133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

vímuefnavandinn.

[14:03]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Í fyrri ræðu minni fjallaði ég að mestu um forvarnamál en vegna tímatakmarkana hafði ég nánast ekkert svigrúm til að ræða um meðferðarmál. Á vegum Barnaverndarstofu og reyndar annarra aðila einnig er unnið mjög mikilvægt starf við að veita börnum og unglingum yngri en 18 ára meðferðarúrræði. Eftir að sjálfræðisaldurinn var hækkaður var meðferðarkerfi fyrir börn og unglinga stokkað upp og nú er t.d. hægt að halda unglingum upp að 18 ára aldri í meðferð gegn vilja þeirra sem ekki var áður hægt. Meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu sem taka börn í langtímameðferð eru sjö talsins og eru öll staðsett á landsbyggðinni. Um er að ræða rými fyrir 51 barn á aldrinum 13–17 ára. Auk þess rekur Barnaverndarstofa meðferðarstöðina Stuðla. Þar er greiningar- og meðferðarvistun fyrir átta unglinga og að auki fimm rými í neyðarvistun. Það má því segja að Barnaverndarstofa hafi yfir að ráða 64 rýmum á stofnunum og heimilum.

Það er skoðun félagsmálaráðuneytisins að leita eigi leiða til að þróa áfram meðferðarúrræði á þessu sviði þar sem m.a. verði byggt á því góða starfi og þeirri reynslu sem við höfum frá undanförnum mörgum árum. Allt er það í þágu þeirra samborgara okkar, barna og unglinga sem þurfa á þessari þjónustu að halda með það að markmiði að viðkomandi geti á nýjan leik verið virkir þátttakendur í samfélaginu með jákvæðum formerkjum.

Hæstv. forseti. Ég vil enda ræðu mína á því að þakka mjög málefnalega umræðu um þessi mál. Ég tel mikilvægt að slík umræða sé málefnaleg og það hefur hún sannarlega verið hér í dag. Þetta er að sönnu samfélagslegt mál sem snertir okkur öll og ég leyfi mér að kalla alla til verka og þátttöku í þeim verkefnum sem við höfum rætt hér í dag.