133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[14:36]
Hlusta

Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur fyrir þær spurningar sem hún ber fram. En ég vil byrja á að segja að ég held að það sé nú ekki við stjórnarandstöðuna að sakast í því efni að skortur sé á málefnalegri umræðu um forgangsröðun þegar kemur að útdeilingu fjármuna. Síst af öllu ef talað er um forgangsröðun fjármuna í þágu aldraðra. Því ef einhver hefur verið duglegur að tala um þau mál á þingi þá eru það þingmenn stjórnarandstöðunnar. Ég veit að ef þingmaðurinn lítur hér um bekki og sér þá þingmenn sem hér eru þátttakendur og ætla að taka þátt í umræðunni, þá eru það þeir þingmenn sem hafa verið óþreytandi við nákvæmlega þetta, þ.e. að standa fyrir málefnalegri umræðu um forgangsröðun í þágu aldraðra og öryrkja.

Varðandi atvinnuþátttöku eldri borgara, að hún sé hæst hér á landi af Norðurlöndunum, þá er ástæðan fyrir því mjög einföld. Það er vegna þess að eftirlaunaaldurinn er hærri hér en víðast hvar annars staðar. Fólk fer almennt seinna á eftirlaun á Íslandi en annars staðar. 67 ára gamalt fer fólk hér á eftirlaun. Ef við horfum á Norðurlöndin í kringum okkur nær það allt niður í 62 ára aldur þegar fólk fer á eftirlaun. Það er því ólíku saman að jafna. Þess vegna er þetta svona.

Ástæðan fyrir því að fólk sem er komið á ellilífeyri frá Tryggingastofnun, er orðið 67 ára eða sjötugt, og fer ekki að vinna er auðvitað sú að fólkið verður fyrir svo mikilli skerðingu í lífeyriskerfinu ef það reynir að bæta lífskjör sín með því að taka örlitla vinnu. Þó ekki sé nema hluti af vinnu, skerðast lífeyrisbæturnar um 45% eins og málum er háttað í dag.

Til að fólkið finni fyrir þeim hvata og finni fyrir þeirri viðurkenningu frá samfélaginu sem í því felst að það taki þátt í vinnumarkaðnum er mikilvægt að koma á frítekjumarki og draga úr þeim skerðingum sem hér um ræðir.

Þetta vildi ég segja, virðulegur forseti, og varðandi frítekjumarkið er það krafa aldraðra að því sé komið á.