133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

sameignarfélög.

79. mál
[17:23]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli sem viðskiptaráðherra fyrir frumvarpi til laga um sameignarfélög á þingskjali 79, 79. mál.

Með frumvarpi þessu er stefnt að setningu heildarlöggjafar um sameignarfélög þótt vægi þeirra hafi minnkað nokkuð á síðustu árum samhliða mikilli fjölgun einkahlutafélaga.

Þannig var fjöldi einkahlutafélaga í árslok 2004 rösklega 21.000. Fjöldi hlutafélaga tæplega 1.000 en fjöldi sameignarfélaga rösklega 2.400. Frumvarpið var samið á vegum viðskiptaráðuneytisins en aðalhöfundur þess er Áslaug Björgvinsdóttir, lögfræðingur og dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Það var talið rétt að semja frumvarpið til að skýra reglur um innbyrðis samband félagsmanna í sameignarfélögum og stöðu viðsemjenda þeirra. Nefna má í því sambandi að hugsanlegt er að fjárfestar, m.a. erlendir aðilar, hafi meiri áhuga á sameignarfélögum ef um þau eru skýrar reglur í löggjöf. Frumvarpið er ekki byggt á reglum Evrópska efnahagssvæðisins, enda finnast þar eingöngu reglur um evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög sem eru ein tegund sameignarfélaga. Lög hafa verið sett um þau hér á landi.

Hliðsjón var við samningu frumvarpsins höfð af norsku félagalögunum og jafnframt dönskum sameignarfélagarétti en engin heildarlög eru reyndar um sameignarfélög í Danmörku.

Sameignarfélög eru í grundvallaratriðum ólík hlutafélögum, einkahlutafélögum og samvinnufélögum. Um er að ræða félagsform þar sem samstarfið byggir almennt á persónulegum forsendum og gjarnan nánu sambandi milli félagsmanna, enda bera þeir beina ótakmarkaða og óskipta ábyrgð á öllum skuldbindingum félagsins.

Markmiðið með frumvarpinu er að setja reglur um sameignarfélög sem eru til þess fallnar að skýra réttarstöðu þeirra, einkum í þeim tilvikum er ekki liggja fyrir ákvæði í félagssamningi, sem taka á viðkomandi álitaefni. Þó er stefnt að því að tryggja áfram samningsfrelsi um innri málefni sameignarfélaga og sveigjanleika þessa rekstrarforms. Gert er ráð fyrir að lögin verði að meginreglu til frávíkjanleg, þ.e. reglurnar sem lúta að innra skipulagi og sambandi félagsmanna innbyrðis og gagnvart félaginu.

Reglur sem varða hins vegar réttarsamband félagsins út á við, m.a. ábyrgð félagsins og félagsmanna á skuldbindingum þess auk skráningar í firmaskrá, eru hins vegar almennt ófrávíkjanlegar. Ekki er þó stefnt að því að setja tæmandi reglur um hvert einasta álitaefni.

Um einstaka kafla frumvarpsins, sem eru 11 talsins, vil ég segja þetta.

Í I. kafla er að finna almenn ákvæði um gildissvið laganna, að hverju marki þau eru frávíkjanleg. Hugtakið sameignarfélag er skilgreint og kveðið er á um skilyrðislaust rétthæfi skráðra sameignarfélaga.

Í II. kafla eru ófrávíkjanlegar reglur um stofnun sameignarfélaga, hverjir geti verið stofnendur og félagsmenn. Lágmarksskilyrði um skriflegt form og efni félagssamninga skráðra sameignarfélaga og inntak ábyrgðar félagsmanna á skuldbindingum sameignarfélaga. Þarna eru reglur sem eru nýmæli í íslenskum rétti, þ.e. um lögræði einstaklinga, um fyrningu og ábyrgð nýrra félagsmanna á eldri skuldbindingum.

