133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

Kárahnjúkavirkjun og Hálslón, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra.

[12:19]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég tel það auðvitað þakkarvert og athyglisvert að hæstv. iðnaðarráðherra flytur hér munnlega skýrslu um stöðu mála við Kárahnjúkavirkjun og hæstv. iðnaðarráðherra hefur athyglisverðan stíl í framsögu sinni í stjórnmálaumræðunni. Hann hleður saman miklu magni jákvæðra lýsingarorða um hversu afbragðs vel hafi verið staðið að þessu öllu saman, hversu rækilega þetta hafi verið undirbúið, um alúðina og virðinguna sem náttúrunni hafi verið sýnd og þar fram eftir götunum.

Ég fæ ekki betur séð, frú forseti, en að hæstv. iðnaðarráðherra Jón Sigurðsson sé að verða mesta „candy floss verksmiðja“ íslenskrar stjórnmálaumræðu í langan tíma með þessari miklu smíði sinni á jákvæðum og fallegum lýsingarorðum. En eru nú innistæður fyrir þessu að öllu leyti?

Ég tel að besti kafli hæstv. iðnaðarráðherra hafi verið þegar hann útmálaði hörmungarástandið á Austurlandi í lok langrar stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Sem sagt, hæstv. ráðherra var að lýsa ástandinu á Austurlandi upp úr aldamótunum þegar Framsóknarflokkurinn var búinn að vera hátt í tvö kjörtímabil í stjórn og Sjálfstæðisflokkurinn hátt í þrjú kjörtímabil í stjórn.

Kemur svo hér sagnfræðingurinn Halldór Blöndal og fer með þulurnar um hvernig allt hafi verið í kaldakoli 1991, horfir fram hjá þeirri staðreynd að aldrei hefur nú landsbyggðin staðið frammi fyrir öðrum eins ósköpum og haustið 1988 þegar Sjálfstæðisflokkurinn hrökklaðist út úr ríkisstjórn, atvinnulífið var að stöðvast, útflutningsatvinnugreinarnar voru að stöðvast og það þurfti mikið átak til að koma hjólunum í gang á nýjan leik. Viðskilnaðurinn var nú ekki verri en það 1991 að þá hafði í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins náðst að gera þjóðarsáttina og fylgja henni eftir með samstilltu átaki fjölmargra aðila í þjóðfélaginu, sem skilaði verðbólgu á Íslandi í fyrsta skipti í eins stafs tölu um langt árabil. Þetta fékk ríkisstjórnin í arf 1991.

Það er alveg hárrétt að metnaðarleysi og aumingjaskapur stjórnvalda — og þá má svo sem enginn vera undanskilinn — í byggðamálum á mikinn þátt í því vonleysisástandi sem gert er út á þegar menn eru látnir stökkva á hálmstrá af því tagi sem stóra lausnin að ofan, eitt stykki álver hér, er. En það er undarlegt að menn skuli reyna að bera það á borð að það geti verið einhver almenn lausn í byggðavanda fyrir landsbyggðina eins og hún leggur sig að velja eitt afmarkað svæði út úr og steypa þar öllu á hvolf með risaframkvæmdum á tilteknu árabili. Auðvitað hefur alltaf blasað við að áhrifin af þessu yrðu gríðarleg á Miðausturlandi, a.m.k. á meðan framkvæmdirnar stæðu yfir. En aðeins sagan getur dæmt um hvernig þetta reynist Austfirðingum til lengri tíma litið.

Það sem við höfum lagt til — og við höfum lagt margt til í þeim efnum, hv. þm. Halldór Blöndal, þú mátt vera því öllu ósammála ef þér sýnist svo, en að segja að við höfum ekkert lagt til, það er ekki stórmannlegt. Við höfum flutt tillögur um sérstakt atvinnuátak á þessu svæði, stofnun sérstaks atvinnuþróunarsjóðs fyrir Austurland, við höfum flutt tillögur um úrbætur í samgöngumálum, fjarskiptamálum, úrbætur í sambandi við menntamál og aðra opinbera þjónustu. Við höfum andæft niðurskurði ykkar á opinberri þjónustu, niðurskurði á vegafé í þágu stóriðjuframkvæmdanna. Hvaða áhrif hafa verið sýnilegust af þessum framkvæmdum á Vestfjörðum og Norðausturlandi? Niðurskurður á vegafé, það er nú veruleikinn. Að tala því um þetta sem einhverja almenna aðgerð í byggðamálum eru öfugmæli, þetta er akkúrat öfugt. Þetta hefur haft mjög erfið áhrif og þolendur þessa ástands hafa í raun og veru verið aðrir atvinnuvegir landsins og önnur svæði en þau ein sem njóta þenslunnar þar sem hún er og soga hlutina til sín.

Það sem skiptir mestu máli að menn hafi á hreinu í sambandi við Kárahnjúkavirkjun er að þetta er ekki faglegt verkefni. Þetta á ekkert skylt við faglega ákvarðanatöku. Þetta er ekki verkefni á viðskiptalegum grunni. Það viðurkenna allir sanngjarnir menn að í þetta hefði aldrei verið ráðist ef þetta hefði átt að gerast á viðskiptalegum grunni. Þetta er mesta ríkisinngrip í atvinnumál Íslands um áratuga- eða aldaskeið, ef ekki nokkru sinni. Ég veit ekki hvort biskuparnir voru svipað áhrifamiklir á miðöldum þegar mest lét hjá þeim en í seinni alda sögu Íslands hefur aldrei verið annað eins inngrip í atvinnumálin og þetta. Þetta var pólitísk ákvörðun, þetta er pólitískt verkefni, það var Halldór Ásgrímsson sem kom með þessa lausn á öllum vanda Austurlands síðsumars 1997 eða 1998.

