133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

lánveitingar Íbúðalánasjóðs.

105. mál
[14:02]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er stefna okkar framsóknarmanna að standa vörð um starfsemi Íbúðalánasjóðs. (Gripið fram í: Loksins.) Ég fagna því sem hæstv. félagsmálaráðherra lýsti yfir áðan að hugmyndir séu uppi um að efla starfsemi Íbúðalánasjóðs og styrkja grundvöll hans. Það hefur ekki staðið á framsóknarmönnum að standa vörð um þá stofnun, enda er sú stofnun sköpuð af þáverandi félagsmálaráðherra, Páli Péturssyni, eins og öllum er kunnugt.

Hæstv. forseti. Það voru teknar mjög erfiðar ákvarðanir síðastliðna sumarmánuði af hálfu ríkisstjórnarinnar til að ná tökum á verðbólgunni. Við sjáum að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin fór í á þeim tíma eru að bera árangur. Samfylkingin talaði á þeim tíma út og suður í málefnum Íbúðalánasjóðs. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gagnrýndi harðlega þær aðhaldsaðgerðir sem ríkisstjórnin fór í í þeim efnum á meðan formaður Samfylkingarinnar og forustumenn aðrir töldu að ganga hefði mátt lengra. Samfylkingin hefur því talað út og suður í þessu máli eins og svo mörgum öðrum.