Reglur III. kafla geyma ákvæði um stjórnkerfi sameignarfélaga og réttarstöðu félagsmanna, þ.e. innbyrðis afstöðu þeirra og gagnvart félaginu. Í þessum kafla er að finna reglur um hverjir hafi á hendi rekstur félagsins, fari með heimildir til ákvarðanatöku og skuldbindi félagið. Hér eru frávíkjanlegar meginreglur um félagsfund, innbyrðis tengsl félagsmanna, stjórnunarheimildir þeirra og auk þess reglur um skipan og valdsvið mögulegra stjórnareininga eins og stjórnar og framkvæmdastjórnar.

Gert er ráð fyrir að ákvæði III. kafla séu alfarið frávíkjanleg. Þar verður ekki gerð sú krafa til sameignarfélaga að stofnað sé til formlegs stjórnkerfis, eins og t.d. gildir um hlutafélög og einkahlutafélög.

Meginreglan um stjórnun sameignarfélaga er að félagsmenn, félagsfundur, taki í sameiningu ákvarðanir um málefni félagsins nema þeir kjósi aðra skipan þar á. Þess vegna er ekki gert ráð fyrir að lögfesta reglur um skyldu til að kjósa stjórn eða ráða framkvæmdastjóra í sameignarfélögum. Á hinn bóginn geta félagsmenn samið um formlegra stjórnkerfi, um kjör stjórnar og jafnvel ráðningu framkvæmdastjóra og þykir þá mikilvægt að til sé lagarammi um störf þeirra, sé ekki nánar kveðið á um þau í félagssamningi.

Við samningu þessara reglna var höfð hliðsjón af norsku félagalögunum en þó ekki að öllu leyti, enda er þar m.a. einnig kveðið á um aðild starfsmanna að stjórnun félags. Einnig var horft til reglna IX. og X. kafla hlutafélaga- og einkahlutafélagalaga um félagsstjórn, framkvæmdastjóra og hluthafafund að því marki sem þær geta átt við um sameignarfélög.

Í IV. kafla eru ákvæði sem lúta að meðferð fjármuna sameignarfélaga og fyrirsvar. Þarna er að finna m.a. sérreglur um meðferð eigna skráðra sameignarfélaga sem ætlað er að styrkja sjálfstæði sameignarfélaga og stöðu þeirra sem lögaðila í viðskiptalífinu. Þá eru þarna reglur um úthlutun fjármuna til félagsmanna og hverjir geti skuldbundið sameignarfélög.

Í V. kafla eru ákvæði um breytingar á félagsaðild en þær þurfa almennt ekki að gefa tilefni til slita á félaginu.

Í VI. kafla eru reglur um slit sameignarfélaga og hvernig fara skuli um skipti á þeim, þ.e. þegar réttindi og skyldur félagsins eru gerð upp í tengslum við slit félagsins.

Í VII. kafla er kveðið á um skaðabótaábyrgð félagsmanna, stjórnenda og skilanefndarmanna. Um er að ræða reglur sem byggjast á almennu skaðabótareglunni og eru svipaðar skaðabótareglum hlutafélaga- og einkahlutafélagalaga.

Í VIII. kafla er mælt fyrir um skráningu sameignarfélaga. Í dag gilda firmalögin, nr. 42/1903, um skráningu félaganna. Ekki er gert ráð fyrir veigamiklum breytingum á skráningunni. Með reglum þessa kafla er markmiðið að færa reglur um skráningu sameignarfélaga meira að núverandi aðstæðum og samræma þær meira reglum um skráningu annarra félaga sem stunda almennt atvinnustarfsemi, eins og hlutafélög og einkahlutafélög. Samkvæmt firmalögum eru einkafyrirtæki, sameignarfélög og mögulega samlagsfélög skráð í firmaskrá hjá sýslumanni í því umdæmi sem þau reka atvinnu í.

Loks eru í IX. kafla gildistökuákvæði og þar á eftir ákvæði til bráðabirgða.

