133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

vímuefnavandinn.

[13:52]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með öðrum þingmönnum og þakka málshefjanda fyrir þessa þörfu umræðu í dag og sömuleiðis félagsmálaráðherra fyrir ræðu hans og það frumkvæði sem hann sýnir í þessu máli.

Ég vil draga sérstaklega fram mikilvægi fjölskyldunnar í þessari umræðu um vímuefnavandann, hvernig við getum styrkt stöðu hennar, hvað við höfum gert vel og hvað við þurfum að gera betur. Við vitum öll að lífskjör og aðstæður hafa tekið stakkaskiptum til hins betra undanfarna áratugi en hefur velmegun og tækniþróun fært okkur óæskilega hluti sem við verðum að beita nýjum vinnubrögðum gegn?

Íslenskar rannsóknir hafa leitt í ljós að samvera með foreldrum getur oft skipt sköpum. Nauðsynlegt er því að ná athygli foreldra. Rannsóknir sýna einnig að þar sem gott tengslanet er á milli foreldra er vímuefnaneysla barna minni. Í slíkum tilvikum hafa allir ávinning, einnig þeir sem ekki eiga foreldra í tengslanetinu. Samstarf skóla og foreldra er mikilvægt svo og samstarf íþróttafélaga og annarra.

Forvarnir og eftirfylgni eru á vegum sveitarfélaganna og hefur m.a. Reykjavíkurborg sett sér forvarnastefnu sem ég tel til mikillar fyrirmyndar og tel ég að önnur sveitarfélög þurfi að gera slíkt hið sama. Það er einnig sveitarfélaganna að sjá um eftirfylgnina þegar börn og ungmenni koma úr meðferð með það að markmiði að auðvelda þeim endurkomu út í samfélagið. Að mínu mati felst besta forvörnin í góðu og gefandi uppeldi. Það eru foreldrarnir sem bera ábyrgð á uppeldi barna sinna. Ég tel mjög mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um þær hættur sem leynast víða og allt það áreiti sem dynur á börnum og unglingum í dag. Þannig geta þeir unnið markvisst forvarnastarf með börnum sínum. Foreldrarnir eru afar mikilvægir í forvörnum og við þurfum þess vegna að styðja þá í uppeldishlutverki sínu. Í raun þarf allt samfélagið að taka höndum saman og vinna markvisst að útrýmingu þessa vágests sem farið hefur svo illa með margar fjölskyldur.