133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

leiga aflaheimilda.

179. mál
[14:46]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Gunnar Örlygsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra svörin og hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni.

Þessi umræða hefur verið í gangi um langa hríð og ég hef bent á nokkrar leiðir sem gætu hugsanlega nýst til aukins árangurs á þessu sviði. Vil ég nefna tvær leiðir í því ljósi. Aðra leiðina vil ég kalla prósentuleiðina en hina leiðina vil ég kalla fiskmarkaðsleiðina. Prósentuleiðin skýrir sig þannig að leiguverð á kvótadögum geti aldrei orðið hærra en sem nemur ákveðinni prósentutölu á því meðalverði sem var á fiskmarkaði vikuna á undan. Þetta er í rauninni mjög einföld leið sem yrði farin á þennan hátt en um leið mundi hún tryggja þeim útgerðarmönnum sem leigja til sín heimildir það olnbogarými til að stunda útgerð ef prósentutalan er nógu lág.

Hin leiðin, sem er svokölluð fiskmarkaðsleið, hefur gengið út á þann þátt að nýta hið rafvædda uppboðskerfi fiskmarkaðanna sem fiskkaupmenn í dag nota til að kaupa fisk, þ.e. að fara ákveðna uppboðsleið og gera mönnum þá kleift að sækja einu sinni í viku inn á hið rafvædda uppboðskerfi og kaupa sér aflaheimildir til leigu og nota einu sinni. Þessi leið er að mínu mati afar spennandi, sérstaklega í ljósi þess ef hún er skilyrt. Hún þarf að vera skilyrt með þeim hætti að útgerðarmenn geti ekki lagt inn lágmarksverð fyrir leigunni samhliða því að þeir leggi inn leiguna, og hún þarf að vera skilyrt með þeim hætti að útgerðarmenn geti ekki dregið aflaheimildir til baka.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða þessar leiðir af gaumgæfni og beita sér fyrir því að form á leigu aflaheimilda, framtíðarfyrirkomulag á leigu aflaheimilda verði tekið til gagngerðrar endurskoðunar í ráðuneyti sjávarútvegsmála.