133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

Kárahnjúkavirkjun og Hálslón, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra.

[11:59]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Nýr iðnaðarráðherra, formaður Framsóknarflokksins, hóf þessa umræðu greinilega í þeim tilgangi að róa þá sem eru óánægðir með stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar og þá sem hafa áhyggjur af Kárahnjúkavirkjun, að hún hafi ekki verið nægilega vel undirbúin.

En var það svo? Var undirbúningur þessarar risavöxnu framkvæmdar nógur? Svar mitt við því er nei. Ástæður þess eru margar. En grundvallarástæðan skiptir þar mestu. Hún er sú að stjórnvöld höfðu ekki staðið sig í stykkinu hvað varðar löggjöf á sviði náttúruverndar og auðlindanýtingar. Iðnaðar- og umhverfisráðherrar Framsóknarflokksins höfðu ekki mikinn áhuga á að koma þeim málum í framtíðarfarveg. Þeim fannst ekki ástæða til að hraða því að meðferð náttúruauðlinda, með annaðhvort vernd eða nýtingu auðlinda, væri búinn vísindalegur farvegur.

Þó var kapphlaupið um auðlindirnar hafið. Orkufyrirtækin röðuðu inn umsóknum um rannsóknar- og nýtingarleyfi. Það var ekki fyrr en í gær, eftir margra ára baráttu þeirra sem hafa viljað standa með náttúrunni og skynsamlegum leiðum til að vernda hana og nýta, að það loks grillti í einhvern árangur. Hvernig náðist hann?

Eftir að við í Samfylkingunni höfðum forustu um það náðist fyrst á vorinu 2005, eftir þref og þjark, samkomulag við iðnaðarnefndarmenn í stjórnarmeirihlutanum um að nefnd yrði sett til starfa til að leita sátta um framtíðarstefnumörkun um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu og vatnsaflsrannsóknir. Þetta dugði reyndar ekki á því þingi. Vegna þess að Vinstri grænir drápu málið. (Gripið fram í: Já.) Þeir drápu málið og komu í veg fyrir að þetta væri samþykkt. En það sem gerðist í framhaldinu er einmitt lýsandi fyrir stjórnarmeirihlutann og sérstaklega hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, og vilja hennar til að viðhalda því handvirka geðþóttastjórnkerfi sem verið hefur við lýði í meðferð auðlinda á Íslandi. Sjaldan brá sú mey vana sínum.

Valgerður Sverrisdóttir, hæstv. ráðherra, mætti nefnilega til næsta þings á eftir með frumvarpið sem nefndin hafði komið sér saman um. En það vantaði í frumvarpið nefndarskipunina. Það kostaði átök í Alþingi, eins og þið munið, í fyrravetur að ná því fram að niðurstaðan yrði sú sem iðnaðarnefnd hafði lagt til í upphafi. En hæstv. ráðherra varð að éta ofan í sig það sem hún hélt hér fram fyrir ári síðan að með þeirri lagasetningu sem þarna var fyrirhuguð gæti hún haldið áfram handvirkum útdeilingum á verkefnum hvað varðaði stóriðju í landinu. Síðan var fallist á að umrædd nefnd yrði skipuð.

Nefndin vann gott starf. Niðurstöður hennar eru gríðarlega mikilvægar. Þær taka á málum sem hefði átt að leysa fyrir löngu. Taka á því hvernig skynsamlegt er að vinna að löngu tímabærri stefnumótun um nýtingu náttúrugæða. Taka á því hvort það verður gert með friðun og vernd eða annarri nýtingu. Taka á því hvaða nýting skuli leyfð á meðan unnið verði að þessari stefnumótun. Setur um þetta skýran ramma. Þar er miðað við að einungis þeir kostir sem eru í fyrsta áfanga rammaáætlunar A og B og ekki eru gerðar athugasemdar við vegna áhrifa á náttúrufar komi til álita þar til stefnumótuninni er lokið. Hún tekur á hinu mikla deilumáli sem hefur staðið um hvernig skuli meðhöndla auðlindir í þjóðareign. Þar er líka skýr niðurstaða. Auðlindir í þjóðareign skal auglýsa séu þær til ráðstöfunar og um réttinn til nýtingar fái þeir að keppa sem eftir honum sækjast á jafnræðisgrundvelli. Þetta er auðvitað niðurstaða sem gefur fordæmi fyrir meðferð allra auðlinda í þjóðareign.

Niðurstöðurnar sem nefndin komst að eru allar sjálfsagðar og eðlilegar þegar litið er til þess umboðs sem hún hafði. En það þarf að leysa fleiri verkefni en nefndin hafði á sinni könnu. Það þarf auðvitað að láta framtíðarstefnumótunina, sem nefndin lagði til að gerð yrði um viðfangsefni sín, ná til allra auðlinda. Setja þarf náttúruverndina líka í forgang. Alþingi þarf að taka til sín ákvarðanir um hvort og þá hvar og hvenær ráðist verður í stóriðju sem hyggst nýta íslenska ákvæðið til útblásturs gróðurhúsalofttegunda.

