133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

gatnagerðargjald.

219. mál
[14:11]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta frumvarp um gatnagerðargjald er nú svo spennandi að mér finnst að það verðskuldi myndarlega umræðu.

En að öllu gamni slepptu er kannski ástæða til, þó að frumvarpið sé góðra gjalda vert og maður skilji augljóslega hvað fyrir mönnum vakir, að eyða óvissu um það hvers eðlis þessi gjaldstofn er og reyndar að útkljá fleiri óvissuatriði þar sem dómaframkvæmd hefur fyrst og fremst varðað veginn að undanförnu, þá er nú kannski samt ástæða til að fara rækilega yfir það. Mér dettur í hug fyrir það fyrsta að það væri ekki galið að félagsmálanefnd sendi efnahags- og viðskiptanefnd málið til skoðunar vegna þess að í raun og veru er verið að slá því hér föstu, ef ég les rétt, að gatnagerðargjald sé skattur en ekki þjónustugjald og það er dálítil breyting frá þeirri hugsun sem almennt hefur verið lögð til grundvallar heimildar sveitarfélaganna af þessu tagi. (Gripið fram í: Nýr tekjustofn.)

Hérna er þá í raun og veru um að ræða skattlagningarvald sem færist til sveitarfélaganna og er ákaflega rúmt að öllu öðru leyti en því að það er sett hámark á það hlutfall sem leggja má á. Hins vegar er álagningarvaldið í raun algjörlega í höndum sveitarfélaganna að öðru leyti vegna þess að þeim er heimilt að leggja þetta með mismunandi hætti á einstakar tegundir húsnæðis og þeim er heimilt að veita sérstaka afslætti þegar svo ber undir o.s.frv. Hér er því í raun og veru verið að breyta þessu þjónustugjaldi sem áður var kannski talið að væri — mig minnir að það hafi staðið svo í lögum — yfir í skatt og gera það með mjög frjálslegum hætti.

Hér eru tekin af tvímæli um að ekki er heimilt að leggja á gatnagerðargjald í strjálbýli og það er góðra gjalda vert. Um það mun hafa verið tekist á einhvers staðar og þetta er þá bundið við þéttbýli, hvaða skilgreiningu nákvæmlega sem á nú að viðhafa í þeim efnum, og fleiri atriði eru hér sem eru allrar athygli verð.

Mér finnst líka — þó að þetta sé auðvitað bara einn afmarkaður þáttur rekstrar sveitarfélaganna og skipti sjálfsagt ekki sköpum í rekstri þeirra og grunnhugsunin eftir sem áður sú að þetta sé tekjustofn sem mæti útgjöldum sem sveitarfélögin hafa af gatnakerfi sínu og þá einhverri tengdri þjónustu við þær byggingar sem í hlut eiga, þá er þetta auðvitað tekjustofn eins og hver annar og það er spurning hvort ekki hefði jafnvel verið ástæða til að skoða þá í leiðinni fleira sem að sveitarfélögunum snýr. En það sem ég ætlaði aðallega að benda á og leggja í púkkið er hvort ekki sé ástæða til þess að sú nefnd þingsins sem fer með skattamál skoði þetta líka úr því að verið er að slá því föstu að gatnagerðargjöld séu skattur en ekki þjónustugjöld.