133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

Kárahnjúkavirkjun og Hálslón, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra.

[12:30]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að flytja þessa skýrslu og að hafa fengist til þess. Það er af sem áður var þegar Framsóknarflokkurinn geystist um og kynnti Kárahnjúkavirkjun sigri hrósandi sem eitthvert geysilegt afrek. Nú er öldin önnur og menn reyna helst að komast hjá því að ræða afleiðingar þessarar virkjunar og líka ávinning þess að hafa reist þessa virkjun.

Ég vil aðeins byrja á að fjalla um hver var forsaga þess að farið var af stað með þessa virkjun. En ástandið var þannig, eins og ágætur hv. þingmaður benti á, Birkir Jón Jónsson, að það var hnignun í heilum fjórðungi og það var ekki einungis hnignun í heilum fjórðungi, það var hnignun alls staðar á landsbyggðinni og það er m.a. afleiðing stefnu Framsóknarflokksins en hann hafði þá verið í ríkisstjórn í tæpan áratug. Þetta var bein afleiðing af fiskveiðistefnu stjórnvalda sem stjórnvöld virðast enn þá keyra áfram af fullum krafti og það má sjá alvarlegar afleiðingar af þeirri stefnu enn, t.d. í Grímsey þessa dagana. Á Grundarfirði er nú verið að selja í burtu aflaheimildir þannig að enn þá er eyðileggingarmáttur Framsóknarflokksins að verki. Þetta eru staðreyndir sem fara verður yfir og þetta er ekki nein tilviljun heldur stefna helsta hugmyndafræðings flokksins, Jóns Sigurðssonar, sem nú er orðinn hæstv. byggðamálaráðherra. Hann birti grein um þetta í Borgfirðingabók þar sem hann fjallar ítarlega um framtíð Íslands. Ég vil segja það við Skagfirðinga sem fylgjast með þessari umræðu að formaður Framsóknarflokksins hefur ekki trú á Skagfirðingum. Hann hefur ekki trú á að hægt sé að reisa byggð í Skagafirði. Það kemur fram í grein hæstv. byggðamálaráðherra þar sem hann segir fyrir tveimur árum að það þurfi a.m.k. 10–12 þúsund manns þannig að lífvænlegt sé að búa á stöðunum. Þetta er það ástand sem blasir við. Það er ekki einungis að Framsóknarflokkurinn hafi ráðist á undirstöðuatvinnugrein byggðanna, þ.e. sjávarútveginn, og heldur því áfram enn í dag heldur hefur hann líka flutt opinber störf í miklum mæli frá byggðunum og flutt framkvæmdir þaðan í burtu. Þegar hæstv. fjármálaráðherra var spurður út í þessa stefnu yppti hann bara öxlum en nú virðist hann eitthvað vera að taka við sér ef marka má það að hann virðist vera að flytja til fjármuni rétt fyrir prófkjörsslag Sjálfstæðisflokksins, m.a. í reiðhús og eitt og annað. Þetta er afleiðing stefnu ríkisstjórnarinnar. Það sem átti að gera var að það átti að komast hjá þessari umræðu með því að segjast vera að gera eitthvað. Þá var ráðist í Kárahnjúkavirkjun.

Kárahnjúkavirkjun átti að vera bjargvættur Austurlands. En við sem höfum fylgst vel með málum á Austurlandi sjáum hvað hefur verið að gerast þar á þeim svæðum sem ekki hafa notið ávinnings af virkjuninni svo sem Breiðdalsvík. Þar hefur Framsóknarflokkurinn jafnvel komið með opinbert fé og greitt fyrir lokun atvinnufyrirtækja. Framsóknarflokkurinn hefur stutt þá stefnu m.a. á Stöðvarfirði að loka frystihúsinu þar. Þetta er alveg með ólíkindum. Maður furðar sig á því að menn skuli halda áfram og stilla fólki víða á landsbyggðinni svona upp við vegg: Ef þið viljið ekki álver eða virkjun þá fáið þið ekki neitt. Þannig er dæmið sett upp. En við búum við það að búið er að reisa virkjunina við Kárahnjúka og það þarf að ná sátt um þessa virkjun.

Hver er leiðin til þess? Það er ekki leið Framsóknarflokksins með orðagjálfri og skrúðmælgi sem hefur verið líkt við „candy floss“ sem streymir úr barka hæstv. iðnaðarráðherra heldur þarf að veita alvöruupplýsingar. Það þarf að segja fólki hver ávinningurinn er af þessu. Veita þarf almennar upplýsingar um hvert rafmagnsverðið er. Hvað erum við að fá fyrir þessa virkjun? Það er leyndarmál, það fær enginn að vita. En það sem við höfum séð sem höfum fylgst náið með rafmagnsverðinu, m.a. hjá fólki sem er að sýna okkur rafmagnsreikninga í Norðausturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi, er að rafmagnsreikningurinn á venjulegu bændabýli hefur jafnvel tvöfaldast en þegar taka á saman skýrslu um þetta virðist allt vera í felum.

