133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:16]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að það sé rétt hjá hv. þingmanni að við séum algerlega sammála um það hvernig eigi að standa að því að fylgjast með framkvæmd fjárlaga. Ég tók hins vegar eftir því að hv. þingmaður notaði ekki tíma sinn til að fjalla um það sem á undan því kemur, sem er áætlanagerðin. Þar held ég að sé ekki síður vandi á ferðum vegna þess að við vitum, og hv. þingmaður veit það jafnvel og ég, að allt of lengi hefur staðan verið sú að ákveðnar stofnanir hafa í raun verið langt komnar með fjárveitingar næsta árs þegar fjárlög eru samþykkt, þ.e. þá er verið að samþykkja lög á Alþingi um það að viðkomandi stofnanir muni að sjálfsögðu ekki geta sinnt því hlutverki sem þeim er falið samkvæmt öðrum lögum. Þetta gengur auðvitað ekki. En þetta er búið að ganga svo allt of lengi.

Þess vegna var ég að leggja höfuðáherslu á það, og vona að hv. þingmaður noti tækifærið í seinna andsvari sínu til að lýsa því yfir að hann muni beita sér fyrir því sem formaður nefndarinnar, að við fáum þær tölur sem nauðsynlegar eru. Vegna þess að hér er stuttur tími ætla ég bara að nefna þá mikilvægu tölu að við fáum áætlaða stöðu stofnana um áramót.

Ég vona að hv. þingmaður meini eitthvað með því sem hann sagði í ræðu sinni áðan um að nú yrði aukið samstarf við forstöðumenn stofnana. Ég vona að hv. þingmaður sendi öllum ráðuneytum í tilefni þessara orða sinna bréf um að nú sé ráðuneytunum bannað að banna forstöðumönnum að óska eftir fundum með fjárlaganefnd. En þannig hefur það verið mörg undanfarin ár og ef ég man rétt hefur ríkisstjórnin tekið ákvörðun um slíkt.

Nú reynir á að hv. þingmaður nýti sér stöðu sína sem formaður fjárlaganefndar og standi við stóru orðin um að nú eigi að auka sjálfstæði nefndarinnar. Það væri táknræn aðgerð að senda öllum ráðherrunum eða ríkisstjórninni bréf um að fjárlaganefnd muni ekki láta bjóða sér slík vinnubrögð áfram, (Forseti hringir.) að forstöðumenn ríkisstofnana megi ekki óska eftir fundi með fjárlaganefnd.