133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[16:46]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er merkilegt að hlusta á þessar umræður. Fyrst er skammast gríðarlega mikið yfir því að stofnanir skuli fara fram úr. Svo er allt í einu hérna ein stofnun sem hefur farið fram úr og þá er það allt í lagi. Þá á bara að láta hana fá aukafjárveitingu eins og ekkert sé og skammast yfir því að ekki skuli vera aukafjárveiting til þeirrar stofnunar, sem fór fram úr. Og fullyrðingum haldið fram um að ráðherrar, ekki bara ráðherra, heldur ráðherrar hafi sagt forstöðumanninum að halda áfram með einhver verkefni og þess vegna sé hann farinn fram úr. Ég kannast ekki við að hafa sagt viðkomandi forstöðumanni að hann ætti að fara fram úr á einhvern hátt. Og kannast reyndar ekki við að beiðni hafi komið um aukafjárveitingu vegna þeirrar stofnunar og geri ekki ráð fyrir að ráðuneytið ætli sér að finna út úr því máli eða vinna úr því á einhvern annan hátt.

Varðandi umferðaröryggið og fjárveitingar til þess þá vonast ég til að hægt verði að setja af stað vinnu og jafnvel útboð á þessu ári vegna þeirra verkefna þó ég geti ekki fullyrt um það. En mér finnst það vera þess virði að þess sé freistað af því það er mikilvægt mál. En auðvitað er ekki búið að vinna þessi mál á meðan annars staðar var stoppað, það er eins fráleitt og hugsast getur að detta það í hug. Sama á við um menningarsamningana. Ég vonast til að þeir geti farið af stað á þessu ári.

Við rennum vissulega blint í sjóinn með hversu mikla peninga þarf til hins nýja félags sem á að fara með þær eignir sem eru á varnarliðssvæðunum fyrrverandi. En að minnsta kosti eiga 20 millj. kr. að duga til að stofna það fyrirtæki.

Síðan varðandi virðisaukaskattslækkun, að hún komi til framkvæmda 1. nóvember, en gera ætti það á miðju ári, þá er tvennt um það að segja: Endurskoðun á tekjuáætlunum liggur ekki fyrir fyrr en að hausti eftir að ríkisreikningur fyrra árs er kominn út og eftir að álagning fyrra árs liggur fyrir.