133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

Kárahnjúkavirkjun og Hálslón, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra.

[11:18]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra gaf hér áðan á 20 mínútum eins konar uppskrift að mestu náttúruspjöllum sem orðið hafa af manna völdum á Íslandi frá upphafi vega. Manngerðum spjöllum á ómetanlegri náttúruarfleifð og dýraríki sem er fágætt á heimsvísu, djásn sem við erum skuldbundin samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum að varðveita fyrir heimsbyggð alla. Hæstv. ráðherra var jafnósnortinn af innihaldi ræðu sinnar og hann hefði verið að lesa fyrir okkur kökuuppskrift. Það segir sína sögu, frú forseti. Það var ekki eins og þessi hæstv. ráðherra væri að fjalla um það einstaka mál sem klofið hefur þjóðina í tvær fylkingar árum saman. Allt hefur gengið eins og best verður á kosið, sagði ráðherra, og hann sagði það oftar en einu sinni.

Hæstv. forseti. Sú framkvæmd sem hér um ræðir á eftir að verða sú framkvæmd í sögu Íslendinga, eða ég vona það alla vega, sem mestar deilur hafa orðið um. Ég óska engri þjóð þess að þurfa að fara aftur í gegnum það sem við höfum gert á síðustu árum. Ég held að allir sem um þetta mál fjalla, og ekki síst við á löggjafarsamkundunni, verði að viðurkenna að fólk hefur staðið í blóðugum slagsmálum nánast, tilfinningalegum oftar en beinlínis líkamlegum, út af grundvallaratriðum í pólitík okkar og stjórnsýslu. Átökin hafa verið gríðarleg og það verðum við að viðurkenna. Miklar tilfinningar hafa verið í málinu og við verðum líka að viðurkenna þær.

Auðvitað telja sérfræðingar Landsvirkjunar að aldrei hafi verið betur að málum staðið og auðvitað segja þeir sem að þessum framkvæmdum hafa staðið að allt hafi gengið eins og best verður á kosið — og ég vil taka það skýrt fram að það er alls ekki við það fólk að sakast sem hefur unnið þessi störf þó að ýmsu hafi verið ábótavant. Þeir einstaklingar hafa unnið sín störf af trúmennsku. En við sem höfum mótmælt þessum framkvæmdum og höfum viljað fara aðra leið í atvinnuuppbyggingu á Austurlandi leyfum okkur að taka stórt upp í okkur eða vera þung í málflutningi okkar í garð stjórnvalda. Hvers vegna? Vegna þess að ákvörðunin um Kárahnjúkavirkjun var pólitísk ákvörðun. Hún var tekin af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og hún var studd af stærsta stjórnarandstöðuflokknum, Samfylkingunni, lengst af líka af formanni Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem talaði hér áðan. Hún var þá borgarstjóri og á þeim tíma sem ákvarðanirnar voru teknar hafði hún ekkert við hraðann á afgreiðslu mála að athuga eins og hún hefur nú og kom vel fram í ræðu hennar.

Sú afstöðubreyting sem kom fram í máli hv. formanns Samfylkingarinnar, sem hefur verið að eiga sér stað úti í samfélaginu, hefur verið að gerast hægt og bítandi og er árangur af dugandi baráttu náttúruverndara, bæði einstaklinga og frjálsra félagasamtaka og ekki síst þeirra sem barist hafa í þeim stjórnmálaflokki sem ég tala fyrir, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Ég er stolt af því að geta þakkað okkur stóran þátt í þeirri hugarfarsbreytingu sem er að verða hér í sölum Alþingis og ekki síður úti í samfélaginu. (Gripið fram í.) Það er gríðarlega mikilvægur árangur af mikilli baráttu sem hefur verið mjög erfið.

