133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

lánveitingar Íbúðalánasjóðs.

105. mál
[13:55]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur góðar óskir í minn garð og tek undir með henni um nauðsyn þess að við eigum gott samstarf um þennan mikilvæga málaflokk sem félagsmálin eru.

Með breytingu á reglugerð um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf og útgáfu nýrrar reglugerðar um lánshlutfall og fjárhæðir í ÍLS-veðbréfa í júlí síðastliðnum var lánshlutfall almennra lána Íbúðalánasjóðs lækkað úr 90% í 80% af fasteignamati íbúðar sem lánað var til. Jafnframt var hámarkslán sjóðsins lækkað úr 18 millj. í 17.

Um er að ræða tímabundna aðgerð með það að markmiði að draga úr þenslu á íbúðalánamarkaði og var hún liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

Þessi þensla íbúðamarkaðar hófst, eins og hv. þingmenn vita, með því að bankarnir hófu haustið 2004 að bjóða næstum óheft íbúðalán til allra sem vildu. Þetta stóraukna framboð íbúðalána hefur vitaskuld hafa margháttaðar afleiðingar. Sumar jákvæðar eins og að fjölmargir íbúðareigendur gátu skuldbreytt óhagstæðum eldri lánum en til lengri tíma eru áhrifin þau að íbúðaverð hefur hækkað. Fyrir vikið fer sá hópur fólks stækkandi sem á erfitt um vik með að kaupa eigið húsnæði.

Eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir þekkir betur en flestir sem hér eru, er verðbólgan versti óvinur þeirra sem skulda verðtryggð íbúðalán. Með því að lækka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs tímabundið í 80% og lækka hámarkslán í 17 millj. var ríkisstjórnin markvisst að reyna að draga úr verðbólgunni sem m.a. hefur verið knúin áfram af hækkun á verði íbúðarhúsnæðis. Að mínu mati var þetta rétt ákvörðun við þær aðstæður sem þá voru uppi.

Þegar áhrif þessara aðgerða koma enn betur í ljós, með því að böndum hafi verið komið á verðbólguna er fyrirséð að þrýstingur vex á að hlutfallið verði hækkað á ný. Slík breyting væri í fullu samræmi við áform okkar framsóknarmanna í þessum efnum og við það viljum við standa eins og annað.

Almennt má segja að breyting á útlánaheimildum og minnkað framboð íbúðalána leiði fyrst og fremst til að fólk ákveði að bíða einhvern tíma með að skipta um húsnæði. Það veltur þó á aðstæðum hvers og eins hvort slík bið sé möguleg. Eflaust má finna dæmi um fjölskyldur sem hafa knýjandi þörf fyrir að skipta um húsnæði en eiga erfiðara um vik vegna minnkandi lánsframboðs, þar á meðal vegna lækkunar á lánshlutfalli Íbúðalánasjóðs.

Ekki er ólíklegt að einhverjir þeirra sem stóðu í húsnæðiskaupum eða voru langt komnir með undirbúning að slíkum viðskiptum eða gátu ekki frestað þeim, hafi orðið að leysa sín mál með auknum lántökum í bankakerfinu. Hvorki ráðuneyti né Íbúðalánasjóður búa hins vegar yfir upplýsingum um hver stór sá hópur kann að vera sem hefur þurft að leita sér annarra og dýrari fjármögnunarkosta.

Varðandi greiðslumatið er það svo að eftir að það var sett inn í rafrænt form á heimasíðu Íbúðalánasjóðs getur væntanlegur lántakandi sjálfur útbúið bráðabirgðagreiðslumat og séð þá strax hvaða lánamöguleika hann hefur. Hvað hann getur greitt af háu láni og hvað hann getur keypt dýra eign.

Af þeirri ástæðu er fremur fátítt að lánsumsókn sé hafnað vegna þess að greiðslugeta sé ekki fyrir hendi. Viðskiptavinurinn hefur oftast sjálfur gert sér grein fyrir því fyrir fram hvort hann eigi möguleika á láni. Algengara er því að lánsumsókn sé hafnað af Íbúðalánasjóði vegna vafasamrar viðskiptasögu umsækjanda. Breyting á lánshlutfalli úr 90% í 80% hefur engu breytt hvað þetta varðar heldur trúlega leitt til þess að sjóðurinn fær færri lánsumsóknir en áður.

Staðreyndin er sú, hæstv. forseti, að stærstur hluti þeirra 90% lána sem Íbúðalánasjóður hefur veitt hafa verið úti á landi. Á höfuðborgarsvæðinu hefur takmörkun vegna brunabótamats íbúða leitt til að lánshlutfall Íbúðalánasjóðs nær sjaldan hæsta mögulega veðhlutfalli. Því er óhætt að slá því föstu að það sé einkum á landsbyggðinni sem lækkunin hafi haft áhrif en á höfuðborgarsvæðinu hafa áhrifin af lækkun lánshlutfallsins ekki orðið veruleg. Þar hefur lækkun á hámarksláni úr 18 millj. í 17 millj. hins vegar haft meiri áhrif.

Að mínu mati líður senn að því að mögulegt verði að auka lánshlutfallið að nýju í 90%. Ég er þó jafnframt tilbúinn að skoða fleiri leiðir til að auka möguleika ungs fólks til að eignast eigið húsnæði. Í því sambandi bendi ég einkum á að tenging útlána Íbúðalánasjóðs miðist við annað en brunabótamat.

Fjármálaráðherra hefur ákveðið að setja á laggirnar sérstakan starfshóp til að fara yfir kosti og galla núverandi tilhögunar í fasteignaskráningu og fasteignamati á vegum hins opinbera. Eitt af verkefnum starfshópsins verður að leita svara við þeirri grundvallarspurningu hvort nægileg rök standi til að halda í skyldutryggingu vegna bruna á fasteignum með hliðsjón af því að slík skylda virðist einsdæmi hérlendis. Verði niðurstaðan sú að ekki sé þörf fyrir slíka skyldutryggingu virðist allur grundvöllur brostinn fyrir því að miða lánshæfi eigna við brunabótamat.

Að mínu mati er það margumrædd takmörkun útlána Íbúðalánasjóðs vegna brunabótamats sem hefur hvað mest áhrif varðandi fjármögnun íbúðakaupa hjá Íbúðalánasjóði. Hátt verð eigna og aðrar takmarkanir á borð við 80% lánshlutfall og 17 millj. kr. hámarksfjárhæð Íbúðalánasjóðs hafa einnig áhrif en þau eru að mínu mati mun minni.