133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

vímuefnavandinn.

[13:47]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka frummælanda, Guðjóni Arnari Kristjánssyni, fyrir að taka málið hér upp.

Neysla vímuefna hefur aukist ár frá ári, bæði áfengis og sterkari efna. Neysluvenjur á áfengum drykkjum hafa breyst og að mörgu leyti til batnaðar, en það má vera hverjum manni áhyggjuefni hve innflutningur eykst mikið og hve hratt neyslan eykst að meðaltali á mann. Við verðum fyrst og fremst að viðurkenna að vímuefnavandinn eykst ár frá ári og þeirri þróun verður ekki snúið við nema með samhentu átaki allra landsmanna. Þá liggur ábyrgðin einnig hjá hinu háa Alþingi, í þeim ramma sem það setur, m.a. með markaðssetningu á áfengi, refsilöggjöf og síðast en ekki síst þeirri fjölskyldustefnu sem hér er mótuð á hverjum tíma. Því er stórundarlegt, hæstv. forseti, að við slíkar aðstæður liggi frammi tillaga þess efnis að koma léttvíni og bjór inn í matvöruverslanir.

Aðgengi hefur í sjálfu sér mikið forvarnagildi. En neysla ólöglegra vímuefna hefur einnig stóraukist. Inn á markaðinn eru kominn hörðustu og hættulegustu fíkniefni. Smygl á ólöglegum vímuefnum væri ekki í þeim mæli sem allt bendir til að sé hér á landi í dag ef ekki væri markaður eða að glæpasamtök teldu Ísland ekki vera vænlegan framtíðarmarkað. Hvað er til ráða? Það þarf að mynda samræmda vímuefnavarnastefnu og tryggja fjármagn til þeirra stofnana og félagasamtaka sem málið varðar. Það þarf að mynda hér ábyrga fjölskyldustefnu og viðhalda kröftugu forvarnastarfi í skólum, m.a. með lífsleikninámi. Það þarf hert eftirlit tollgæslu, eins og t.d. eftirlit tollgæslunnar á Seyðisfirði. Það þarf að koma þeim skilaboðum til erlendra glæpahringa að Ísland (Forseti hringir.) sé ekki vænlegur framtíðarmarkaður fyrir fíkniefni.