Eins og ég sagði áðan hefur Framsóknarflokkurinn lengst af dregið þennan vagn enda hefur hann farið með völdin bæði í iðnaðarráðuneytinu og umhverfisráðuneytinu á þessu tímabili. (EOK: Nei, nei, við höfum verið í þessu alveg á fullu.) Það er gott að fá þær yfirlýsingar frá sjálfstæðismönnum að þeir hafi verið í þessu á fullu. Það er auðvitað rétt. Hins vegar eru meiri deilur um það innan Sjálfstæðisflokksins en innan Framsóknarflokksins hvort hér hafi verið rétt að málum staðið og það skulu menn líka viðurkenna. Ákvörðunin var réttlætt með þjóðhagslegri hagkvæmni, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, og með byggðarlegum rökum. Þetta átti að lyfta atvinnulífinu á Austfjörðum í hæstu hæðir og gott og vel. Við vildum öll að teknar yrðu jákvæðar ákvarðanir fyrir atvinnulíf á Austfjörðum og atvinnulíf allrar þjóðarinnar úti um allt land, líka á Vestfjörðum sem nota bene hafna stóriðju.

En við ákvörðunartökuna og umhverfismatsferlið misbeitti ríkisstjórnin valdi sínu oftar en einu sinni. Hún keyrði málin í gegn fram hjá lögum, hún sveigði framkvæmdirnar inn á þá línu sem henni hentaði. Skýrasta dæmið um það var úrskurður umhverfisráðherra, Sivjar Friðleifsdóttur, þar sem hún sneri við faglegum úrskurðum Skipulagsstofnunar sem hafði gefið þessari virkjun falleinkunn. Þessi virkjun hafði líka fengið falleinkunn í rammaáætlun fyrsta áfanga sem hæstv. ráðherra flaggar nú og ætlar að fara að nota sem grundvöll leyfisveitinga um orkukosti í nánustu framtíð. Nú má draga rammaáætlunina fram og draga af henni einhvern lærdóm og segja að það sé eitthvert vit í henni en í henni er Kárahnjúkavirkjun líka hafnað eins og af Skipulagsstofnun. Skilyrðin sem hæstv. ráðherra, Siv Friðleifsdóttir, setti voru til málamynda einhvers konar mótvægisaðgerðir gegn óafturkræfum spjöllum framkvæmdanna og þær málamyndaaðgerðir voru stundum, eins og ég leyfi mér að segja núna, eins og vondur brandari. Það er kannski ekki gott að nota það hugtak þegar maður er að tala um jafnalvarlegt mál og raun ber vitni. En hvernig ætlaðist hæstv. umhverfisráðherra og þessi ríkisstjórn til þess að þjóðin gæti liðið það að horfa upp á vinnuvélar tæta upp þykka gróðurþekju á hálsinum óviðjafnanlega austan Jöklu undir því yfirskini að það væru mótvægisaðgerðir gegn foki, gegn gróðureyðingu — 18 km langt sár í hnausþykkan jarðveg og óviðjafnanlega gróðurþekju í 640 metra hæð yfir sjávarmáli uppi undir Vatnajökli í ævintýralandi öræfanna umhverfis Snæfell? Auðvitað var þetta eins og vondur brandari. Það var skammarlegt að láta sér detta í hug að koma þessari framkvæmd í gegn á mótvægisaðgerðum af þessu tagi.

