133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

Kárahnjúkavirkjun og Hálslón, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra.

[11:34]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það ber að þakka að þessi umræða skuli fara fram. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að koma hér og hefja umræðu um þetta mál og upplýsa hvernig staðan er að hans mati.

Ég vil hins vegar, hæstv. forseti, velta því fyrir mér hvað það er sem í raun hefur í upphafi búið til allar þær deilur sem hafa orðið um gerð Kárahnjúkastíflu og orkunotkun henni samfara. Hverjar eru áhyggjur fólks sem hafa tengst gerð Kárahnjúkastíflu og þeim atriðum að þar hafi ef til vill ekki verið nógu vel hugað að undirbúningi?

En ég vil byrja á að velta því fyrir mér hvers vegna við erum yfirleitt í umræðu um að hér hafi verið færst of mikið í fang við gerð Kárahnjúkastíflu. Stíflan sé of stór. Lónið of stórt. (Gripið fram í.) Skiptir ekki máli, hv. þingmaður. Baðkarið þitt er vafalaust svipað að stærð og mitt. Það eru engin sérstök rök hvort lón sé jafnstórt og eitthvað annað. Ég held að við ættum ekki að festast í slíkri umræðu. Hún er ekki svo markverð að við þurfum að skoða hana út frá þeim sjónarhóli.

Ég tel að uppbygging stóriðju á Austurlandi hafi verið eðlileg eins og þar var komið málum. Menn hlutu að líta til þess að finna sér tækifæri til að efla atvinnulíf á Austurlandi. Í því sambandi var alls ekki óeðlilegt að líta til þess að nýta orku norðan Vatnajökuls inn á þetta svæði og mjög eðlileg krafa heimamanna að slík orka væri nýtt á Austfjörðum.

Það sem hefur hins vegar kannski orsakað það að við höfum endað í þessum stórdeilum, m.a. vegna notkunar á því landi sem við sökkvum með Hálslóni, er undirrót þess að þær ákvarðanir voru teknar. Hvað skyldi það nú vera? Það er stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum. Algjört stefnuleysi. Í stað þess að hafa stefnu um það sem hefði verið mjög eðlilegt og æskilegt, að reisa 200.000–250.000 tonna álver á Reyðarfirði sem hefði bara verið þokkaleg stærð og alveg nægileg til að ná fram góðum áhrifum í atvinnulífi á Austfjörðum, þá lætur ríkisstjórnin álfyrirtækjunum það eftir að segja: Við viljum reisa 350.000 tonna álver. (Gripið fram í: Hver er munurinn?) Hver er munurinn? hv. þingmaður. Eigum við ekki aðeins að skoða það? Hver er munurinn?

Munurinn er nefnilega sá að Hálslón og stíflan þyrfti ekki að vera af þeirri stærð sem hún er og þar af leiðandi hefði kannski mörg sú umræða sem hefur farið fram um náttúrunýtingu og notkun lands norðan við Vatnajökul aldrei þurft að eiga sér stað.

Ég vil vekja athygli hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur á grein sem birtist í Blaðinu í gær þar sem var viðtal við Ástu Þorleifsdóttur þar sem hún færði rök fyrir því að ef til vill væri hægt að ná þeirri orku sem þyrfti til Reyðarfjarðar með lægri lónhæð og hvað þá ef álverið hefði verið aðeins minna þannig að við hefðum ekki þurft að ná í allan þennan vatnsforða til að tryggja rafmagn fyrir 350.000 tonna framleiðslu. (Gripið fram í.) Þá hefðum við einfaldlega, hv. þm. Austfirðinga, Arnbjörg Sveinsdóttir, getað sameinast um að vera ánægð með það öllsömul, ekki bara þeir sem vilja byggja upp atvinnulíf á landsbyggðinni, heldur öllsömul um að hægt hefði verið að ná markverðum áfanga í því og líka að taka tillit til þeirrar umræðu sem hefur orðið varðandi náttúrunýtingu og umgengni við hálendi landsins. (Gripið fram í.) Þetta er sjónarmið mitt sem ég er að kynna hér. (Gripið fram í.)