Tillaga okkar samfylkingarmanna liggur nú þegar fyrir í þinginu um þetta mál. Þegar það sem ég nefndi hér á undan hefur verið gert verður fyrst búið að ná viðunandi tökum á þeim málefnum sem við ræðum um.

Stefna hæstv. iðnaðarráðherra hins vegar, sú sem hann kynnti þegar hann tók við embætti á liðnu vori undir kjörorðinu: Ríkisstjórnin rekur ekki stóriðjustefnu, gengur ekki. Það var reyndar athyglisvert að hlusta á hv. þm. Birki Jón Jónsson halda því fram að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn ætluðu að byggja álver á Húsavík. Það virðist ekki passa við það sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt um þessi atriði.

Sú stefna að vísa því til Hafnarfjarðar og Húsavíkur, eða hvert sem er, hvort, hvar og hvenær ráðist verður í stóriðju á Íslandi — útblástursheimildir eru í boði stjórnvalda, hvort sem þær eru til eða ekki, þannig er nú kerfið núna — gengur ekki. Við skulum bara gleyma henni strax. Við skulum ekki ræða um hana. Það þarf ekki. Svona stefna gengur ekki.

Þrátt fyrir þessa furðulegu fyrstu göngu hæstv. iðnaðarráðherra bind ég miklar vonir við að hann sjái villu þessa vegar. Ég geri það vegna þess að hann sýnir nú fulla samstöðu með nefndinni sem var að skila af sér. Hæstv. ráðherra mætti á lokafund nefndarinnar með yfirlýsingu sem staðfestir þetta. Ég fagna því. Hæstv. ráðherra er skynsamur maður. Hann hlýtur að sjá að stjórnvöld verða að taka fulla ábyrgð á vernd og nýtingu auðlinda, ekki seinna, heldur núna.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur talað um virkjunina við Kárahnjúka og Hálslón og telur að vel hafi verið staðið að undirbúningi þessa mesta stórvirkis Íslandssögunnar. Það er skoðun mín að vísindamenn og verkfræðingar sem þar hafa um vélað hafi unnið frábært starf á þeim allt of stutta tíma sem þeim gafst til að vinna sitt mikla verk. En stjórnvöld í landinu geta ekki fengið jafnháa einkunn fyrir sinn hlut.

Hæstv. forseti. Það var engin stefnumörkun um vernd og nýtingu auðlinda til staðar þegar ákvörðun um virkjun við Kárahnjúka var tekin. Þetta var og er Alþingi til hneisu. Það hlýtur að vera fleirum en mér sem samþykktu þessa virkjun umhugsunarefni. Ef tillaga auðlindanefndar, sem skilaði af sér í gær, hefði verið samþykkt, tillaga sem við báðir erum ánægðir með, ég og hæstv. ráðherra, ef sú tillaga hefði verið samþykkt áður en það mál var afgreitt á Alþingi þá hefði verið útilokað að samþykkja hana. Kárahnjúkavirkjun komst nefnilega hvorki í A-flokk rammaáætlunar né B-flokk. Ekki heldur í C-flokk. Ekki einu sinni í D-flokk. Hún fékk sæti neðst í rammaáætluninni og með miklar athugasemdir um áhrif á náttúrufar.

Það voru hins vegar nógir kostir til staðar í A- og B-flokki rammaáætlunar. Það sést best á því að það er nóg eftir fyrir tvö, þrjú álver enn þá af þeim verkefnum sem þar eru. Það þarf að ræða af hreinskilni um fortíðina og hvað betur hefði mátt fara í henni. Aðdragandi virkjunar við Kárahnjúka kennir okkur að gera betur í framtíðinni. Náttúruvernd og auðlindanýting og meðferð auðlinda í þjóðareign eru einhver stærstu mál okkar tíma.

Ég skora á alþingismenn að lyfta sér upp fyrir flokkadrætti, eins og auðlindanefndinni tókst að gera, og ganga til verks með sama hugarfari og þar ríkti. Verkefnið er að móta framtíðarstefnu fyrir nýtingu allra náttúrugæða til lands og sjávar á Íslandi, hvort sem það verður gert með friðun og vernd eða annarri nýtingu. Og innsigla þá stefnumörkun með því að festa ákvæði um þjóðarauðlindirnar í stjórnarskrána. Þetta er verkefni sem við eigum að vinna saman. Ég tel að það yrði munað eftir því Alþingi sem nú situr, (Forseti hringir.) ef þingmenn eru samstiga.