133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

þjónusta á öldrunarstofnunum.

118. mál
[14:22]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hv. 10. þm. Reykv. n., Ásta Möller, spyr um þjónustu við aldraða á öldrunarstofnunum.

Í fyrsta lagi er spurt hvaða þjónustu, utan skilgreindrar heilbrigðisþjónustu, öldrunarstofnunum sé skylt að veita vistmönnum. Samkvæmt skilmálablöðum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, sem fylgja umsóknareyðublöðum vegna umsókna í Framkvæmdasjóð aldraðra, skulu hjúkrunarheimili fyrir aldraða tryggja fullt fæði, þrif og þvott, lín og hreinlætisvörur, félagsþjónustu, sálgæslu, fjárvörslu og umsýslu fyrir heimilismenn. Á dvalarheimilum skal vera völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti, þrifum, félags- og tómstundastarfi. Allt er þetta tíundað nákvæmlega í fyrrnefndum skilmálablöðum.

Í annan stað er spurt hvort öldrunarstofnanir eigi að sjá um þvott vistmanna þeim að kostnaðarlausu og ef svo er, hvernig því sé fylgt eftir að þjónustan sé veitt. Bæði dvalar- og hjúkrunarheimili skulu sjá vistmönnum fyrir þvotti á einkafatnaði nema um sé að ræða viðkvæman þvott sem þarfnast meðhöndlunar í efnalaug eða þvottar í höndunum. Öllum stofnunum á að vera þetta að fullu ljóst, enda kemur þetta skýrt fram í áðurnefndum skilmálablöðum og er því fylgt eftir með ábendingum til stofnana sjái þær ekki um þessa þjónustu.

Í þriðja lagi er spurt hvaða stofnanir sjái ekki þvott vistmanna. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið sendi fyrirspurn um þessi efni til allra öldrunarstofnana á landinu. Því miður bárust ekki svör frá öllum. Eina stofnunin sem okkur er kunnugt um að veiti ekki þessa þjónustu er hjúkrunarheimilið Skógarbær. Þar er almennt ekki séð um þvott heimilismanna heldur aðeins fyrir nokkra sem aðstandendur hafa ekki getað séð um. Sunnuhlíð felur aðstandendum íbúa að sjá um þvott fyrir ættingja sína hafi þeir möguleika á því en í nokkrum tilfellum sér Sunnuhlíð um þvotta að öllu leyti eða að hluta. Í Sóltúni sjá aðstandendur um þvott á einkafatnaði hjá þriðjungi íbúanna þar sem þeir líta svo á að það sé liður í að aðstoða ættingja sinn og hafa hlutverk í daglegu lífi hans. Ekki er vitað um aðrar stofnanir sem ekki sjá um þvott á einkafatnaði hjá íbúum öldrunarstofnana.

Í fjórða lagi er spurt hver sé talinn árlegur kostnaður öldrunarstofnana við þvott vistmanna. Mörgum forsvarsmönnum stofnana reyndist erfitt að svara þessari spurningu þar sem ekki var auðvelt alls staðar að aðgreina þennan kostnað frá öðrum kostnaðarliðum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef undir höndum er kostnaðurinn yfirleitt um 70 þús. kr. á ári fyrir hvern íbúa en dæmi er um að kostnaður stofnunar vegna þvotta á einkafatnaði sé einungis um 7 þús. kr. á íbúa á ársgrundvelli. Annað dæmi er um kostnað upp á 140 þús. kr. á íbúa á ársgrundvelli. Hv. þingmenn geta því heyrt að það er mjög mismunandi hvernig þetta er reiknað út.

Virðulegur forseti. Ég vil af þessu tilefni ítreka að stofnanirnar eiga að sjá um þessa þvotta en það kemur í ljós að sumar þeirra gera það ekki. Ráðuneytið hefur fengið slíkar ábendingar og það hefur þá verið rætt við þær stofnanir. Það hefur verið gert símleiðis. Vegna þessarar fyrirspurnar og þeirra upplýsinga sem fram komu við vinnslu hennar — en ég vil þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að vekja athygli á umræddum þvottamálum — tel ég fullt tilefni til að heilbrigðisráðuneytið árétti við stofnanirnar skriflega að þær eigi að sjá um þennan þvott. Það er auðvitað ekki eðlilegt, eins og kom fram hjá hv. þm. Ástu Möller, ef ættingjar eru að sligast undan þessum þvottamálum, eins og mér heyrðist vera sagt hér að viðkomandi aðstandandi þurfti að þvo daglega tvo til þrjá umganga af fatnaði viðkomandi ættingja. Það er auðvitað geysilega mikið álag, það vita allir. Ég tel í tilefni af þeim upplýsingum sem hér komu fram að við eigum að árétta þetta skriflega til stofnananna þannig að þeim sé þetta algerlega ljóst.