133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

sameignarfélög.

79. mál
[17:45]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um sameignarfélög og vil ég við 1. umr. þess fagna því að fram skuli kominn lagabálkur um sameignarfélögin.

Eins og sést á þróun varðandi félagsform á fyrirtækjum í athugasemdum við lagafrumvarpið þá er það ef til vill vegna þess að um sameignarfélögin hefur ekki ríkt svipuð löggjöf eða heildræn löggjöf og um hlutafélög og einkahlutafélög að þróunin hefur verið í þá átt að þeim hefur fækkað.

Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra er með frumvarpi þessu verið að stíga þau skref sem nefnd sem viðskiptaráðherra skipaði árið 2004 lagði til, að leggja í vinnu við að skoða laga- og rekstrarumhverfi fyrirtækja- og félagsforma sem ekki eru hlutafélög og fagna ég því mjög. Við í efnahags- og viðskiptanefnd munum að sjálfsögðu taka þetta frumvarp til þinglegrar meðferðar og greinargóðrar athugunar.

Ég vil nefna vegna þess sem sagt var hér á undan að í frumvarpinu kemur fram ákvæði til bráðabirgða þar sem sérstaklega er kveðið á um að reglur laganna um stofnun sameignarfélaga gilda ekki um sameignarfélög sem stofnuð eru og skráð fyrir gildistöku þeirra. Þetta munum við að sjálfsögðu hafa í huga við yfirferð málsins.

Ég vil líka nefna að þar sem einn höfuðkostur sameignarfélagsformsins hefur verið sá að ríkt hefur samningsfrelsi og visst frjálsræði í notkun formsins þá er skýrt tekið fram í greinargerð með frumvarpinu, sem ég fagna mjög, að með frumvarpi þessu er ekki verið að stefna að því að draga úr kostum sameignarfélaga að þessu leyti.

Virðulegi forseti. Við munum að sjálfsögðu taka þetta mál til greinargóðrar meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd strax og málið berst okkur.