133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

Kárahnjúkavirkjun og Hálslón, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra.

[12:40]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu sem hefur að langmestu leyti verið mjög gagnleg fyrir utan nokkur stóryrði sem fallið hafa og að fulltrúi Frjálslyndra tyggur upp misskilning og rangtúlkanir á grein sem ég skrifaði fyrir nokkru sem ég fæst ekki mikið um.

Við þurfum að skilja og skynja nýtingu og vernd auðlinda og orkulinda í sama hugtaki. Þetta kemur vel fram í nýlegu nefndaráliti auðlindanefndar sem einmitt var borið fram í umræðunni áðan og ég vil ítreka það sem ég hef áður sagt um að þakka þeirri nefnd ágæt störf. Það kemur reyndar fram í nefndarálitinu að gert er ráð fyrir þeim möguleika á þeim árum sem fram undan eru að Alþingi og ríkisstjórn þurfi að taka sérstakar ákvarðanir. Það er í öðrum hluta, 3. tölulið, sem ástæða er að nefna vegna þess að það var borið í tal í umræðunni.

Upplýsingar staðfesta að framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun eru vönduð framkvæmd samkvæmt þeim skilmálum og skilyrðum sem sett hafa verið. Undirbúningur hefur verið rækilegur og unnar hafa verið vandaðar rannsóknir samhliða framkvæmdum eins og ævinlega var vitað að gera yrði og gera þyrfti og viðbrögð hafa verið mjög vönduð og til fyrirmyndar. Framkvæmdir hafa gengið í eðlilegu samhengi við þær áætlanir sem gerðar höfðu verið um kostnað, tímasetningar og aðra þætti. Við þessar framkvæmdir hefur verið fylgt og er fylgt viðmiðum um umhverfisáhrif samkvæmt þeim 19 skilmálum sem settir voru. Sama má segja um áhrif á atvinnumál, áhrif á byggðaþróun og mat um hagkvæmni og arðsemi. Og vegna þess að það var nefnt í umræðunni líka, þá er rétt að það komi fram að það er óskynsamlegt að vera með eitt almennt viðmið um stærð fyrirtækja. Stærð fyrirtækja og umsvif verður auðvitað að ákvarða í hverju atviki fyrir sig. Allt bendir til þess að þessar framkvæmdir muni skapa miklar tekjur, þar á meðal gjaldeyristekjur, stöðugt og fjölbreytt og kröftugt atvinnulíf og verði þjóðinni til heilla og hagsbóta um langa framtíð.