Ég tel að ekkert óeðlilegt sé við það þótt fólk í hinum dreifðu byggðum Íslands horfi til þess að þar komi ný atvinnutækifæri og þau séu m.a. byggð upp á stóriðju ef svo vill vera. En ég segi, hæstv. forseti, að mér finnst skorta á að ríkisstjórnin hafi stefnu um það hvernig hún vill dreifa þessum atvinnukostum um landið og af hvaða stærðareiningum þeir eigi að vera.

Eigum við að taka eitthvað sem ef til vill er fram undan? Eigum við að tala um Húsavík? Er ástæða til að byggja upp 350.000 tonna álver á Húsavík? Ég segi nei. Það er mín skoðun. En það er fullkomlega ástæða til að horfa til þess að Húsvíkingar geti notað orkukosti sína og geti kannski reist 150.000–200.000 tonna álver. Það er fullkomleg ástæða til að skoða það. (Gripið fram í.) Ég var ekkert að spyrja að því, hv. þingmaður. Ég er bara að reyna að gera grein fyrir því hvað ég teldi að gæti verið skynsamlegt í stöðunni. (Gripið fram í.)

Ég var einfaldlega að segja að mér finnst að ríkisstjórnin hafi ekki stefnu í því hvernig hún vill dreifa þessum kostum um landið. Hún lætur álrisunum eftir að ákveða hversu stór álverin eigi að vera. Við erum svo að bregðast við því með að fara inn í ferli þess að ná í þá orku sem krafa er um fyrir þessi stóru álver, sem er alls ekki nauðsynlegt. Skyldi það vera nauðsynlegt vegna þess að þessar einingar geti ekki borið sig? Nei, alls ekki. Það hefur enginn sýnt fram á það.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur ekki dregið það fram að 100.000 tonna álver gæti ekki borið sig, enda getur hann það ekki. Norðurál í Hvalfirði fór að skila hagnaði með 60.000 tonna framleiðslu. Og enn þá meiri hagnaði í 90.000 tonna framleiðslu og hefði vafalaust skilað ágætishagnaði þó það hefði aldrei verið farið yfir 200.000 tonna framleiðslu þar. (Gripið fram í: Hvað er það stórt núna?) Það er núna komið í 220.000 og mun sennilega fara í 260.000, ef ég man rétt. (Gripið fram í: 300.000.)

Það sem ég er að segja er að við höfum ekki mótað okkur vegferð í þessum málum. Þess vegna höfum við lent þessum hörkudeilum í þjóðfélaginu vegna þess að við erum að taka stærri skref en ásættanlegt er fyrir mjög marga sem horfa á nýtingu landsins.

Í því sambandi er rétt að vekja athygli á að ég held að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafi kynnt það í gær að komin væri sátt um verkferli sem snýr að notkun vatnsafls og hvers konar uppröðun við þyrftum að búa til í því. Þetta er auðvitað stefnumótun. Þá spyr ég: Hvar er stefnumótunin varðandi stærð álvera? Hvar er hún? Hún er auðvitað orsökin að því hversu mikla orku við erum að ná í í hverju tilfelli. Þannig er það.

Ef við leyfum álfyrirtækjunum að setja kröfuna og reisa hana og hún er tekin gild í þjóðfélagi okkar, að eingöngu skuli byggt álver af þeirri stærð sem verið er að reisa austur á Reyðarfirði, þá erum við auðvitað þar með að viðurkenna að við séum sammála því að leita að þeirri orku sem þarf til framleiðslunnar. Þá erum við komin í ferli sem við erum kannski ekki öll sátt við.

Ég held að margt af þeirri umræðu og þeim deilum sem við höfum lent í sé kannski orsök þess að við höfum leyft álfyrirtækjunum að setja fram kröfu um hversu stórar einingar álfyrirtækin vildu byggja í stað þess að setja takmörk, jafnvel með skilyrðum eða fyrirskipunum um að skoða mætti síðar stækkun. Og þá yrði orkuþörf og önnur nýting metin. Þannig var þetta byggt upp við Norðurál í Hvalfirði, skref fyrir skref.

Ég er að draga þetta fram, hæstv. forseti, vegna þess að allir vita hvernig þessar deilur hafa verið um Kárahnjúka og Kárahnjúkastíflu og notkun lands í því sambandi á undanförnum árum og missirum.

