133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:29]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða fjáraukalögin. Það er kannski rétt í upphafi að hæla ríkisstjórninni fyrir að fjáraukalögin skuli koma hér fram nánast í upphafi þings. Það er afar gott að þau geri það og fjárlaganefnd hafi þau til hliðsjónar nógu snemma í því vinnuferli að afgreiða bæði fjáraukann og fjárlög ársins.

En hvað skyldi það vera, hæstv. forseti, sem maður staldrar helst við í þessum fjáraukalögum? Ef maður lítur heilt yfir eru það breytingar á tekjum ríkissjóðs, breytingar sem gera það að verkum að tekjur ríkissjóðs aukast verulega. Út af fyrir sig ber að fagna því að ríkissjóður hafi góða afkomu og góðar tekjur en það sýnir okkur hins vegar, og fjáraukalögin gera það mjög skilmerkilega, hvernig tekjurnar myndast hjá ríkinu og hvað það er sem er helst að koma ríkisstjórninni á óvart í þeim efnum.

Það sem hér kemur fram varðandi tekjuhliðina hef ég leyft mér að kalla að tekjurnar séu að aukast og að þetta séu þenslutekjur. Að stórum hluta eru þetta þenslutekjur. Það virðist svo, hæstv. forseti, að mikil ónákvæmni sé í áætlanagerð ríkisins um það hvaða tekjur ríkið fái á því ári sem nú er og hversu mikil frávikin verða. Það er rétt að draga fram í máli mínu nokkrar staðreyndir í þeim efnum.

Ef við lítum á bls. 7 í þessu fjáraukalagafrumvarpi þá birtist okkur að skattur á fjármagnstekjur einstaklinga er talinn vaxa um 5,6 milljarða. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2006 var hann áætlaður 12,3 milljarðar, hæstv. forseti. Hér er um 50% aukningu á þessum tekjulið að ræða, fjármagnstekjuskatti einstaklinga. Það er ekki hægt að halda því fram að þetta sé mjög nákvæm áætlanagerð miðað við staðreyndirnar sem liggja fyrir í fjáraukanum.

Ef við skoðum 2. lið, tekjuskatt lögaðila, kemur í ljós að hann mun vaxa um 12,5 milljarða. Það er nánast tvöföldun, það er nærri því að vera tvöföldun frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Þar er ekki heldur mjög nákvæm framsetning á því sem ríkið gerði ráð fyrir að það hefði í tekjur af þessum tekjustofni. Ef drepið er niður annars staðar í þessu máli vekur það líka athygli að stimpilgjöldin gefa milljarði meira en gert var ráð fyrir. Sá óréttláti skattur bitnar fyrst og fremst á lántakendum og þeim sem þurfa að skuldbreyta o.s.frv. og húsbyggjendum — má eiginlega orða það svo að að stórum hluta sé þetta húsbyggjendaskattur á Íslandi eins og hann birtist okkur hér. Ef við skoðum tekjur í virðisaukaskatti þá aukast þær um 5,2 milljarða frá fjárlögum. Skoðum hins vegar vörugjald af innfluttum vörum — og kemur þá að því sem ég sagði hér áðan, það sem ég kalla þenslutekjur ríkissjóðs, þær aukast um 1,9 milljarða á milli ára. Það vantar ekki mikið á að það sé tvöföldun miðað við fjárlagafrumvarpið og fjárlögin fyrir árið 2006.

Ef við skoðum vörugjöld af innfluttum ökutækjum þá vaxa þau um 2,9 milljarða rúma en voru áætluð 5,1 milljarður í fjárlagafrumvarpinu. Þetta er aukning um tæplega 60% eða þar um bil. Ef við skoðum olíugjaldið er gert ráð fyrir að það gefi 3,5 milljarða í tekjur. Nú er gert ráð fyrir því í fjáraukanum að það gefi 1,1 milljarð tæpan til viðbótar í tekjum eða um tæpa 30% aukningu í olíugjaldinu.

Ef við skoðum tolla og aðflutningsgjöld þá er gert ráð fyrir að tekjurnar af þeim lið aukist um 711 millj. en í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 3,6 milljörðum. Það er í engu ofmælt þegar ég segi að tekjuaukning ríkissjóðs byggist á þenslu. Þetta eru þenslutekjur, þetta eru tekjur af sköttum á vöru eða þjónustu sem fylgja því að hér hefur verið mikill innflutningur og viðskiptahallinn hefur keyrt algerlega út úr öllu korti miðað við það sem menn höfðu gert ráð fyrir. Hann er áætlaður 208 milljarðar, ef ég man rétt, hæstv. forseti, á þessu ári. Það liggur því fyrir að góð afkoma ríkissjóðs byggist að stórum hluta á því að við erum með mikla þenslu og fáum miklar þenslutekjur. Þetta eru ekki viðvarandi tekur sem við getum gert ráð fyrir í framtíðinni. Ef markmiðin eiga að nást um að draga úr þenslu og lækka verðbólgu hlýtur að draga úr þessum tekjum og það er markmið ríkisstjórnarinnar, og ég hygg að stjórnarandstaðan sé sammála því, að reyna að draga úr þenslu og draga úr verðbólgu.

