133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[16:56]
Hlusta

Árni Steinar Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frumvarp til fjáraukalaga. Eins og sumir aðrir þingmenn hafa gert vil ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að koma fram með frumvarpið svo tímanlega. Öldin var önnur hér áður fyrr þegar menn voru að fjalla um þetta á seinni hluta þingvetrar. Hér er því um mikla bót að ræða.

Ég ætla að ræða almennt um frumvarpið og lýsa því yfir að það sem veldur mér alltaf vonbrigðum í fjáraukalögum er að mér finnst allt of mikið um fyrirséðar leiðréttingar, sérstaklega í heilbrigðis- og menntamálum. Margt af því sem er verið að leiðrétta finnst manni að hafi komið fram að stærstum hluta til við gerð fjárlaganna en ekki verið sinnt.

Ég geri mér grein fyrir ófyrirséðum launahækkunum, eins og hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi, og gengismun sem veldur auknum lyfjakostnaði, mig minnir upp á 700 milljónir, en þetta eru hlutir sem verða að leiðréttast í aukafjárlögum. En það er nú svo að í samtölum við forstöðumenn, t.d. heilbrigðisstofnana úti um allt land, er iðulega verið að keyra með óafgreiddan og óuppgerðan hala jafnvel svo árum skiptir.

Ég held að við verðum að einhenda okkur í að leiðrétta þessa hluti við fyrsta tækifæri vegna þess að það er óviðunandi starfsumhverfi fyrir hvern þann sem rekur fyrirtæki eða stofnun að vera sífellt á hnjánum eða í ótta við að vera að gera eitthvað ólöglegt þó svo að honum sé gert að reka stofnunina áfram af yfirvöldum eins og ekkert hafi í skorist.

Nánast undantekningarlaust kvarta forstöðumenn stofnana, sjúkrahúsa, elliheimila og menntastofnana undan slíku starfsumhverfi. Þetta eru hlutir sem við verðum að laga. Frumvarp til fjáraukalaga er auðvitað spegilmynd af því sem þarf að laga hverju sinni eftir að fjárlög eru samþykkt. Vonandi og einhvern tímann í framtíðinni verða hlutirnir þannig að frumvarp til fjáraukalaga verði næstum því óþarft og þá eru menn langt komnir í fjárlagagerð að sjálfsögðu.

Ég vil staldra við eitt atriði í frumvarpinu, það er 500 millj. kr. framlag til samgönguráðuneytisins vegna fjarskiptamála og uppbyggingu á GSM-kerfinu og fjarskiptum í hinum dreifðu byggðum. Ef mig minnir rétt voru settir 1,6 milljarðar af símapeningunum í fjarskiptasjóð, en hér er frekar spýtt í og er það vel.

Ég vil þó staldra við þetta mál vegna þess, svo maður tali nú út frá eigin skinni, að ég er búinn að vera við störf í þrjú ár á þungu framkvæmdasvæði þar sem verið er að framkvæma fyrir ein ríkisfjárlög eða svo, á þessu tímabili. Það er alveg undravert að á þeim tíma hefur ekkert lagast í fjarskiptamálum á öllu svæðinu. Ef við tökum landsvæði eins og Fjarðabyggð þar sem mest umsvifin eru núna þá erum við sem störfum á því svæði bundin af því að lenda í að minnsta kosti þremur stórum fjarskiptaholum þar sem ekki næst samband.

Það gefur augaleið að það er ákaflega mikilvægt og þarf ekki að segja hv. þingmönnum það. Aðalsmerki hvers og eins samfélags er að grunnþjónustan, infrastrúktúrinn, sé í lagi. Að búa við það að allt frá sölu Símans hafi ekki verið stoppað í nein göt — ég þekki nú líka á eigin skinni norðurleiðina mjög vel. Mér vitanlega hefur ekkert gerst í þessum málum á allri austur-norðurlínu í öll þau þrjú ár sem liðin eru frá síðustu kosningum, og lofuðu menn þó miklu þar um.

Ég nefni aftur Fjarðabyggð þar sem mikil umsvif eru, stærstu fiskihöfn landsins. Á Neskaupstað er megninu af þeirri síld sem unnin er til manneldis landað og þarf að lyfta því öllu yfir Oddsskarð með miklum þungaflutningum. Þar eru fjarskipti algjörlega í lamasessi stóran hluta leiðarinnar á þessum háa fjallvegi. Þegar maður kemur niður úr Oddsskarði og yfir Eskifjörð er sömu sögu að segja á erfiðri leið yfir Hólmaháls. Þar er allt eins og það var fyrir fjórum árum þegar Síminn var seldur. Það er eins og ekkert hafi gerst í uppbyggingu fjarskiptakerfisins í dreifbýlinu eftir að fyrirtækið var selt, því miður.

