133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

vímuefnavandinn.

[13:45]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mikilvæga samfélagslega mál til umfjöllunar. Því miður þekkjum við öll dæmi um hvaða áhrif þessi vandi getur haft og við verðum að taka á málunum af fullri alvöru. Þetta er vandi sem fólk á öllum aldri og úr öllum þjóðfélagshópum glímir við.

Ég fagna því að verið sé að vinna að þessum málum nú á vegum félagsmálaráðherra og að allir sem áhrif geta haft og þekkingu hafa séu leiddir að einu og sama borði. Það er ljóst að margt getur haft áhrif og unnið gegn þeim vágesti sem vímuefnaneysla er og afleiðingar hennar. Þetta er eitt af þeim atriðum sem tekið var fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að vinna ætti að og það er verið að gera á skynsamlegan hátt með því að horfa til framtíðar. Hér megum við ekki tjalda til einnar nætur. Hér nægir ekki að grípa til átaks. Við verðum að leita allra leiða til að vinna á öllum sviðum með öllum þeim verkfærum sem tiltæk eru á hverjum tíma. Það er aldrei of oft bent á þá staðreynd sem rannsóknir sýna að góð tengsl við fjölskyldu og iðkun íþrótta eða annarra tómstunda geta skipt sköpum. Þar getum við öll haft áhrif og margir lagt hönd á plóg. Það er afar mikilvægt að foreldrar hafi sterk tengsl við unglingana sína og veiti þeim bæði aga og stuðning. Slíkt skiptir verulegu máli sem forvörn gegn vímuefnaneyslu. Takist okkur að halda þeim frá neyslu í lengstu lög eru líkur á því að þeir geti orðið góðir samfélagsþegnar í framtíðinni. Hvað er mikilvægara en það? Ekkert, leyfi ég mér að fullyrða, hæstv. forseti.