133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

staðan á viðskiptabankamarkaði.

107. mál
[13:48]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Nú er ég ekki eins ánægð með svör hæstv. viðskiptaráðherra eins og við fyrri fyrirspurn. Ráðherra vísar á frelsið á markaðnum og að þessum tillögum Samkeppniseftirlitsins hafi verið beint að markaðnum.

Það er að vísu rétt, hæstv. ráðherra. Þetta snýr að hluta til að markaðnum. En hæstv. ráðherra getur nú haft skoðanir á þessum hlutum, t.d. varðandi greiðslukerfin og þá þætti sem snúa beint að markaðnum. Ráðherrann getur auðvitað látið skoðun sína í ljós sem mundi skipta verulegu máli upp á það að bankarnir mundu þá hreyfa sig í þessum efnum og koma til móts við tillögur Samkeppniseftirlitsins. Hæstv. viðskiptaráðherra getur auðvitað beint því líka til bankanna að þeir skoði og verði við þeim óskum sem Samkeppniseftirlitið lætur hér frammi.

Það er óviðunandi að bankarnir hreyfi sig ekkert þegar Samkeppniseftirlitið kallar eftir úrbótum til að draga úr samþjöppun og viðskiptaráðherra hefur enga skoðun á málinu og ætlar þá greinilega ekki að beita sér í því. Ég hvet hæstv. ráðherra til að gera það, að beina því nú til bankanna að fara að þessum tillögum og tilmælum Samkeppniseftirlitsins.

Það sem snýr að ríkinu eru auðvitað stimpilgjöldin. Þau eru afar þungur baggi, ekki síst fyrir smærri fyrirtæki og skuldug heimili og það er kominn tími á að menn fari að setjast af alvöru yfir þetta og afleggja þessi stimpilgjöld. Ég held að við séum ein fárra þjóða sem er með þau. Það er hægt minnsta kosti að setja það niður í áföngum hvernig menn hafi hugsað sér að afnema stimpilgjöldin.

Síðan varðandi uppgreiðslugjöldin. Það er auðvitað alveg furðulegt að fólki sé refsað með sérstakri skattlagningu ef það vill greiða upp sín lán. Uppgreiðslugjald getur t.d. numið um 1 millj. kr. á 8 millj. kr. láni ef einhver vill greiða upp sín lán. Þetta eru fjötrar á fólk. Það getur ekki hreyft sig í viðskiptum milli banka út af uppgreiðslugjaldinu.

Hæstv. ráðherra hlýtur að hafa skoðun á (Forseti hringir.) skaðsemi þess fyrir heimilin í landinu. Ég spyr um afstöðu hans til uppgreiðslugjaldsins.