Renni maður fram hjá Hólmahálsinum, þar sem er stór hola, fer maður í gegnum Reyðarfjörð og upp á Fagradal. Þar er stór kafli á versta stað sem tekur heldur ekki við boðum. Þar er svört hola án fjarskipta á aðalleiðinni með þungaflutninga vegna virkjunarframkvæmda uppi á Kárahnjúkum og vegna virkjunarinnar í Fljótsdal. Þetta er alveg makalaust. Ég held að fáum þjóðum eða ríkisstjórnum eða yfirvöldum fjarskipta í nokkru landi hefði dottið í hug að fara í framkvæmdir af þessu tagi án þess að hafa slíka grunnþjónustu í lagi, því miður. En það er vonandi að með þessu aukaframlagi komist skriður á þetta mál og við förum að sjá einhvern árangur.

Ég vil líka taka norðurleiðina þar sem verstu kaflarnir úr Jökuldal og til Akureyrar eru sambandslausir, svartar holur á alverstu stöðum leiðarinnar. Ég er ekki svo kunnugur öðrum svæðum á landinu en ég veit þó og mér er sagt að nákvæmlega það sama sé upp á teningnum á öðrum landsvæðum. Það er mjög slæmt mál og er efni til þess að leiðrétta.

Auðvitað hljóta allir landsmenn að gleðjast yfir góðri afkomu ríkissjóðs og 40 milljarða aukning í ár er í sjálfu sér gleðiefni fyrir alla þá sem standa í rekstri, hvort sem í hlut á bæjarsjóður, ríkissjóður eða fyrirtæki. En það eru blikur á lofti og mig langar að tala um það almennt séð. Við vitum öll hvað knýr þessa vél áfram og hún verður ekki endalaust á þeirri fart sem hún er núna. Hinum gríðarlega viðskiptahalla sem skapar tekjur í ríkissjóð mun linna. Við erum bundin í verðbólguna enn á ný, sem er gríðarlegt áhyggjuefni. Við erum bundin í það líka að vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar í ýmsum þjónustuþáttum hefur verðlag hækkað alveg gríðarlega. Lækkun skatta á hátekjufólk er staðreynd.

Nú á síðustu vikum er blásið til sóknar sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum samþykk. Það er 20–30 milljarða pakki sem gengur út á lækkun matarverðs, hver er á móti því? Þrír til fimm milljarðar til aldraðra og öryrkja, hver er á móti því? Það er gleðiefni að hægt er að standa þannig að málum.

En hvernig ætla menn að fjármagna þetta í framtíðinni? Stóra spurningin til hæstv. fjármálaráðherra er þessi: Hvaða sýn hafa menn á það að lenda úr þessari gríðarlegu þenslu og þar með tekjuaukningu ríkisins og fara niður á eitthvert eðlilegt plan á næstu þremur til fimm árum? Ætla menn að knýja þessa myllu áfram eins og verið hefur á undanförnum árum með frekari sölu ríkiseigna? Það gera sér allir grein fyrir því, virðulegi forseti, að stór þáttur í góðri afkomu ríkissjóðs er sala ríkiseigna. Síminn var seldur fyrir háar fjárupphæðir, Steinullarverksmiðjan var seld, Sementsverksmiðjan var seld og auk þess mörg smærri fyrirtæki sem voru einkavædd eða seld úr höndum ríkisins.

Menn guma af því í hæstv. ríkisstjórn að verið sé að lækka skatta en afleiðingin er stórkostleg hækkun á þjónustu. Hvað segja menn t.d. um formbreytinguna sem er undanfari einkavæðingar í raforkugeiranum? Hvað segja menn um formbreytinguna þar sem skilið er á milli raforkuvinnslu og raforkuflutnings, þar sem raforkuflutningskerfið er sett á markað eða látið lúta lögmálum markaðarins? Það var fullyrt hér í þinginu þá að það hefði engar breytingar í för með sér á hag fólks í landinu, en staðreyndin er nú aldeilis önnur. Bæði einkaaðilar, og ég tala nú ekki um fyrirtækin í landinu, eru að sligast undan gríðarlega hækkuðu raforkuverði í kjölfar þessara breytinga.