Nú höfum við í stjórnarandstöðunni reynt að létta leynd af því hvað rafmagnsverðið hefur í raun hækkað og það er ekki hægt að bera fyrir sig, frú forseti, að það sé eitthvert viðskiptaleyndarmál. Rafmagn til stóriðjunnar er selt á föstu verði og að tala um einhverja viðskiptaleynd er af og frá og á ekki við. Fyrsta leiðin til að ná sátt um málið er því að aflétta allri leynd.

Í öðru lagi þarf að aflétta leyndinni af því hvað umrætt mannvirki hefur farið fram úr kostnaðaráætlun. Þegar spurt er er alltaf sagt: Ja, þetta er innan áætlana. Innan hvaða áætlana? Er verið að tala um tilboð Impregilo eða er verið að tala um kostnaðaráætlun Landsvirkjunar? Það þarf að fá þetta á hreint ef menn vilja sátt um málið en ef menn vilja liggja undir ámæli, eins og mér sýnist hæstv. iðnaðarráðherra vilja gera, um að þessi framkvæmd standi mögulega ekki undir sér, þá er það ekki góð leið hvorki fyrir Framsóknarflokkinn né þá sem vilja ná raunverulegri sátt um þetta verk.

Einnig hefur verið fáheyrt að fylgjast með svörum og málflutningi fráfarandi iðnaðarráðherra í þessu máli, Valgerðar Sverrisdóttur. Þegar hún hefur verið spurð, m.a. í skriflegri fyrirspurn frá mér í þinginu, um gang mannvirkjanna þar fyrir austan, þá fást engin svör, bara eitthvert píp á blaði sem er varla pappírsins virði. Mér finnst að sá hæstv. iðnaðarráðherra sem nú situr ætti að fara yfir verk fráfarandi iðnaðarráðherra og bæta um betur, veita fólkinu í landinu raunverulegar upplýsingar. Eins finnst mér grátlegt að horfa upp á fólk eins og hv. þm. Halldór Blöndal koma hér og tala um og láta að því liggja að maðurinn sem beitti sér fyrir því að farið yrði í nánari rannsóknir sem reyndar kom í ljós að veitti ekkert af, Grímur Björnsson, sem lagði sig fram um það og hefur örugglega goldið fyrir að einhverju leyti hvað varðar starf sitt, hafi ekki gert skyldu sína og sent þessa pappíra í vitlausar áttir. En vel að merkja, umrætt skjal var merkt sem trúnaðarmál og ekki nóg með það, það virtist vera svo mikill trúnaður um málið að fráfarandi hæstv. iðnaðarráðherra virtist ekki hafa séð þetta mikla trúnaðarskjal en samt sem áður tjáði hún sig um efni þess, þegar það barst í tal, um að ekkert nýtt hefði komið fram í þessu trúnaðarskjali sem hún hafði aldrei séð. Svona hefur umræða Framsóknarflokksins verið. Framsóknarflokkurinn er náttúrlega orðinn gríðarlega þreytt afl sem þarf að fara frá. Sérstaklega er það mikilvægt fyrir byggðir landsins.

Ég ætla að ljúka þessari ræðu með því að segja að það er ekki heldur hægt að tala niður til fólks eins og stjórnarmeirihlutinn gerði með því að segja að viðkomandi maður, Grímur Björnsson, hafi ekki veitt þessar upplýsingar réttum aðilum, sérstaklega í ljósi þess að einn valdamesti maður landsins fordæmdi mann, litla Landssímamanninn, gott ef það var bara ekki úr þessum ræðustól, fyrir það að veita upplýsingar, réttar upplýsingar sem urðu til þess að einn af vildarvinum Sjálfstæðisflokksins þurfti að taka pokann sinn í Landssímamálinu. Við verðum að gæta sanngirni.

Að lokum vil ég minna framsóknarmenn á að veita réttar upplýsingar og forðast ekki umræðuna. Það er lykillinn að því að sátt náist um þessi mál. Það er ekki heldur hægt að halda áfram hernaði gegn landsbyggðinni, sjávarbyggðunum umhverfis landið, og lofa síðan álverum og einhverri stóriðju sem bót fyrir þau hryðjuverk sem flokkurinn hefur framið í byggðum landsins.