Ég verð hins vegar að segja, hæstv. forseti, að eftir umfjöllun í haust um Kárahnjúkastíflu og gerð hennar og þær upplýsingar sem við fengum fram, m.a. í iðnaðarnefnd, þá hef ég miklu minni áhyggjur af Kárahnjúkastíflu heldur en áður. Ég tel að Kárahnjúkastífla sé ekki stórhættulegt mannvirki. Ég tel það ekki.

Hins vegar er það mikil spurning hvort jarðskorpan, sem var kannski ekki nægilega rannsökuð við gerð stíflunnar, muni ef til vill taka breytingum við þann mikla þunga sem áætlað er að setja í Hálslón. Þá kem ég aftur að þeirri grein sem Ásta Þorleifsdóttir var með í Blaðinu í gær.

Er það hugsanlegt, og ég beini þeirri spurningu til hæstv. iðnaðarráðherra, að við förum varlegar í að fylla stífluna með tilliti til þess, eins og Ásta rakti í grein sinni að vatnsstreymi frá jöklinum er meira vegna hlýnandi veðurfars en menn gerðu áður ráð fyrir og þess vegna minni líkur á að upp komi sú staða að þurrð verði á vatni til að ná þeirri orku sem við þurfum að ná, eins og málum er komið, til að nýta fjárfestinguna sem er á Reyðarfirði? Er það hugsanlegt? Ég spyr vegna þess að ég þekki ekki það mál. En Ásta Þorleifsdóttir færir að því nokkrar líkur að það sé alveg hugsanlegt. Að hafa lægri lónhæð og ná samt þeirri orku sem við erum að sækjast eftir.

Þetta var í meginatriðum það, hæstv. forseti, sem ég vildi sagt hafa. Hitt er alveg ljóst að ástæða þess að landsbyggðin er mjög víða að leita að nýjum atvinnutækifærum, og horfir þar til orkunnar og í því sambandi til stóriðjunnar, er auðvitað sú þróun sem víða hefur orðið í byggðum landsins. Undan því verður ekki vikist að þar á líka stefna stjórnvalda mikinn þátt, m.a. stefnan í sjávarútvegsmálum. Ekki er hægt að horfa fram hjá því, hv. þingmaður. Þannig er það. Og þó að þú búir ekki í sjávarútvegsbyggð, þá er það svo.

Við horfum á það að því miður fækkar á mörgum landsvæðum og atvinnutækifærin í gömlu undirstöðuatvinnugreinunum fækkar. Vissulega er þar tilfærsla og ný tækni sem kemur til. Það er samt mannanna verk að hafa búið lögin um stjórn fiskveiða í þann búning sem við sitjum uppi með.

Ég vona að þær framkvæmdir sem gerðar hafa verið á Austfjörðum verði okkur til gæfu. Því ekki getur neitt okkar, hvaða skoðun sem við höfum, vonað að þær verði til ógæfu. Það held ég að hljóti að vera einkennileg hugsun ef einhver hugsar svo.

Við getum haft ýmsar skoðanir á því hvernig þetta verkferli var allt, hvernig að þessu var staðið. Ég hef lýst skoðunum mínum á því að ég tel að hægt væri að ná mjög markverðum árangri í orkunýtingu og þess vegna stóriðjunotkun með minni virkjunum og minni álverksmiðjum ef því er að skipta, eða öðrum atvinnurekstri, frekar en að reisa m.a. það stóra álver sem reist verður á Reyðarfirði.

Ég vona hins vegar að störfin þar verði Austfirðingum til heilla og ég vona vissulega að það verði vinnustaður þar sem kynjaskipting verður jafnari en verið hefur í iðnaðargreinum á undanförnum árum. Ég hef séð að í Norðuráli í Hvalfirði, þar sem ég hef komið, fjölgar konum við störf. Ég sé ekkert í störfum í álverum sem mælir á móti því að konur geti sinnt þeim til jafns við karla. Ég held því að fjölbreytni starfanna og störfin geti breyst á milli kynja. Það er æskilegt að mínu mati. Það eflir auðvitað byggð. Síðan fylgja þessu mörg afleidd störf og fólk þarf að mennta sig til þeirra starfa. Það er því engan veginn hægt að halda því fram að það sé allt neikvætt í þessari umræðu, langt í frá.