Hvað á að knýja þessa vél áfram? Er það sýn ríkisstjórnarinnar að keyra samfélagið Ísland áfram með sölu þeirra ríkiseigna sem eftir eru til þess að halda áfram enn um sinn hinum hraða dansi og hinni miklu verslun? Það eru eftir í pípunum fyrirtæki og stofnanir sem hægt er að selja. Eru menn með tilburði til að selja Rafmagnsveitur ríkisins? Það er spurning sem verður að svara þegar menn horfa til framtíðar. Ætla menn að byggja ríkissjóð, eins og gert hefur verið síðastliðin ár, á sölu ríkiseigna og guma síðan af góðri afkomu? Það kemur niður á fólkinu annars staðar eins og ég nefndi í sambandi við raforkureikninginn áðan, raforkureikning til einstaklinga og raforkureikning til fyrirtækja. Þó hefur fyrirtækið ekki verið selt heldur hefur forminu á því verið breytt þannig að það lýtur sömu lögmálum og markaðsvætt fyrirtæki, lýtur þeim lögmálum að skila arði í stað þess að vera þjónustufyrirtæki. Rarik og Landsvirkjun voru að vissu leyti þjónustufyrirtæki með lágmarksarðsemiskröfu en eru það ekki lengur vegna formbreytingar og sérstaklega með tilkomu Landsnets sem sérstaks fyrirtækis. Þetta er náttúrlega hlálegt í margra augum.

Ég held að það sé mikilvægt fyrir alla landsmenn að gera sér grein fyrir því á hvaða vegferð hæstv. ríkisstjórn er í þessum málum. Er meiningin að þenja enn um sinn? Ég hef lúmskan grun um að svo sé. Okkur var sagt á árum áður að ekki ætti að selja bankana, það ætti bara að breyta um form á þeim. Okkur var sagt að ekki ætti að selja Símann, það ætti bara að breyta um form á honum. Bankarnir voru allir seldir og loforð svikin um hvernig fara ætti í málin. Nú er verið að segja okkur að ekki eigi að selja raforkukerfið, einungis eigi að breyta um form á því. En það er augljóst að enn um sinn er hægt að reka ríkissjóð með allt öðru sniði ef menn ætla að fara í það að selja síðustu hreyturnar sem eftir eru í föstum eignum þessa rekstrar, það gefur augaleið.

Þrátt fyrir lækkun skatta finnur almenningur fyrir því í þessum formbreytingum öllum hvað þjónustugjöld af ýmsu tagi hafa hækkað gríðarlega. Þar er Síminn talinn með. Við höfum ekki farið varhluta af því, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum. Fyrirtækið hefur augljóslega verið selt án þess að minnsta tilraun hafi verið gerð til að búa svo um hnútana að það þyrfti að sjá til þess að eðlileg, dreifð og aðgengileg þjónusta yrði um allt þetta stóra land. Mörg önnur lönd fóru þannig að málum varðandi sölu á sínum símfyrirtækjum, en við ætlum bara að nota sumt af símapeningunum til þess að gera þetta sjálf á vegum Vegagerðarinnar og höfum ekki gert neitt síðustu fjögur árin. Ég get ekki séð að nokkur hlutur hafi gerst í þessu, því miður, alla vega ekki þar sem ég þekki til.

Það eru þessir hlutir sem verður að ræða. Hvernig á lendingin að vera? Nú hugsa ég til þess tímabils þegar Danir lifðu sína gullaldartíma á sjöunda áratugnum, milli 1960 og 1970. Mikið rosalega er það skeið líkt því skeiði sem við höfum verið að fara í gegnum á undanförnum tíu árum, gríðarleg umsvif, sérstaklega í uppbyggingu á iðnaði, massífur innflutningur á erlendu verkafólki, góður hagur ríkissjóðs og gaman að lifa. Þetta tímabil hjá Dönum varði í tíu ár og var nú mest gaman í forsætisráðherratíð Jens Ottós Kraghs. En síðan þurfti að taka á og stíga mjög harkalega á bremsurnar á áttunda áratugnum, í byrjun hans, svo að sveið undan. Það var ríkisstjórn Pouls Hartlings sem þurfti að taka upp vettlingana og fara ómjúkum höndum um hið danska samfélag.

Við verðum að vita hvert við stefnum, hæstv. forseti, í þessum málum. Það er krafa okkar þingmanna að fá nokkra framtíðarsýn vegna þess að við vitum svo sem hvað liðið er. Við vitum um þær hremmingar sem við höfum lent í. Við vitum um viðskiptahallann, við vitum um verðbólguna. Það er þess vegna mikilvægt í þessari umræðu að hæstv. fjármálaráðherra geri nokkra grein fyrir því hvert hann stefnir á næstu þremur til fimm árum á fjármálasviði.