133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[14:41]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Hér kemur til umræðu þessi sameiginlega tillaga stjórnarandstöðunnar um aðgerðir í lífeyrismálum og er sú fyrsta af nokkrum þingmálum sem stjórnarandstaðan hefur sameinast um að flytja hér við upphaf þings. Það endurspeglar líka þá staðreynd að innan stjórnarandstöðunnar er mjög góð samstaða um að þetta sé eitt allra brýnasta verkefnið sem þarf að ráðast í í íslensku samfélagi, þ.e. að bæta verulega kjör þessa hóps almennt talað, aldraðra og öryrkja, og undirbúa nýja skipan þessara mála inn í framtíðina sem tryggir þessum hópum betur bærilega afkomu í okkar ágætlega ríka samfélagi.

Tillagan er tvíþætt. Felur annars vegar í sér bráðaaðgerðir sem koma eiga til framkvæmda strax um næstu áramót og hins vegar stefnumótun eða undirbúning undir stefnumótun og breytingar í þessum efnum til framtíðar litið. Þar er sérstaklega átt við vandaða könnun á raunverulegum framfærslukostnaði, raunverulegum kostnaði þessa fólks við að reka heimili sín eða framfleyta sér. Og síðan afkomutryggingu sem byggir á slíkum grunni.

Ýmsar æfingar hafa verið í þessum efnum undanfarin ár. Menn hafa ýmist tengt þetta vísitölum eða aftengt þær. Á tímabili gætti mjög ríkrar tilhneigingar til tekjutenginga sem menn síðan komust að raun um að hefðu gengið út í öfgar og eru svo að reyna að vinda ofan af núna.

Fyrsti liður tillögunnar er almenns eðlis, að hækka hina almennu tekjutryggingu til allra. Þess njóta allir og auðvitað ekki síst þeir sem fyrst og fremst verða að reiða sig á greiðslur úr almannatryggingakerfinu. Þar með er strax að hluta til svarað spurningu hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur áðan um viðhorf okkar til annars vegar þeirra sem geta aflað sér einhverra viðbótartekna og bætt þannig stöðu sína og hinna sem ekki eru í aðstöðu til þess. Það er hugsað um báða hópana í tillögunni. Hún er í mjög góðu jafnvægi hvað það snertir. Það er gert með því að hækka tekjutrygginguna. Það er gert með því að hækka vasapeningana og það er gert með því að horfa til framtíðar og leggja grunn að nýrri lífskjaratryggingu eða afkomutryggingu.

Það er hins vegar hárrétt og fullgilt að spyrja spurningarinnar hvernig kerfið eigi að vera að þessu leyti. Svarið er: Bæði. Það er nefnilega alveg á hreinu að ekki verður samstaða um að fara aftur á bak með almannatryggingakerfið á Íslandi í átt til aukinnar fátæktarnauðþurftahugsunar. Þetta er kerfi sem um langt árabil hefur samanstaðið af tveimur þáttum. Annars vegar almennri tryggingu og hins vegar tekjutengdum viðbótargreiðslum. Þannig er þetta búið að vera alllengi.

Vandinn er hins vegar sá að menn fóru á löngu árabili offari í að færa yfir í tekjutengda hlutann miklu meira og meira af greiðslunum þangað til eftir stóð nánast enginn almennur grunnur. Þannig veikist kerfið og samstaðan um það rofnar. Aðalsmerki norrænu kerfanna hefur alltaf verið það að í þeim er fólgin almenn samtrygging sem allir njóta. Hitt er svo augljóst mál að það getur verið, þegar menn hafa takmarkaða fjármuni handa á milli, að freistandi sé að tekjubinda ráðstöfun þeirra með þá hugsun að leiðarljósi að ná til þeirra sem í mestri eru þörfinni.