Á öllum stigum þessa verks hafa blasað við vísbendingar um neikvæð áhrif, ekki bara á umhverfið heldur líka á samfélagið. Það sem skráð hefur verið og sagt um þau mál, ýmislegt af því er nú þegar að koma fram og meira á örugglega eftir að koma í ljós. (Gripið fram í: Hvaða áhrif á samfélagið?) Það eru ótal áhrif á samfélagið sem ég hef ekki … (Gripið fram í: Hvaða neikvæðu áhrif?) Neikvæðu áhrifin á samfélagið hafa orðið gríðarleg. Kári Þorgrímsson í Garði sagði á sínum tíma: „Stærð verkefnisins er ámóta og verið sé að græða fílshjarta í barn.“ Allir á Austfjörðum vonuðust eftir lítilli, sætri 120 þúsund tonna álverksmiðju, ekki 460 þúsund tonna álverksmiðju. En ég á eftir að fjalla núna um lélega arðsemiskröfu virkjunarinnar sem hefur líka verið gagnrýnd. Frá fyrsta degi og á öllum stigum þessa máls hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar verið eins og úlfar í sauðargæru. Þeir hafa ekki þreyst á því að gefa yfirlýsingar um það hversu miklir náttúruverndarsinnar þeir væru, hversu miklir útivistarmenn þeir væru, hversu mikið þeir kynnu að meta náttúruna og hversu mikið tillit væri tekið til umhverfisáhrifa þessara framkvæmda. Menn hafa stært sig af stefnu um sjálfbæra þróun. Þeir hafa veifað fyrsta áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, haft uppi fögur fyrirheit um öflugt samráð um málefni umhverfis og náttúruverndar og talað af fjálgleik um nauðsyn þess að stækka sjónarmið þeirra sem vilja nýta orkuauðlindirnar.

Þegar Ómar Ragnarsson er kominn fram í dagsljósið sem mótmælandi, búinn að viðurkenna andstöðu sína við Kárahnjúkavirkjun, og stór hluti þjóðarinnar hefur tekið undir með okkur sem allan tímann höfum viljað leita annarra leiða um atvinnuuppbyggingu, þá skýtur upp kollinum þessi nýi formaður Framsóknarflokksins, hæstv. iðnaðarráðherra, sem kemur úr Seðlabankanum eins og til að lappa upp á lemstraða ímynd Framsóknarflokksins, sem er lemstruð vegna framgangsins í þessu máli. Nú gefur hann út miklar yfirlýsingar þegar hann kemur hér til valda um að ríkisstjórnin reki enga stóriðjustefnu, það sé hinn mesti misskilningur. Afturvirk stefnubreyting hefur það verið kallað og auðvitað hafa menn brosað út í annað fyrir vikið.

Nú er það svo að ótalmargt mætti segja um þessi mál og áhættumatið sem fram fór á sínum tíma segir sína sögu. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fór vel yfir það á hvern hátt menn voru blekktir eða upplýsingum var haldið frá fólki. Um það vil ég líka segja að árið 1998 gaf Guðmundur Sigvaldason, einn okkar færustu jarðvísindamanna, sem nú er ekki lengur á meðal okkar, út yfirlýsingar um sprungur á stíflustæðunum og sprungur í lónstæði. Hann spurði spurningar sem Tumi Magnússon spyr í dag: Hversu mikið gliðna sprungurnar við farg lónsins? Árið 1999, 1998 eru þessar vangaveltur Guðmundar Sigvaldasonar komnar fram, hlustaði ég sjálf á hann á fundi í Reykjavík og þær vangaveltur hans leiddu til þess að jarðvísindamenn voru að skoða þetta frá fyrsta degi. Það er því ekki alls kostar rétt að við höfum fyrst verið vöruð við þessum hlutum þegar skýrsla Gríms Björnssonar kom út.

Við í þingflokki Vinstri heyfingarinnar – græns framboðs höfum útbúið tillögu til þingsályktunar sem við höfum dreift í dag á þskj. 237. Þar leggjum við til að Alþingi feli ríkisstjórninni að framkvæma nýtt óháð áhættumat fyrir Kárahnjúkavirkjun þar sem allar stíflurnar verði metnar með tilliti til hættu á stíflurofi, auk þess sem mat verði lagt á það hvort fyrirliggjandi viðbragðsáætlanir séu fullnægjandi. Það er eitt sem hefur gleymst í þessari umræðu og við höfum ekki nefnt hér. Við skulum ekki gleyma því að hvað varðar viðbragðsáætlanir fyrir mögulegt stíflurof eða aðrar alvarlegar uppákomur hefur málum verið verulega ábótavant.

