133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

vímuefnavandinn.

[13:38]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, fyrir að taka þetta mikilvæga mál hér til umræðu. Þau mál sem við ræðum hér í dag eiga sér margar hliðar og snertifletir við stjórnvöld eru margir. Félagsmálaráðuneytið fer með málefni barna og unglinga, fjölskyldumál og fleiri málaflokka sem málið varða. Það má þó segja að það sem snýr að félagsmálaráðuneytinu séu fyrst og fremst forvarnir og meðferð fyrir þau börn og ungmenni innan 18 ára aldurs sem hafa leiðst út í óreglu með neyslu og því sem því miður oft tilheyrir.

Á þeirri forsendu að félagsmálaráðuneytið fer með þessa málaflokka ákvað ég fljótlega eftir að ég tók við embætti félagsmálaráðherra að taka frumkvæði er varðar stefnumótun í forvarnamálum. Ég hef átt fjölmarga fundi með ýmsum aðilum sem hafa á einhvern hátt komið að þessum málum og ekki síst vegna þeirra upplýsinga sem þar komu fram var þessi ákvörðun tekin.

Auk þess kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:

„Að markvisst verði unnið í baráttunni gegn fíkniefnavandanum. Mótuð verði heildstæð forvarnastefna í samvinnu við lögreglu, skólayfirvöld, íþróttafélög og foreldra. Hafnað er hvers kyns eftirgjöf gagnvart fíkniefnum, innflutningi þeirra, dreifingu og notkun. Meðferðarúrræðum verði fjölgað og rík áhersla lögð á forvarnir.“

Þann 18. júlí sl. lagði ég fram minnisblað um málið á fundi ríkisstjórnarinnar og samþykkti hún að fela félagsmálaráðuneytinu að leiða samstarf þeirra sem starfa að forvörnum og móta heildstæða forvarnastefnu er byggi á samræmdum leiðum í þágu forvarna og markvissri nýtingu þeirra fjármuna sem þegar er veitt í verkefni á þessu sviði. Ég hef þegar skipað fimm manna stýrihóp til þess að leiða verkefnið undir forustu Ingibjargar Pálmadóttur, fyrrv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, en sú heiðurskona beitti sér mjög fyrir forvörnum í ráðherratíð sinni. Í hópnum eru auk hennar og fulltrúa félagsmálaráðuneytisins, fulltrúar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, dóms- og kirkjumálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis. Hópurinn hefur þegar fundað með fjölmörgum aðilum sem þekkja fíkniefnavandann og forvarnastarf af eigin raun, einkaaðilum, félagasamtökum og opinberum aðilum. Stýrihópurinn mun skila mér tillögu að heildstæðri forvarnastefnu og er unnið að því markmiði að sú tillaga verði kynnt ríkisstjórn eigi síðar en á fullveldisdaginn 1. desember nk.

Þar fyrir utan hef ég beitt mér í ræðu og riti í umræðu um þessi mál og margir komu í lið með okkur í félagsmálaráðuneytinu í herferð sem við fórum í fyrir síðustu verslunarmannahelgi. Ég fann greinilega mikinn samhug og eindreginn vilja til þess að samhæfa kraftana betur en gert hefur verið. Kallaðir voru saman auk fulltrúa ráðuneyta fulltrúar opinberra stofnana, félagasamtaka og fyrirtækja.

Eins og fyrr segir hefur stýrihópurinn, sem starfar undir forustu Ingibjargar Pálmadóttur, þegar komið saman og á fyrsta fundi hans voru kallaðir til ýmsir aðilar sem láta sig forvarnamál varða og var farið yfir hugsanlegar aðgerðir. Stýrihópurinn vinnur m.a. að því að móta 1., 2. og 3. stigs forvarnir en þær eru í fyrsta lagi aðgerðir sem miða að samfélaginu í heild sinni, almennri fræðslu til barna og foreldra, í öðru lagi að leita uppi áhættuhópa og í þriðja lagi að veita þeim sem hafa ánetjast vímuefnum viðeigandi hjálp og stuðning.

Ráðuneyti, opinberar stofnanir og sveitarfélög hafa með beinum og óbeinum hætti komið að margvíslegum forvarnaverkefnum, m.a. í samstarfi við frjáls félagasamtök. Slíkt starf hefur einnig verið unnið á vettvangi ráðuneytis heilbrigðismála, menntamála, dómsmála og félagsmála og stofnana þeirra auk forsætisráðuneytisins. Þá hafa fjölmörg félagasamtök unnið ómetanlegt starf á þessu sviði í langan tíma.

Árlega rennur umtalsvert fé til forvarna, m.a. með beinum greiðslum úr ríkissjóði og sem hlutfall af áfengisgjaldi. Mikilvægt er að upplýsingar sem veita yfirsýn yfir starf allra sem koma að forvörnum og fjárveitingar til verkefna liggi fyrir þannig að löggjafinn og samfélagið í heild hafi á hverjum tíma af þeim glögga mynd og að fjárveitingar grundvallist á heildstæðri stefnumótun.

Hæstv. forseti. Sumt af því sem frummælandi beindi til mín heyrir undir önnur ráðuneyti og því get ég því miður ekki svarað nákvæmlega öllu sem fram kom í hans máli. Hins vegar vil ég taka fram að í félagsmálaráðuneytinu hefur um nokkurt skeið verið unnið með hugmyndir um samþætta fjölskyldustefnu í þeim málaflokkum sem heyra undir félagsmálaráðuneytið. Ég geri ráð fyrir að meginstoðir þeirrar vinnu verði kynntar eftir áramótin. En eins og ég hef þegar sagt og vil endurtaka að lokum ákvað ég að eiga frumkvæði að því að mótuð verði heildstæð forvarnastefna á þeirri forsendu að félagsmálaráðuneytið fer með málefni barna og unglinga ásamt fjölskyldumálum. Að því verkefni verða leiddir sem allra flestir sem málið varðar og vænti ég mikils af því samstarfi.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta hér. Það eru verkin sem skipta máli og við skulum sjá hvað setur. Ég fullyrði að það er ýmislegt að gerast í þessum málum og margt í gangi sem snýr að forvörnum. Í þeim efnum megum við aldrei slaka á, heldur frekar herða róðurinn með markvissum hætti. Ég vil undirstrika það mjög ákveðið að ég lít ekki á að sú vinna sem ég hef ýtt úr vör í félagsmálaráðuneytinu sé átak í forvörnum. Forvarnir eru langtímaverkefni sem má líkja við langhlaup og í því verður samfélagið allt að vera virkur þátttakandi og halda vöku sinni. Í þessum málum er mikið í húfi.