133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

vímuefnavandinn.

[13:49]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við ræðum vanda sem snertir nánast hverja fjölskyldu í landinu. Við í Frjálslynda flokknum höfum oft velt því fyrir okkur hvað sé til ráða. Við höfum komist að því að ekki er til nein patentlausn sem ráða mun bót á vandanum, og við höfnum leiðum þar sem auglýsingaskrumi er beitt, svo sem eins og „Fíkniefnalaust Ísland árið 2000“, heldur er mjög mikilvægt að breyta viðhorfum til þessa vanda.

Ég get tekið undir með Þórarni Tyrfingssyni að það eigi að líta á notkun á þessum efnum eins og sjúkdómseinkenni, það eigi að ráðast á þennan vanda með faraldsfræðilegum aðferðum og ræða um fíkla eins og þeir séu sjúkir og eigi bágt. Það á ekki einungis að leysa hann með því að koma í veg fyrir að sýkin berist til landsins með markvissum aðgerðum af hálfu lögreglu og tollvarða heldur þarf að bólusetja ungmenni landsins með markvissum aðgerðum. Við eigum að vanda okkur þegar við tölum um þennan vanda. Við eigum að varast að tala um hörð efni, harðari heim fíkniefna, handrukkanir, stórfelldan gróða af fíkniefnaviðskiptum og skipulagðar glæpaklíkur. Við eigum að forðast það í lengstu lög. Með því að tala um þessi mál með slíkum hætti getum við verið að senda ungmennum röng skilaboð, skilaboð um að það geti verið spennandi að tengjast þessum afkima mannlífsins. Einhverjum getur jafnvel þótt það vera töff að tengjast hörðum heimi en sjaldnast þykir krökkum töff að tengjast heilsuleysi, peningaleysi, atvinnuleysi eða því að flosna upp úr námi. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að senda rétt skilaboð út í samfélagið og tala um þessa hluti eins og þeir eru í raun og veru.