Stjórnarandstaðan hefur hins vegar áherslur sem eru kannski umfram ýmislegt sem ríkisstjórnin gerir ráð fyrir í fjárlögum sínum fyrir næsta ár, m.a. um að bæta afkomu ellilífeyrisþega og öryrkja. Stjórnarandstaðan hefur sameiginlega lagt fram sérstakt mál um það. Það mun kosta einhverja aukna fjármuni frá því sem lagt er til í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár, árið 2007. Ekki er ólíklegt að sú upphæð leiki á bilinu 5–6 milljarðar sem við í stjórnarandstöðunni gerum ráð fyrir að sú eðlilega lagfæring kosti umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlögum ársins 2007.

Þá má náttúrlega spyrja, hæstv. forseti, áður en maður fer að renna yfir einstaka fjárlagaliði og vekja athygli á þeim, hvort það sé rétt forgangsröðun hjá ríkisstjórninni að halda áfram með þá skattastefnu sína að lækka tekjuskatt næstu ára um 1%.

Við höfum verið sammála því í stjórnarandstöðunni að það bæri að lækka matarskattinn, lækka virðisaukaskatt á matvælum, og ná niður verði á matvöru. Það kostar ríkissjóð fjármuni og nú er ríkisstjórnin komin fram með áfangatillögur í þeim efnum. Þetta mun kosta verulega fjármuni þegar kemur fram á næsta ár því þetta er loforð sem tengist því að byrjað verður að efna það í mars á næsta ári — þetta verður sett fram sem kosningamál af hendi ríkisstjórnarinnar sem ekki hefur aðhafst neitt í þessum málum á 11 ára valdatíma sínum.

En það er líka fleira sem við þurfum að velta fyrir okkur þegar við erum að tala um tekjur ríkissjóðs sem m.a., eins og ég vék að í máli mínu í upphafi, myndast fyrir þenslu sem nú er ríkjandi og allir stefna í að reyna að draga úr. Að öllum líkindum mun því draga úr þenslutekjunum, sem eru afleiðing af framúrkeyrslu m.a. á viðskiptahallanum, og væntanlega mun hægja á framkvæmdum í landinu. Tekjur af þeim mikla fjölda launamanna sem nú eru í landinu munu væntanlega einnig dragast saman. Það bendir sem sagt margt til þess að á komandi ári muni draga úr tekjum ríkissjóðs. Ekki er að sjá, hæstv. forseti, að ríkissjóður geri ráð fyrir því sérstaklega í áætlunum sínum heldur er gumað af því að hagurinn sé góður nú um stundir. Það er ekki hægt að mæla á móti því. Ríkissjóður hefur fengið miklar tekjur eins og ég hef gert grein fyrir í máli mínu en þá getum við spurt: Eru líkur til þess að ríkissjóður haldi tekjuaukningunni, haldi þenslutekjunum á árinu 2007 og hvað þá heldur 2008? Ég held að svo sé ekki.

Við þurfum þá kannski að horfast í augu við að þau miklu útgjöld sem við stöndum frammi fyrir á næsta ári muni kosta verulega fjármuni. Samhliða gæti svo dregið úr tekjum ríkissjóðs, dregið úr atvinnustarfsemi og þá spyr maður sig: Er rétt að vera með sérstaka tekjulækkunarútfærslu sem fyrst og fremst gagnast þeim hópum sem hafa hærri tekjurnar í þjóðfélaginu?

Við í Frjálslynda flokknum höfum talið að það væri ekki rétt stefna. Við höfum fært fyrir því rök á undanförnum árum að skattastefnan hér ætti að vera þannig að hún legði áherslu á að hækka persónuafslátt. Við höfum einnig stutt hugmyndir, sem hér hafa verið fluttar m.a. af Samfylkingunni, um að lækka beri virðisaukaskatt af matvælum. Hvort tveggja eru liðir sem hefðu komið fjölskyldu sem væri með lægri tekjurnar til góða.

Eins og menn minnast knúði ASÍ það fram að annað prósentið af þeim tveimur sem ríkisstjórnin ætlaði að láta í flata skattalækkun um næstu áramót yrði fært yfir í hækkun persónuafsláttar. Það er athyglisvert að ævinlega skuli þurfa samtök launamanna til að knýja fram lagfæringar í skattamálum og samtök eldri borgara og öryrkja til að knýja stjórnina fram til lagfæringar á lífeyrismálum eða málum sem snúa að þeim hópi. Það hefur jafnvel gengið svo langt að viðkomandi samtök hafa þurft að fara í málaferli við ríkið til að fá lagfæringar sinna mála. En ekki meira um það í bili.

