133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

lögheimili og skipulags- og byggingarlög.

220. mál
[14:15]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um lögheimili, nr. 21/1990, með síðari breytingum, og skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum. Eins og kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu er það lagt fram að tillögu starfshóps sem í áttu sæti fulltrúar frá félagsmálaráðuneyti, umhverfisráðuneyti, Skipulagsstofnun, Hagstofu Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Starfshópnum var falið að fjalla um hugsanleg réttaráhrif dóms Hæstaréttar Íslands frá 14. apríl 2005 sem fjallar um rétt til lögheimilisskráningar í húsi sem samkvæmt skipulagi taldist frístundahúsnæði. Í niðurstöðu Hæstaréttar er byggt á því að lagaákvæði hafi skort til að hægt væri að synja um skráningu lögheimilis.

66. gr. stjórnarskrárinnar veitir löggjafanum svigrúm til að setja í lög ákvæði sem takmarka rétt til búsetu og verður dómur Hæstaréttar ekki skilinn á þann veg að hann útiloki löggjöf sem hafi það að markmiði að gera sveitarfélögunum mögulegt að framfylgja skipulagsáætlunum innan sinna marka. Vegna fyrirmæla stjórnarskrárinnar um rétt manna til að ráða búsetu sinni geta ákvæði í skipulagi hins vegar ekki ein og sér takmarkað rétt manna til skráningar á lögheimili í húsnæði sem þeir sannanlega búa í og telst íbúðarhæft.

Í þessu felst að í ljósi áðurnefnds hæstaréttardóms eru úrræði sveitarstjórna til að marka stefnu um þróun íbúðarbyggðar takmarkaðri en áður var talið. Dómur Hæstaréttar hefur ekki enn þá leitt til mikilla breytinga á búsetu fólks hér á landi eða haft veruleg áhrif á starfsemi sveitarfélaganna. Ef slíkir flutningar fólks færast í vöxt verður á hinn bóginn að telja að áhrifin gætu orðið víðtæk. Opinber þjónusta getur til að mynda orðið dýrari og af þeim sökum getur þurft að draga úr þjónustu þar sem tekjustofnar sveitarfélaganna eru takmarkaðir.

Það er mikilvægur þáttur í sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga að þau geti innan marka laga forgangsraðað verkefnum og ákveðið útfærslu þeirrar þjónustu sem þau veita, m.a. í þeim tilgangi að nýta tekjustofna sína af hagkvæmni. Algert frjálsræði í vali á búsetu innan sveitarfélags getur þannig ekki aðeins grafið undan forræði sveitarfélaga í skipulagsmálum heldur getur það einnig haft áhrif á rekstrargrundvöll þeirra. Eru slíkar afleiðingar sérstaklega nærtækar í víðfeðmum sveitarfélögum þar sem stórar sumarhúsabyggðir eru og eigendur sumarhúsa jafnvel margfalt fleiri en íbúar viðkomandi sveitarfélags. Auk þess eru aðstæður víða þannig í frístundabyggðum að erfitt er að tryggja þjónustu allt árið um kring vegna þess að aðgengi er erfitt og t.d. er snjómokstur nánast útilokaður nema með óheyrilegum kostnaði.

Hæstv. forseti. Í frumvarpinu er lagt til að bætt verði við 1. gr. lögheimilislaga ákvæði um að dvöl í húsnæði sem byggt er á svæði sem skipulagt er sem frístundabyggð geti ekki talist ígildi fastrar búsetu og skráning lögheimilis í slíku húsnæði verði af þeirri ástæðu óheimil. Til að tryggja skýrleika laga eru jafnframt lagðar til breytingar á skipulags- og byggingarlögum þar sem einkum er fjölgað orðskýringum. Rétt er að benda sérstaklega á að framangreind lagabreyting mun ekki hafa þau áhrif að útilokað verði að fá samþykki fyrir lögheimilisskráningu í skipulagðri frístundabyggð ef viðkomandi einstaklingur á þar fasta búsetu eða raskar lögheimilisskráningu þeirra sem þegar eru skráðir með lögheimili í sumarhúsi.

Verði þetta frumvarp að lögum getur skráning lögheimilis í skipulegri frístundabyggð hins vegar ekki farið fram fyrr en sveitarstjórn hefur samþykkt breytingu á skipulagi fyrir viðkomandi svæði. Jafnframt skal bent á að breytingin útilokar ekki skráningu lögheimilis í sumarhúsum sem standa utan skipulagðrar frístundabyggðar ef viðkomandi einstaklingur á þar fasta búsetu.

Sú leið sem lögð er til í frumvarpinu er fremur hentug og einföld í framkvæmd, hæstv. forseti. Má jafnframt benda á að með þessari breytingu yrðu reglur um skráningu lögheimilis og búsetu í frístundabyggð færðar í sama horf og almennt var talið að væri við lýði áður en fyrrnefndur dómur Hæstaréttar féll í apríl 2005.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu en legg til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og til félagsmálanefndar.