133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:14]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni sem hefur verið forsvarsmaður Samfylkingarinnar um árabil í fjárlaganefnd fyrir að óska eftir góðu samstarfi og ég veit að samstarf okkar á eftir að vera gott á þeim þingvetri sem fram undan er. Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni í því að við megum bæta margt í fjárlagagerðinni. Það er ætlan mín að fjárlaganefnd standi fyrir mjög opinni umræðu í upphafi næsta árs um framkvæmd fjárlaga, fjárlagaferlið og það vinnuferli sem fram fer í störfum nefndarinnar. Ég hef trú á því að við getum náð þverpólitískri samstöðu um að fara í það verkefni að halda málstofu um þessi mál því mjög mikilvægt er að við bætum ferlið enn frekar. Eins og ég fór yfir áðan höfum við stigið mörg framfaraskref í fjárlagagerðinni á undanförnum árum. Fjárlög voru stundum að dragast fram yfir áramót en við höfum haldið starfsáætlun þingsins í heiðri á undanförnum árum og starfsáætlunum nefndarinnar en þessir tveir hlutir fara mjög mikið saman. Ég hef því trú á að ég og hv. þm. Einar Már Sigurðarson eigum eftir að ná ágætlega saman í þeirri vinnu að halda uppi upplýstri umræðu um hvernig við megum bæta þetta ferli. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra. En aðalatriðið er að okkur hefur vegnað betur í þessum efnum. Við sjáum að æ færri stofnanir fara umfram 4% af fjárheimildum sínum. Það er skref í rétta átt. Við þurfum vissulega að gera betur og við þurfum að efla eftirlitshlutverk nefndarinnar hvað þetta varðar um framkvæmd fjárlaga og um það held ég að sé enginn ágreiningur á milli mín og hv. þingmanns.