133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

bann við botnvörpuveiðum.

196. mál
[15:01]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég hygg að við tökum um 45% af botnfiskaflanum við landið í togveiðarfæri, í troll. Það er auðvitað mjög stórt hlutfall. Þessum veiðum höfum við skipað með lögum og reglum á undanförnum árum. Lög um veiði í fiskveiðilandhelgi Íslands mörkuðu þá stefnu sem var tekin upp svæðaskipt fyrir mörgum árum um hvernig botnvarpan væri nýtt.

Hinu er ekki að leyna að aflið sem við notum til botnvörpuveiðanna er allt annað í dag en á árum áður. Það er rétt sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson vakti athygli á áðan, að í það stefnir að við höfum skip sem draga botnvörpu með 10 þús. hestöflum með togkrafti sem fer yfir 100 tonn og spilkraft með yfir 50–60 tonn eða meira. Þessir kraftar eru mun meiri en við áður notuðum við slíkar veiðar. Þess vegna fylgir þeim veiðum ákveðin hætta. Þess vegna ber að taka þessa umræðu alvarlega og skoða hana. (Forseti hringir.) en ég tel að við eigum fyrst og fremst að reyna að stýra þessu sjálf.