Þegar Norsk Hydro hrökklaðist burtu, hvað gerðist þá? Stjórnvöld fóru og sóttu Alcoa. Finnur Ingólfsson fyrrverandi iðnaðarráðherra var notaður í þann leiðangur. Þegar úrskurður Skipulagsstofnunar hafnaði þessari framkvæmd, hin faglega niðurstaða lá fyrir, hvað gerðist þá? Stjórnvöld sneru honum við með pólitískri valdbeitingu og þau lágu á bráðabirgðaniðurstöðum rammaáætlunar um svipað leyti og Alþingi var hér að fjalla um lög um virkjunarframkvæmdirnar 2002, vegna þess að líka þar kolféll framkvæmdin, var ein af þremur verstu virkjunum sem nefndin skoðaði við hliðina á Jökulsá á Fjöllum og Þjórsárverum. Þetta er veruleikinn. Undirbúningi þessarar stærstu framkvæmdar Íslandssögunnar var stórlega ábótavant. Það hefur komið á daginn.

Umhverfismatsgögnunum var safnað á einu sumri. Það þarf ekki mikla þekkingu í vísindum til þess að vita hversu stórgallað slíkt úrtak er, jafnvel þó að tíminn nægði til að draga upplýsingarnar saman. Athugasemdum vísindamanna var stungið undir stól, það liggur fyrir. Það var ekkert gert með þær fyrr en menn stóðu frammi fyrir því í framkvæmdinni sjálfri að þeir höfðu haft mikið til síns máls — þegar í ljós kom að sprungusvæðið var miklu sprungnara, það var tólf metrum dýpra á fast en til stóð. Þá fóru menn að klóra sér í hausnum, þá fóru menn að endurhanna framkvæmdina, endurhanna távegginn, fara í miklar og kostnaðarsamar ráðstafanir til að reyna að bjarga sér inni í sjálfri framkvæmdinni.

Jarðvísindamenn eins og Guðmundur heitinn Sigvaldason, Grímur Björnsson og auðvitað þeir Kristján Sæmundsson og Haukur Jóhannsson með sinni skýrslugerð, Haraldur Sigurðsson, þekktasti eldfjallafræðingur Íslands eftir að Sigurð heitinn Þórarinsson leið, og nú síðast Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðfræði. Skiptir þetta engu máli? Eru þetta ekki líka virtir vísindamenn? Það er ágætt að segja að starfslið Landsvirkjunar hafi verið vel valið. Gott og vel, ekki efast ég um það. Og þar eru menn að reyna að vinna samkvæmt bestu getu. En það þýðir ekki að láta eins og önnur sjónarmið hafi ekki komið fram.

Framkvæmdin hefur síðan reynst mjög erfið og talandi um kostnaðarsamar framkvæmdir þá segir hæstv. iðnaðarráðherra hér að hún sé enn á áætlun. Hvað þýðir það á mannamáli? Það þýðir að allt sem er tekið frá fyrir ófyrirséðan kostnað er uppurið, 10–20% af framkvæmdakostnaði einstakra liða var tekinn frá vegna mögulegra ófyrirséðra þátta og það er búið. Úr þessu má því ekkert út af bera, þá veltur þetta yfir og framkvæmdin fer að verða dýrari en kostnaðaráætlanirnar í heild sinni gerðu ráð fyrir þrátt fyrir hið ódýra tilboð Impregilo, enda er búið að bæta á annan tug milljarða kr. við umsamdar upphæðir.

Umhverfismatsskýrslan reyndist röng, það liggur algerlega fyrir. Hún reyndist röng. Í henni var fullyrt að framkvæmdin væri auðveldari en á daginn hefur komið þannig að það meira að segja fegraði myndina en umhverfismatsskýrslan var samt felld. Fegruð mynd af þessari framkvæmd fékk falleinkunn hjá Skipulagsstofnun. Hvað hefði þá raunsönn mynd gert?

Í skýrslunni stendur:

„Að mati tæknimanna hentar bergið á stíflustæðum vel sem grunnur fyrir þær. Það sama gildir um stíflur í 2. áfanga Kárahnjúkavirkjunar.“

Hvað hefur komið á daginn? Þessi orð standast ekki. Þau eru öfugmæli, hið gagnstæða hefur komið á daginn og hvergi í heiminum hefur verið reynt að reisa jafnstóra jarðvegsstíflu á virku sprungusvæði í nágrenni við stór eldstöðvakerfi. Það stendur nokkrum línum síðar í skýrslunni að bergið sé yfirleitt vel fallið til gangagerðar.

Þarna voru á grundvelli flausturslegra, ónógra rannsókna settar fullyrðingar á blað sem ekki hafa staðist. Þetta er veruleikinn og það á ekkert að reyna að koma sér undan að ræða hann þó að menn gjarnan vilji. Þessi framkvæmd er þannig að af henni verður fyrst og fremst að læra eitt: Hvernig á ekki að gera hlutina. Það á ekki að kasta svona til höndum við stórar og dýrar og afdrifaríkar ákvarðanir, hvorki hvað varðar hinn faglega, tæknilega undirbúning en auðvitað þaðan af síður hinn pólitíska. Aftur og aftur reyndum við að koma þessu máli til þjóðarinnar þannig að hún fengi þó að segja sitt síðasta orð um hvort fara ætti svona með landið eða ekki og lýðræðisást flestra manna hér var nú ekki meiri en svo, því miður, en að þrjár eða fjórar tilraunir okkar til að (Forseti hringir.) koma þessu máli til þjóðarinnar fengu hér hverfandi stuðning.