133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

bann við botnvörpuveiðum.

196. mál
[14:58]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ef við ætlum að verja nýtingarréttinn, eins og hæstv. ráðherra minntist á, verðum við að fara með gát í þessu efni. Segja má að heimildir til botnvörpuveiða hafi verið allt of opnar og stundaðar allt of nærri landi og oft og tíðum á kórallaslóð, meira að segja. Það er eðlilegt að náttúruunnendur hafi áhyggjur. Við hefðum líka áhyggjur ef rjúpnaveiði færi þannig fram að tvær stórar jarðýtur drægju á milli sín járndruslur eða bobbinga með neti á milli yfir kjarri vaxið land langa vegalengd og við sæjum hvers konar slóð slíkt veiðarfæri skildi eftir sig, jafnvel þó að einu sinni væri farið yfir slóðina en ekki aftur og aftur eins og raunin er með stór troll nútímans.

Það er erfiðara að ímynda sér hvernig hafsbotninn lítur út eftir yfirferð svona veiðarfæra. Það stendur því svolítið upp á okkur sjálfa að sýna að við getum séð um ábyrga veiðistjórn og stýrt þessu hér heima fyrir. Þá fyrst getum við gert kröfu um að aðrir skipti sér ekki af.