133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:18]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er í meginatriðum þeirrar skoðunar að það sé viðkomandi ráðuneyta að upplýsa fjárlaganefnd um stöðu einstakra stofnana og að við fáum upplýsingar þaðan. Það er jú ráðuneytið og viðkomandi ráðherra sem ber faglega ábyrgð á rekstri sinna undirstofnana. Um það er ekki deilt. Ég tel að í öllum meginatriðum eigi að fylgja því þannig að ráðuneytin séu gerð ábyrg fyrir rekstri sinna stofnana sem eðlilegt er.

En af því hv. þingmaður talaði mikið um áætlanagerð þá hafa þær áætlanir og forsendur sem ríkisstjórnin hefur gefið sér við framlagningu fjárlaga hverju sinni verið gagnrýndar mjög mikið af hv. stjórnarandstöðu á undanförnum árum. Ég get verið sammála því að það er mjög erfitt að gera mjög nákvæmar áætlanir í því þensluástandi sem hér ríkir. Gríðarleg uppbygging í efnahagslífi þjóðarinnar hefur leitt til þess að tekjur ríkissjóðs hafa verið miklu meiri en áætlanir hafa gert ráð fyrir. Ríkisstjórnin hefur ekki verið að reyna að fegra frumvarp til fjárlaga ársins á eftir, (Gripið fram í: Ha!) hefur ekki verið að reyna það. Við höfum í fjáraukalögum nú og í fyrra þurft að sýna fram á það, og sýnt fram á það, að tekjur voru vanáætlaðar. Við höfum verið að greiða niður skuldir ríkissjóðs margfalt meira en við höfum gert ráð fyrir, margfalt meira. Enda er það svo að ríkissjóður er nánast orðinn skuldlaus. Við erum að lækka skatta á heimilin í landinu, stórauka barnabætur og kaupmáttur almennings heldur áfram að vaxa. Í meginatriðum gengur okkur mjög vel. Það er aðalatriðið, sama hvernig svo sem hv. stjórnarandstaða reynir að snúa sannleikanum við í þessum efnum og staðreyndum.