133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

sameignarfélög.

79. mál
[17:40]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra greinargóð svör. Á sínum tíma þegar sveitarfélögin á Suðurnesjum stofnuðu með sér fyrirtæki til að sjá um ýmsa rekstrarþætti sameiginlega var, ef ég man rétt, litið á þau félög sem sameignarfélög. Þar nefni ég Hitaveitu Suðurnesja, Sorpeyðingarstöð Suðurnesja o.s.frv. Þetta eru stór og mikil fyrirtæki sem reyndar, t.d. Hitaveitu Suðurnesja, var breytt í hlutafélag síðar. En Sorpeyðingarstöð Suðurnesja, sem er í miklum rekstri og miklum viðskiptum, er rekin eftir sameignarfélagsforminu. Ég hygg að það sé þannig víða úti um land að þótt menn kalli þetta byggðasamlög eru þetta eftir sem áður félög sem munu þurfa að búa við löggjöfina um sameignarfélög og því veltir maður þessum atriðum fyrir sér.

Varðandi andlát félagsmanns sem fjallað er um í 31 gr. — þá er náttúrlega gert ráð fyrir að það séu einstaklingar sem mynda með sér sameignarfélög en auðvitað geta fyrirtæki gert það líka — að þá skuli meta virði hlutarins og greiða út því að erfingjar mega ekki erfa þetta: Hvað með tap ef höfuðstóll er orðinn neikvæður? Er þá skylda erfingja að greiða slíkt upp? Það hlýtur að skipta talsverðu máli þegar einhver deyr frá svona félagi. Í 34. gr. er gert ráð fyrir að greiddur sé eignarhlutur eða tap við innlausn hluta í slíku félagi. Maður hefði því haldið, miðað við orðanna hljóðan í 34. gr., að hið sama gæti átt við ef um andlát er að ræða. Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra gæti upplýst mig um það.