133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[16:48]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra lætur eins og ég hafi komið hér að eigin frumkvæði og eftir eigin athugun og eigin rannsókn og óskað eftir að aukafjárveiting kæmi frá fjármálaráðuneytinu til sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli.

Ég verð að spyrja hæstv. fjármálaráðherra. Tekur hann ekkert mark á Ríkisendurskoðun? Hæstv. fjármálaráðherra segir að ég fari með fleipur. Í skýrslu ríkisendurskoðanda frá því í júlí á þessu ári segir skýrum stöfum, með leyfi forseta:

„Það liggur hins vegar fyrir að aukin umsvif embættisins hafa verið gerð með fullri vitund og vilja utanríkisráðuneytisins sem ekki hefur lagt fyrir forstöðumann að draga umtalsvert saman í starfseminni.“

Er þetta bara bull í ríkisendurskoðanda? Er hann að setja í skýrslu um framkvæmd fjárlaga eitthvað sem eru bara staðlausir stafir? Ríkisendurskoðandi segir í skýrslu sinni um framkvæmd fjárlaga að það beri að auka við fjárheimildir þessa embættis í ljósi þess hvernig umsvif hafa aukist og með hvaða hætti ráðherrar, sem ábyrgir eru fyrir því sem þarna fer fram, hafa sagt við forstöðumann að honum beri að bregðast við.

Létt skautaði hæstv. fjármálaráðherra yfir virðisaukaskattinn og matarskattinn. Þá er nú rétt að spyrja: Af hverju ekki áramót? Af hverju 1. mars? Það hlýtur þá að vera einfalt að gera það núna um áramótin. Það þarf ekki að bíða lengur.

Það vakti athygli mína, herra forseti, að hæstv. fjármálaráðherra svaraði engu um forgangsröð ríkisstjórnarinnar varðandi reiðskemmur, sjúkrahús og hjúkrunarheimili.