133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[15:12]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get nú alls ekki tekið undir það að það hafi verið lítið sem lagt var til málefna aldraðra núna með samkomulaginu. Það eru tólf milljarðar sem fara bæði í þjónustuþáttinn og í greiðslur. Ég held að það sé alveg ljóst að það er ekki lítið. Það eru verulegar upphæðir. (Gripið fram í.) Þetta var samkomulag sem var gert við þá sem tóku þátt í þessu starfi, Landssamband eldri borgara. Þetta er samkomulag, yfirlýsing sem felur í sér samkomulag og það náðist niðurstaða.

Auðvitað er það alltaf þannig þegar menn ræða þessi mál og reyna að semja — ég líkti þessu áðan við kjarasamninga — að þeir fá ekki allt fram sem þeir vilja. Það er ósköp eðlilegt. En þetta er niðurstaða sem menn ákváðu að fara fram með og ljúka nefndarstarfinu með þessu samkomulagi. Þetta er niðurstaða. Ég tel að hún sé góð og stend á bak við hana og ætla að gera mitt til þess að koma henni í framkvæmd og nú er verið að vinna að frumvarpi til að koma þessu samkomulagi í gagnið.

Hv. þingmaður sagði að það væri verið að vísa öllu hér inn í framtíðina. Það er nú ekki rétt. Ég var að segja hérna áðan að ef draumur hv. þingmanns rætist og Samfylkingin kemst í ríkisstjórn þá getur Samfylkingin auðvitað breytt lögum. Það er bara þannig. Ný ríkisstjórn getur alltaf breytt lögum, nýtt þing. En þetta samkomulag er mjög mikið framfaraskref og við það munum við standa.

Hér var sagt að þetta væri of lítið. Ég vil þá draga fram að við erum nýbúin að koma með aðgerðaáætlun til þess að lækka verð á matvælum. En þá segir Samfylkingin: „Þetta er allt of lítið. Þetta ætti að vera miklu meira.“ Ég bara spyr, af því að þetta eru mikil útgjöld: Er Samfylkingin enn þá á þeirri leið að vilja bara útgjöld, útgjöld og geta ekki sýnt fram á tekjuaukningu á móti? Mér finnst það óábyrgur málflutningur.