Við leggjum til að til verksins verði skipaður starfshópur óháðra sérfræðinga á sviði jarðvísinda, mannvirkjagerðar og áhættumatsgerðar og það verði áskilið að sá sérfræðingahópur eigi möguleika á að kalla til sín erlenda sérfræðinga. Við teljum ljóst að það áhættumat sem liggur fyrir sé ekki fullnægjandi enda er það unnið af sömu aðilum og Landsvirkjun hefur haft með sér í vinnu við áhættumat frá fyrsta degi. Á þessu getum við gert ákveðna bragarbót og því vil ég nefna það hér að það væri fengur að því að fá stuðning á Alþingi við þá tillögu sem við höfum lagt fram og ég hef orðað.

Það er kannski eðlilegt að við spyrjum hæstv. iðnaðarráðherra hvað hann hafi að segja um þessa niðurstöðu sérfræðinganna um sprungurnar í lónstæðinu og í stíflustæði virkjunarinnar. Hann talaði þannig í ræðu sinni að hér hefði allt gengið eins og best verði á kosið. Fjölmiðlar hafa sýnt okkur fram á annað og vísindamenn hafa velt upp hlutum sem ég held að hæstv. iðnaðarráðherra verði að segja álit sitt á.

Það sem skiptir verulegu máli í þessari umræðu er oftrú stjórnvalda á stóriðjunni, sú ofuráhersla sem íslensk stjórnvöld hafa lagt á uppbyggingu orkufreks iðnaðar hér á Íslandi. Þegar hæstv. iðnaðarráðherra talar um að nú sé búið að koma öllum hlutum út á markað og það sé fyrirtækjanna og sveitarfélaganna að taka þessar ákvarðanir verður að skoða það í réttu ljósi. Við á Alþingi höfum staðið frammi fyrir því að fara í gegnum afgreiðslu mála eins og raforkumála. Ég vil nefna vatnalagafrumvarpið frá því í fyrra. Við höfum tekist á um auðlindalögin og það hefur verið gríðarlegur ágreiningur um þá breytingu að markaðsvæða raforkukerfið og efna til einhverrar samkeppni sem fjöldinn allur af mætum sérfræðingum heldur fram að verði aldrei hægt að stunda á íslenskum orkumarkaði. Það umhverfi sem orkumarkaðurinn býr nú við er skapað á hinu háa Alþingi. Ég vil undirstrika að það umhverfi hefur aldrei verið mér að skapi og okkur sem í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum starfað. Við hefðum viljað sjá öðruvísi á málum haldið. Við töldum ævinlega að hægt hefði verið að sækja um undanþágur frá orkutilskipun Evrópusambandsins sem stjórnvöld og aðrir flokkar á Alþingi töldu að við þyrftum að innleiða.

Ég vil segja að mér finnst þessi ofuráhersla og ofurtrú stjórnvalda á stóriðjuna — þegar stjórnvöld fara af landi brott, gera út leiðangra til þess að sækja fjárfesta yfir hafið til að fjárfesta í orkuauðlindunum okkar — alvarlegt mál. Mér finnst stjórnvöld vera að segja að eini möguleiki okkar til að skapa einhver verðmæti af orkuauðlindunum sé að selja ódýra orku til erlendra stóriðjufyrirtækja. Stjórnvöld þurfa að opna augu sín fyrir því að það eru aðrar leiðir. Náttúruvernd er líka nýting og ferðaþjónustan okkar lifir ekki á því að sýna álver, virkjanir eða risastíflur. Hún lifir á því að sýna gersemarnar okkar, djásnin okkar sem við eigum á hálendi Íslands og í náttúru Íslands. Við getum ekki haldið áfram eins og við ætlum að gera núna á næstu fjórum árum að reisa álver í Húsavík, álver í Helguvík, stækka Straumsvík, klára Norðurál. Það er of mikil fórn. Það er mál að linni. Við þurfum að taka okkur hlé frá þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa leitt yfir okkur og það ákveður þjóðin vonandi í næstu alþingiskosningum að gert verði.