Þeirri leið er ekki hafnað hér. Ég mundi aldrei standa að tillöguflutningi sem hafnaði með öllu tekjutengdum ráðstöfunum til að reyna að skila fjármunum til þeirra hópa sem eru í mestri þörf. Því getur hv. þingmaður alveg treyst. Þá stæði ég ekki hér sem einn af flutningsmönnum þessarar tillögu. Hún er þvert á móti að mínu mati í mjög góðu jafnvægi milli þeirra meginsjónarmiða að innihalda sterka almenna tryggingu á félagslegum eða samtryggingarlegum grunni, „sólídarískum“, eins og stundum er sagt á norrænum málum, og hins vegar ráðstafanir þar til viðbótar. Verið er að draga úr þessari tekjutengingu sem komin var út í ógöngur. Það er líka fagnaðarefni að afnema á tengingu við tekjur maka. Það er spurning um sjálfstæði og mannlega reisn sem þar býr að baki.

Frítekjumarkið hefur þann stóra kost, eins og hér hefur komið fram, að bjóða upp á möguleika fyrir fólk að bæta stöðu sína en kannski ekki síður að vera þátttakendur áfram í samfélaginu í einhverjum mæli og kraftar þess séu nýttir. Við getum alveg eins litið á aðgerðina sem hvatningaraðgerð í því sambandi eins og að líta endilega á hana sem aðgerð fyrst og fremst til að bæta kjör hópsins. Þetta er kannski ekkert síður tilboð um það. Við erum að segja við þetta fólk: Þeir sem hafa aðstöðu til, vilja og getu eru boðnir velkomnir til að leggja áfram sitt af mörkum í samfélaginu í einhverjum mæli. Ég held að með auknu langlífi og batnandi heilsu sé full ástæða til að gera þetta. Jafnvel þó að atvinnuþátttaka aldraðra á Íslandi sé mikil.

En má ég þá minna á að atvinnuþátttaka Íslendinga er almennt mikil. Það eru ekki bara aldraðir sem vinna miklu meira en samanburðarhópar í nálægum löndum, það gera allir Íslendingar. Það nemur næstum tíu stundum á viku hjá mörgum hópum. Það er ekki óalgengt að íslenskar starfsstéttir, t.d. iðnaðarmenn, vinni 47 til 50 tíma að meðaltali á viku á sama tíma og starfsbræður þeirra annars staðar á Norðurlöndunum vinna 35 til 40 tíma. Aldraðir í samfélagi okkar eru þarna bara á sama báti.

En tillagan tekur líka mið af útgangspunkti í þeirri staðreynd og vissu okkar að það eru ekki og munu ekki verða allir í færum til að nýta sér þetta tilboð. Það er alveg ljóst. Við vitum það. Það verða aldraðir og þá verða það sérstaklega öryrkjar sem ekki eru í aðstöðu til þess að njóta góðs af slíku frítekjumarki. Þess vegna m.a. nefnum við þann möguleika að skoðað verði að menn megi þá nýta það að einhverju leyti á móti lífeyrissjóðsgreiðslum, tekjum frá lífeyrissjóði og jafna þá aftur úr þeirri áttinni svolítið aðstöðu þessara tveggja ólíkt settu hópa.

Ástæður þess að menn geta ekki nýtt sér að bæta við tekjum með vinnu geta verið mismunandi. Það geta verið heilsufarsástæður og það geta líka verið samfélagslegar ástæður, ástandið í atvinnumálum, svæðisbundið geta verið litlir möguleikar til þess kannski fyrir fólk á viðkomandi svæði að fá vinnu o.s.frv.

Að lokum vil ég segja, frú forseti, að ég held að ákaflega mikilvægt sé að við nálgumst þetta viðfangsefni með því hugarfari að við erum í millibilsástandi með þessi mál á Íslandi. Við eigum enn 15, 25 ár eða svo í land að lífeyrissjóðakerfi landsmanna verði fulluppbyggt og þroskað. Á meðan það er ekki munu verða hópar sem fara inn á eftirlaunaaldur með mun lakari kjör en síðar verður og aðstaða fólks verður þarna að þessu leyti mjög mismunandi.

Við viljum jafna þá stöðu. Hvaða einstaki stóri hópur er það sem hér kemur til með að eiga mest í hlut? Það eru konur. Munum eftir því. Þær búa til muna við lakari lífeyrisrétt en karlar. Þær fá lægstu greiðslurnar úr kerfinu. Ef við ætlum ekki að dæma þær til lakari lífskjara líka á síðustu æviárunum þá (Forseti hringir.) tökum við á þessu.