133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[15:10]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu sem gerð var skal ég fullvissa hæstv. ráðherra um að það er bullandi óánægja í röðum aldraðra með þessa yfirlýsingu. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi lesið blöðin og ýmsar greinar sem þar hafa komið fram, þar sem kemur fram óánægja eldri borgara. Þeir segja að þeir hafi verið knúnir til þessa samkomulags að því er varðar lífeyriskaflann, sem þeir eru fyrst og fremst óánægðir með, vegna þess að þeim hafi verið tjáð að annars yrði búsetuþátturinn, sem þeir leggja mikið upp úr, í uppnámi. Þeim hafi því í reynd verið þröngvað til þessa samkomulags að því er varðar lífeyriskaflann.

Ég hef heyrt sérstaka óánægju með þetta frítekjumark og að það skuli ekki verða fyrr en eftir fjögur ár sem það verður 25 þús. kr. á mánuði, en við leggjum til 75 þús. kr. á mánuði strax 1. janúar. Ég er sannfærð um að þeir munu gera kröfu til þess þegar þingmálið kemur inn í þingsali að þetta frítekjumark verði strax hækkað. Það er ekkert annað en skammsýni hjá hæstv. ríkisstjórn að koma ekki þegar á þessu frítekjumarki. Það er ávinningur fyrir samfélagið ef lífeyrisþegum er gert kleift að geta aflað sér smávægilegra tekna án þess að skerða lífeyrisgreiðslurnar. Þess vegna bið ég hæstv. ráðherra lengstra orða að skoða það að þetta frítekjumark taki gildi strax. Öllu er raunverulega ávísað á næstu ríkisstjórn. Því litla sem ríkisstjórnin ætlar þó að gera er mestmegnis ávísað á næstu ríkisstjórn.

Því til viðbótar var samið um 15 þús. kr. hækkun sem kom til framkvæmda á miðju þessu ári. Það var þegar í hendi, virðulegi forseti, vegna þess að búið var að semja um þessar 15 þús. kr. á almenna markaðnum og lífeyrisþegar fengu þessar 15 þús. kr. Það var því ekkert samið til viðbótar við lífeyrisþega í þessu samkomulagi.