133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[14:38]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu fyrir svörin. Ég verð þó að segja að í þessum norræna samanburði NOSOSKO, sem við notum oft til samanburðar í lífeyrismálum, þá er þess gætt að þetta sé samræmt á milli landa. Ef ég fer rétt með tel ég að búið sé að taka til greina þá sérstöðu sem Ísland hefur í samanburði við hin löndin.

En ég vil koma aftur inn á jöfnunina. Ég nefnilega velti þessu fyrir mér þegar við ræðum þessi mál að þetta skiptir afar miklu máli. Þetta er auðvitað spurning um grundvallarhugmyndafræði almannatrygginga og um samtrygginguna.

Er það svo að Samfylkingin, jafnaðarmenn, séu að hverfa frá þeirri hugsun að samfélagið komi til móts við þá sem minnst hafa og minnst geta komið sér upp úr þeim sporum sem þeir eru í með því að forgangsraða þannig að leggja aðaláherslu á að koma á frítekjumarki fyrir þá sem geta unnið?