aukna fjármuni og meiri hraða í uppbyggingu fjarskipta á landsbyggðinni. Þetta var sérstakt baráttumál okkar framsóknarmanna í tengslum við söluna á Landssímanum. Ég er mjög ánægður með að við skulum geta fyrr en ella byggt upp góð fjarskipti á landsbyggðinni vegna þess að góð fjarskipti eru grundvöllur margra byggðarlaga. Við verðum að ná meiri árangri í þeim efnum og er hluti af því að mörg byggðarlög á landsbyggðinni verði hluti af 21. öldinni. Það er óásættanlegt á mörgum stöðum hvernig fjarskiptamálum er háttað og því er það gleðilegt að við skulum flýta þeim framkvæmdum og setja meiri fjármuni í að bæta fjarskipti á landsbyggðinni.

Hæstv. forseti. Ég ætla að fara að ljúka máli mínu en mig langar að minnast örlítið á stöðu margra stofnana sem hafa farið 4% fram úr fjárheimildum og eru jafnvel með uppsafnaðan halla til nokkurra ára. Ég tel að fjárlaganefnd verði að fara mjög gaumgæfilega ofan í þessa hluti. Það er rétt sem hefur komið fram í umræðunni að ég tel að það megi aga fjárlagagerðina betur. Ég minni á að fjárlagagerðin og framkvæmd fjárlaga er samvinnuverkefni á milli fjárlaganefndar Alþingis, viðkomandi ráðuneyta og forstöðumanna stofnana. Við þurfum að auka samvinnu þessara aðila til að ná betri árangri í framkvæmd fjárlaga þannig að einstakar stofnanir fari eftir fjárlögum. Við höfum reyndar náð árangri í þeim efnum. Á árinu 2005 fóru 135 stofnanir eða fjárlagaliðir umfram 4% af fjárheimildum, 135 af um 444 fjárlagaliðum, sem er vissulega allt of hátt hlutfall. Á fyrstu sex mánuðum ársins í ár eru þetta orðnir 104 fjárlagaliðir, þeim hefur því fækkað um 31 á milli ára, um hátt í 30%. Það er vissulega spor í rétta átt. Við sem sitjum í fjárlaganefnd Alþingis hljótum öll að sammælast um að við þurfum að halda áfram á þeirri vegferð. Sem betur fer er það svo að við erum heldur að vinna á í þessum efnum og ég tel að með samhentu átaki þeirra aðila sem eiga að fylgja eftir framkvæmd fjárlaga munum við geta aukið agann í fjármálum ríkisins og fjárlögum.

Ég vil vara sérstaklega við málflutningi sem kom fram áðan, þ.e. að einstakar stofnanir sem flytja með sér fjárheimildir á milli ára eru settar í flokk með þeim sem hafa verið í viðvarandi hallarekstri í mörg ár. Ég tel það ekki rétt skilaboð og mun ekki beita mér fyrir því að Alþingi fari að setja viðurlög á forstöðumenn stofnana sem reyna að sýna aðhald í rekstri og jafnvel reyna að leggja fyrir einhverja fjármuni til að geta mögulega komið til móts við einhver óvænt áföll í rekstri viðkomandi stofnana. Við megum ekki bera saman stofnanir sem eru í viðvarandi hallarekstri ár eftir ár og þær fyrirmyndarstofnanir sem eru að auka mögulega inneignir á milli ára því það eru mjög ábyrgir forstöðumenn sem byggja upp einhvern sjóð sem getur komið til móts við einhverjar óvæntar aðstæður sem koma upp í rekstri stofnana á viðkomandi tíma. Ef við ætlum að fara gegn þeim stofnunum sem sýna aðhald í rekstri er ljóst að við munum skapa hvata hjá þeim að skila engum afgangi, eyða bara öllu því sem fjárlög viðkomandi árs útheimta, kaupa fleiri borð, fleiri tölvur og fleiri stóla sem hugsanlega er ekki svo brýn þörf fyrir. Ég held að við þurfum að fara mjög varlega í slíkri umræðu og ég vil meina að við hljótum að vera sammála um að hér er um mjög mikinn eðlismun að ræða í vanda viðkomandi stofnana, hvort þær eru reknar með afgangi eða halla.

Hæstv. forseti. Við þurfum að fara mjög grannt og vandlega ofan í það frumvarp til fjáraukalaga sem er rætt hér. Ég óska eftir góðu samstarfi við hv. nefndarmenn fjárlaganefndar og ég veit að á síðustu árum hefur samstaða verið ágæt innan nefndarinnar. Þó að menn greini á í einstaka málum og í stjórnmálunum almennt, þá hefur það verið regla að fjárlaganefndin hefur á síðustu árum getað haldið starfsáætlun sinni. Ég er viss um að hv. nefndarmenn fjárlaganefndar eru reiðubúnir til að halda áfram á þeirri vegferð. Það er mjög mikilvægt að við höldum þeirri starfsáætlun. Þetta er sameiginlegt verkefni sem við þurfum að taka mjög alvarlega og fara yfir, sama hvort við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu. Í lok ræðu minnar vil ég óska eftir góðu samstarfi við hæstv. fjármálaráðherra í þeirri vinnu sem fram undan er og hv. embættismenn í fjármálaráðuneyti og öðrum ráðuneytum en legg enn og aftur mjög mikla áherslu á að nefndin sjálf er sjálfstæð. Henni ber að afla sér upplýsinga, virkilega vel, um stöðu ríkisfjármála. Það er hlutverk fjárlaganefndar þingsins. Hún er sjálfstæð gagnvart framkvæmdarvaldinu og ég hafna því algerlega ef menn ætla að gefa það í skyn í umræðunni að fjárlaganefndin sé einhver stimpill framkvæmdarvaldsins hvað þetta varðar því fjárlögin taka miklum breytingum í meðhöndlun nefndarinnar og ég held að við eigum að stefna að því að vinna það starf sem fram undan er mjög vel. Mikið starf er fram undan við að fara yfir bæði frumvarp til fjáraukalaga eins og frumvarp til fjárlaga ársins 2007 og ég vænti enn og aftur góðs samstarfs við hv. þingmenn í fjárlaganefnd Alþingis.