133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

vímuefnavandinn.

[13:56]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að taka undir með þeim sem hafa stigið hér í ræðustólinn og fagna því að þessi umræða um fíkniefnavandann eigi sér stað og þakka hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir að vekja athygli á honum.

Fíkniefnavandinn er auðvitað staðreynd og þessi vandi stækkar sífellt að því er virðist. Það grípur mann náttúrlega ákveðinn óhugur þegar maður les það í fréttum að sölumenn fíkniefna séu farnir að beina spjótum sínum að æ yngri neytendum. Það er ekki langt síðan fréttir bárust af því að 11 eða 12 ára börn væru að kaupa fíkniefni af fíkniefnasölum sem sýnir okkur að þessum mönnum er ekkert heilagt og það er engu eirt í þessum efnum. Hér er á ferðinni miskunnarlaus og skipulögð glæpastarfsemi sem þarf að bregðast gegn.

Ég held að í sjálfu sér sé kannski ekkert eitt úrræði sem virkar í baráttunni gegn fíkniefnavandanum. En menn verða að horfast í augu við það að við þurfum að efla löggæslu, við þurfum að efla heimildir tollgæslunnar og lögreglunnar til að bregðast við auknum innflutningi á fíkniefnum. Það þarf líka að vekja fjölskyldurnar í landinu til umhugsunar um þennan vanda og auka forvarnir, ekki bara fyrir börn heldur líka fyrir aðstandendur þeirra. Ég held að við getum notað menntakerfið með öflugri hætti en nú er gert. Ég man að þegar ég var í skóla, og það er ekki svo langt síðan, hafði það áhrif á mann þegar maður sá með eigin augum hverjar afleiðingar fíkniefnaneyslu voru á andlegt, líkamlegt og félagslegt atgervi þeirra sem leiddust út í slíka neyslu. Ég held að það sé besti skólinn sem krakkar geta fengið í þessum málum.