133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

staðan á viðskiptabankamarkaði.

107. mál
[13:45]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Fyrsta spurning hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur er um afstöðu viðskiptaráðherra til tillagna Samkeppniseftirlitsins. Hún gerði nánari grein fyrir því í orðum sínum. Tillögurnar eru skynsamlegar til að auka samkeppni á markaði, en þeim er beint að markaðinum og markaðsaðilunum en ekki að löggjafanum og framkvæmdarvaldinu.

Stimpilgjaldið er einn af þeim sköttum sem margir tala um að heppilegt kunni að vera að afnema og það hefur oft verið rætt en það verður að fara eftir stöðu í hagstjórninni hvenær tími er valinn til þess.

Samkeppnisstofnun komst á sínum tíma að þeirri niðurstöðu að uppgreiðslugjald væri ekki andstætt lögum með tilliti til 16. gr. laga um neytendalán. Hins vegar stendur nú yfir endurskoðun á tilskipun um neytendalán sem innleidd eru með lögum um neytendalán og þá kann það að koma til skoðunar.

Önnur spurningin er hvort nauðsynlegt sé að hugað verði að aðgangshindrunum og greiðslukerfum bankanna og sameiginlegu eignarhaldi banka og sparisjóða á greiðslukortafyrirtækjum.

Samkeppniseftirlitið var ekki að kalla eftir löggjöf í þessa veru heldur beindust þessar athugasemdir líka að markaðinum og markaðsaðilum. Þróunin hefur verið í þá átt að minnka aðgangshindranir að greiðslukerfum bankanna. Greiðslukerfin byggjast hins vegar á frjálsum og ábyrgum samningum þessara aðila á milli og við í viðskiptaráðuneytinu álítum að tæki samkeppnislaganna ættu að duga í þessu efni. Það er matsatriði í hverju tilfelli, en við lítum svo á að svo sé. Sameiginlegt eignarhald banka og sparisjóða byggist einnig á frjálsum viðskiptum með hlutafé sem löggjafinn hefur ekki afskipti af.

Í þriðja lagi er spurning hvort ráðherra telji leiðir færar til að koma í veg fyrir vaxandi samþjöppun á íslenskum bankamarkaði o.s.frv. Því er til að svara að ekki hefur orðið vaxandi samþjöppun á íslenskum bankamarkaði. Einkavæðing ríkisviðskiptabankanna hefur þvert á móti fjölgað eigendum á þessum markaði, víkkað út markaðinn og opnað hann. Viðskiptabankarnir eru skráðir á markaði og því háðir þeim reglum sem þar gilda um eignarhald.

Við höfum samkeppnislög og við höfum verið að styrkja þau og við höfum jafnframt verið að styrkja Samkeppniseftirlitið til að vinna að sínum verkefnum og Samkeppniseftirlitið hefur lýst því yfir að það muni fylgja málinu eftir. En Samkeppniseftirlitið er sjálfstæð stofnun þannig að ráðherra getur ekki skipt sér af daglegri starfrækslu þess.