Varðandi einstakar greinar frumvarpsins vil ég benda á þetta.

Í 6. grein er gert ráð fyrir þeirri kröfu, sem er nýmæli, að lögræði sé skilyrði fyrir þátttöku einstaklinga í sameignarfélagi. Þar með er komið í veg fyrir hættu á t.d. ótímabæru gjaldþroti barna vegna aðildar að sameignarfélagi og er sú vernd í samræmi við reglur 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Í 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir nýmæli um ábyrgð sem felur í sér breytingu á íslenskri réttarframkvæmd. Samkvæmt nýju reglunni munu þeir sem ganga inn í þegar stofnað sameignarfélag einnig bera ábyrgð á eldri skuldbindingum félagsins. Frá þeirri meginreglu verður þó heimilt að víkja í félagssamningi þegar um skráð sameignarfélög er að ræða. Þessi breyting á ábyrgð nýrra félagsmanna á sér hliðstæðu í norskum rétti. Sú almenna regla að nýr félagsmaður beri einnig ábyrgð á eldri skuldbindingum þykir fremur í samræmi við regluna um ótakmarkaða og óskipta ábyrgð félagsmanna og henta betur í viðskiptalífinu. Sambærileg regla gildir enn fremur um evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög, samkvæmt lögum þar að lútandi. Undantekningin frá meginreglunni er í samræmi við norskan rétt og lögin um evrópsku fjárhagslegu hagsmunafélögin.

Í 2. mgr. 8. gr. er gert ráð fyrir að kröfuhafar skuli krefja skráð sameignarfélag um greiðslu áður en látið er reyna á beina ábyrgð félagsmanna á skuldum félagsins. Má því segja að hin beina ábyrgð félagsmanna sé til vara. Þetta er einnig nýmæli í lögunum.

Í 3. mgr. 8. gr. er loks nýmæli varðandi fyrningu. Felur reglan í sér að félagsmaður geti borið fyrningu á kröfu á hendur félaginu fyrir sig sé krafa á hendur því fyrnd. Að sama skapi getur félagsmaður ekki borið fyrir sig fyrningu sé krafan á hendur félaginu ekki fyrnd. Hér er vikið frá dómaframkvæmd Hæstaréttar.

Eins og í nýsamþykktum breytingum á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög er gert ráð fyrir möguleika á rafrænum félagsfundum og rafrænum samskiptum í 11. gr. og rafrænum stjórnarfundum í 15. gr. Þetta eru nýmæli í löggjöf varðandi sameignarfélög.

Mismunandi reglur geta gilt í sameignarfélögum miðað við önnur félög. Þannig er t.d. í 2. mgr. 18. gr. frumvarpsins ekki gert ráð fyrir að lánveitingar til stjórnenda eða félagsmanna séu almennt bannaðar eins og er í löggjöf um hlutafélög og einkahlutafélög.

Þá er í 19. gr. gert ráð fyrir einstaklingsbundnum stjórnunarheimildum félagsmanna með ákveðnum skilyrðum.

Af 23. gr. frumvarpsins leiðir að ekki er þörf á skilyrðislausum reglum um myndun stofnfjár og vernd eigin fjár í sameignarfélögum.

Í 24. gr. eru og sérstakar hömlur á frelsi félagsmanna til að stunda samkeppni gagnvart félaginu.

Ég vil vekja athygli á því að samkvæmt 45. gr. frumvarpsins er skylt að skrá viss sameignarfélög, þ.e. í fyrsta lagi félög sem stunda atvinnurekstur og í öðru lagi félög þar sem allir félagsmenn eru lögaðilar.

Í lok frumvarpsins er gert ráð fyrir að lög um sameignarfélög öðlist ekki gildi fyrr en 1. janúar 2008 þannig að um vissan aðlögunartíma sé að ræða.

Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að frumvarpinu verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.