Þá skulum við spyrja okkur næst: Hver eru þessi auknu útgjöld sem koma á næsta ári ef við ætlum að reyna að fylgja því eftir sem líklegt er að verði? Í ljósi þess að það stefnir örugglega í samdrátt á árinu 2007 og jafnvel enn meiri á árinu 2008, hvernig mun fjárlagafrumvarp ársins 2008 líta út og jafnvel fjáraukinn á næsta hausti fyrir árið 2007 ef það gengur eftir að settar verða verulegar fjárhæðir í að lagfæra stöðuna varðandi lífeyrismál og afkomu þess hóps? Ef svo skyldi fara, sem við í stjórnarandstöðunni teljum vissulega og vonumst eftir, að þessi ríkisstjórn nái ekki því fylgi að verða aftur kjörin í næstu kosningum, ætlum við okkur að standa við framsetninguna varðandi lífeyrismál aldraðra og öryrkja. Það mun kosta 5–6 milljarða umfram það sem nú er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2007 — og hér í fjáraukanum eru 2 milljarðar ætlaðir inn í lífeyrispakkann samanlagt fyrir aldraða og öryrkja. Ég hef áður vikið að lækkun matarverðsins. Það mun draga úr tekjum ríkissjóðs.

Breytingin í varnarmálunum eykur á útgjöld ríkissjóðs um nokkra milljarða. Það er algerlega fyrirséð. Efling Landhelgisgæslunnar mun einnig auka á útgjöld ríkissjóðs og tækjakaup fyrir hana, m.a. endurnýjun á þyrluflotanum, flugvél og nýbygging skips. Allt mun þetta kosta verulega fjármuni og það þarf að gera ráð fyrir þeim.

Yfirtaka okkar á alþjóðaflugvellinum í Keflavík kostar líka verulega fjármuni. Til aukins umferðaröryggis, eins og hér er boðað, er m.a. ætlaður 1 milljarður í fjáraukanum. Það er að mínu viti mjög gott mál, hæstv. forseti, og þarft. Ekki er ástæða til að bíða með að taka á umferðaröryggi út frá höfuðborginni þar sem eru miklir slysastaðir eins og á Kjalarnesi og Vesturlandsvegi. Við erum líka að auka fé til samgöngumála á næsta ári. Við höfum reyndar gert það á hverju kosningaári, ef ég man rétt, síðan 2003, ef ekki lengra aftur í tímann, en dregið úr þess á milli. Það er kannski ætlun ríkisstjórnarinnar að vera með þennan pakka eina ferðina enn sem kosningaloforð en draga svo úr fjárveitingunum á árunum þar á eftir eins og reyndin hefur verið á þessu kjörtímabili.

En allt að einu, hæstv. forseti, liggur það fyrir að við horfum til þess að við munum auka útgjöld ríkissjóðs á árinu 2007 frá því sem nú er, líka mælt á raungildi. Við munum auka útgjöldin á árinu 2008 samfara því að tekjur dragast saman. Það sem ég hef kallað hér þenslutekjur, tekjur af auknum innflutningi og viðskiptahalla, munu að öllum líkindum ekki aukast á árinu 2007 og draga úr þeim verulega á árinu 2008 ef að líkum lætur. Þess vegna held ég að menn ættu kannski aðeins að staldra við og skoða það í raunveruleikanum hvernig tekjudæmi ríkissjóðs kemur til með að líta út þegar líður á árið 2007 og til ársins 2008 en um það er gerð áætlun í fjárlagafrumvarpi ársins 2007.

Allt að einu, hæstv. forseti, þá er að mörgu að hyggja varðandi þessi mál og það er gott að fjáraukalagafrumvarpið skuli koma fram snemma á haustinu. Við í stjórnarandstöðunni munum örugglega leitast við að hafa gott samstarf í fjárlaganefndinni til þess að þessi mál geti gengið eðlilega fram og það náist að afgreiða fjárlög og fjáraukalagafrumvarp með nægum fyrirvara.

Í lokin örstutt að ýmsum atriðum sem eru í fjáraukalagafrumvarpinu. Ég staldra fyrst, hæstv. forseti, við tilraunastöð háskólans á Keldum en þar segir að það eigi að setja rúmar 90 millj. í að byggja upp rannsóknaraðstöðu á Keldum. Í fjárlagafrumvarpinu á síðasta ári var gert ráð fyrir því að Keldur yrðu seldar og í fjárlagafrumvarpi þessa árs er líka gert ráð fyrir því. Ég spyr, hæstv. forseti: Er það virkilega svo að áætlanagerð ríkisins, þó í lágum upphæðum sé í þessu dæmi, sé þannig að menn ætli fyrst að byggja upp á Keldum og rífa það svo eða selja það ári síðar? Ég held að þarna þurfi fólk að staldra við og skoða það í alvöru hvort tilraunastöðina og rannsóknarstöðina sem við þurfum að efla, m.a. vegna fuglaflensunnar, sé ekki betra að byggja upp annars staðar. Ég nefni t.d. Hvanneyri í því sambandi, hvort ekki megi byggja upp rannsóknaraðstöðu þar varðandi fuglasjúkdómana. Ég held að menn ættu að varast að fara að byggja eitthvað upp á ákveðnum stað og ætla síðan að selja tæki, hús og land og fara að rífa niður. Það er náttúrlega bara að henda peningum út um gluggann, hæstv. forseti.